Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 31. mars 2021 23:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enduðu með of marga - „Fullkomin lausn fyrir Willum"
Icelandair
Willum var ekki í hóp í dag.
Willum var ekki í hóp í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, ræðir við Ísak Bergmann Jóhannesson eftir leikinn í kvöld.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, ræðir við Ísak Bergmann Jóhannesson eftir leikinn í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti athygli að Willum Þór Willumsson var ekki í leikmannahópi Íslands gegn Liechtenstein í undankeppni HM í dag.

Willum kom upp í A-hópinn ásamt þremur öðrum úr U21 landsliðinu, þeim Jóni Degi Þorsteinssyni, Ísak Bergmanni Jóhannessyni og Sveini Aroni Guðjohnsen.

Sveinn Aron byrjaði en Jón Dagur og Ísak komu inn af bekknum í seinni hálfleik.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, segist hafa óttast eftir Armeníuleikinn að hann væri að kalla inn of fáa leikmenn úr U21 landsliðinu en sú varð ekki raunin.

„Eftir Armeníuleikinn erum við að missa þrjá leikmenn í meiðsli og aðra fjóra sem eru mjög tæpir. Við þurfum að taka ákvörðun strax sama kvöld og leikurinn er búinn. Við vorum hræddir um að við værum að taka of fáa úr U21, að við yrðum ekki með fullan hóp í dag. Okkar sjúkraþjálfarar og læknir unnu frábært starf og náðu að gera leikmenn okkar leikfæra. Í staðinn fyrir að vera með of fáa leikmenn vorum við með of marga," sagði Arnar.

„Ég tel samt fyrir Willum að hafa spilað tvo leiki á lokamóti með U21, koma í fyrsta sinn í A-landsliðsumhverfið og vera með okkur í alvöru leik í undankeppni, það er líka alvöru skref. Þessi gluggi fyrir Willum er búinn að vera mjög mikilvægur í hans þróun sem leikmaður. Að mínu var þetta hin fullkomna lausn fyrir hann."

Fréttamaður Fótbolta.net spurði Arnar að því hvort að það hefði verið erfitt að láta Willum vita að hann yrði ekki í hóp í dag.

„Það var ekki erfitt. Ég sagði við Willum að hann hefði staðið sína plikt vel með U21 landsliðinu. Við völdum hann með það í huga að hann yrði í hópnum en það gerðist ekki. Það var mikilvægt fyrir hann að vera í kringum þetta, sjá hvernig þetta virkar og kynnast okkar reynslumestu mönnum. Hann skildi það mjög vel þó að hann hefði verið svekktur. Það hefði verið óeðlilegt ef hann hefði ekki verið svekktur."

Ósammála um Willum
Arnar Gunnlaugsson og Atli Viðar Björnsson ræddu þetta á RÚV í kvöld og voru þeir ósammála.

Atli Viðar sagði að þetta hefði „eiginlega verið skandall" en Arnar var alls ekki sammála því. „Ég ætla að vera ósammála í fyrsta skipti síðan við byrjuðum í síðustu viku hérna," sagði Arnar.

„Mér finnst þetta frábært fyrir Willum að koma inn í A-hópinn og kynnast því hvernig hlutirnir virka. Lyktin er öðruvísi í búningsklefanum hjá karlmönnum en strákunum. Þó þetta hafi verið ein æfing, þá var þetta vel þess virði," sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner