Þórður Einarsson skrifar:
Það er auðvelt fyrir meðal-Jón að sitja heima og agnúast yfir ákvörðun knattspyrnumannsins Arons Jóhannssonar um að leika með Bandaríkjum norður Ameríku. Það er auðvitað hægara sagt en gert að setja sig í spor hans. En hverju sem því líður geta allir haft skoðun á ákvörðun pilts um að leika fyrir aðra þjóð en sína og hér á eftir ætla ég, meðal-Jón sjálfur, að lýsa undrun minni.
Bæði á ákvörðun leikmannsins sem og þeim ótrúlega stuðningi sem hann fær frá fólki hérlendis fyrir það að velja að spila ekki fyrir landið sitt.
Bæði á ákvörðun leikmannsins sem og þeim ótrúlega stuðningi sem hann fær frá fólki hérlendis fyrir það að velja að spila ekki fyrir landið sitt.
Það er nefnilega svo að hann valdi að spila ekki fyrir Ísland. Síðast þegar ég vissi voru landsliðin okkar og afreksmenn í íþróttum þjóðarstolt. Íþróttamenn vekja upp vonir meðal ungra, væntingar meðal þeirra eldri og hamingju meðal allra þegar vel gengur.
Það er byr í seglin þegar á móti blæs í þjóðfélaginu og þjóðmálaumræðann getur mann lifandi drepið. Það er þörf á því að Íslendingar nái að sameinast þó ekki nema endrum og sinnum í kringum góðan árangur eða sameiginlega hagsmuni. Allir glöddust á dögunum þegar Aníta Hinriksdóttir varð heimsmeistari unglinga í 800 metra hlaupi. Það vakti hjá okkur stolt, samkennd og samhug. Við börðum á brjóst okkur og fylltumst bjartsýni sem er svo nauðsynleg, þó hún geti varað skammt í fannfergi neikvæðninnar hérlendis.
Við erum nefnilega samfélag. Við mótumst af samfélaginu og erum alin upp í því. Mér þykir miður að Aron Jóhannsson skuli velja að skila ekki til baka til samfélagsins. Hér sleit hann barnsskónum, menntaði sig og bjó en valdi svo að hafna landi sínu og þjóð þegar hann fékk svo sjaldgæft en um leið dýrmætt tækifæri til að borga til baka. Tækifæri til að gleðja þjóð sina sem við hinum fáum ekki öll.
Aron er alinn upp undir hjálmi KSÍ og hefur leikið með yngri landsliðum á leið sinni til frama. Svo þegar framinn knýr dyra þá ætlar hann að velja sjálfan sig en ekki þjóð sína. Hefði hann nokkurn tímann átt að fá eða átt skilið að fá sæti í landsliðum okkar á kostnað annarra drengja ef það hefði verið vitað að hann myndi velja sjálfan sig fremur en þjóð sína? Undarlegt nokk þá fagna því fjöldinn allur af fólki að hann valdi þetta og jafnvel hafa verið settar upp stuðningssíður á internetinu.
Minnir þetta óneitanlega á hugsunarhátt góðærisáranna. Ekkert ólíkt viðhorf og útrásarvíkingarnir höfðu sem ætluðu að sigra heiminn, því Ísland var ekki nægjanlega stórt fyrir þá. Við ákvarðanatökuna er ekki að sjá að Aron hafi á nokkurn hátt hugsað um annað en sjálfan sig. Margir hafa komið til og sagt það mjög skiljanlegt. En er það ekki einmitt það hugarfar sem við sem samfélag viljum ekki búa til? Samfélag þar sem allt hringsnýst um mann sjálfan. Samfélag með sömu ömurlegu grunngildi og góðærisárin á Íslandi. Samfélag þar sem peningar og völd voru ofar öllu öðru. Samfélag sem hrundi og er enn móralskt verið að reyna að reisa við. Viljum við ala börn okkar upp við það að allt nema þú, skiptir engu máli? Að það þjóðfélag sem þú ert alinn upp í og hefur þjónað þér í námi og leik, sé bara fyrir þig að nota en aldrei að þjóna? Er það virkilega svo að við viljum að börn okkar verði ekki nýtir þjóðfélagsþegnar og taki þátt í samfélaginu og hafi að leiðarljósi samkennd, samhug og samvinnu.
Ætlar Aron Jóhannsson að kynna sig hér eftir fyrir umheiminum sem Bandaríkjamann? Ætlar hann seinna að setjast þar að og ala börn sín? Eða ætlar hann svo aftur að mæta í samfélagið okkar. Erum við þá nógu góð til að þjóna honum?
Svo má taka í reikninginn og alls ekki gleyma að Aron gat valið um að leika með landi sínu Íslandi sem er heiður sem hvert mannsbarn í knattspyrnu dreymir um, bæði drengi og stúlkur. Hann gat valið að spila með Ísland, fyrir þjóðina sína og fólkið sitt. Hann hefði þá farið í lið sem er nokkuð frambærilegt og svei mér þá ef það er ekki möguleiki á einhverjum tímapunkti að komast á stórmót. Nú er búið að stækka til að mynda Evrópumótið og allir möguleikar fyrir hendi að komast á stórmót meðan gullkynslóð íslenskrar knattspyrnu er að ríða úr hlaði. En hann velur Bandaríkin í stað þess að reyna að hjálpa til við að gera draum Íslendinga um að spila á stórmóti að veruleika. Og þessu fagna Íslendingar margir hverjir. Hvernig er hægt að fagna slíkri ákvörðun?
Það er nefnilega ekki svo að hann hafi verið að velja um að spila fyrir eitt besta landslið heims annarsvegar og einhverja ótýnda sveitamenn hinsvegar. Hann gat valið að spila með tveimur frambærilegum liðum. Annað liðið er þjóðin hans, landið hans, félögin hans og uppeldisstöðvar hans sem knattspyrnumanns. Hitt er Bandaríkin.
Aron er drengur góður, það efast ég ekki um nokkra stund. En mér finnst meðan hann enn getur að hann eigi að snúa við blaðinu í þessu máli og spila fyrir þjóð sína og verða henni að gagni. Það ætti að vera okkur öllum keppkefli að skila til baka til samfélagsins því er við getum.
Athugasemdir