Albert Örn Jónsson er fæddur 4. ágúst 1969 samkvæmt hans eigin upplýsingum. Hann virðist samt ekki vera til í þjóðskrá og verður því að kallast huldumaður.
Af spjallborðinu 20. september 2009
,,Takk leikmenn og Leifur Garðarsson fyrir frábæran fótbolta í gær. Ár og dagar síðan Víkingur hefur spilað jafn flottan fótbolta og í Víkinni í gær.''
,,Takk leikmenn og Leifur Garðarsson fyrir frábæran fótbolta í gær. Ár og dagar síðan Víkingur hefur spilað jafn flottan fótbolta og í Víkinni í gær.''
Albert Örn spyr Heimir Guðjónsson
,,FH ævintýrið byrjaði árið 2000 en þegar Ólafur Jó tók við liðinu 2004 þá tapaði liðið nánast öllum leikjum á undirbúningstímabili þangað til Leifur Garðarsson kom inn sem aðstoðarþjálfari. Mig langar að forvitnast um þátt Leifs Garðars í þeim uppgangi?''
,,FH ævintýrið byrjaði árið 2000 en þegar Ólafur Jó tók við liðinu 2004 þá tapaði liðið nánast öllum leikjum á undirbúningstímabili þangað til Leifur Garðarsson kom inn sem aðstoðarþjálfari. Mig langar að forvitnast um þátt Leifs Garðars í þeim uppgangi?''
albertjons á spjallborðinu 29. september 2010
,,Til upplýsinga fyrir manninn með vatnið. Albert og albert eru sami maðurinn Ég týndi aðganginum og opnaði því nýjan. Er ekki mjög virkur hér en reyni að vera jákvæður og málefnalegur.''
,,Til upplýsinga fyrir manninn með vatnið. Albert og albert eru sami maðurinn Ég týndi aðganginum og opnaði því nýjan. Er ekki mjög virkur hér en reyni að vera jákvæður og málefnalegur.''
Hver er hann, maðurinn sem kemur alltaf til varnar Leifi Garðarssyni þjálfara Víkings á spjallborði félagsins? Þessi spurning hefur gengið manna á milli undanfarin ár og nú er þessi huldumaður kominn á Facebook.
Sami aðili hefur gengið undir tveimur nöfnum á spjallborði Víkings, Fyrst um sinn Albert Örn, svo Albert Jónsson og svo aftur Albert Örn. Á Facebook heitir hann Albert Örn og er sagður fæddur 4. ágúst 1969. Myndin af honum vekur athygli enda bara stæltur karlmanns magi. Svo virðist sem um uppskáldaðan einstakling sé að ræða enda stemma upplýsingarnar engan veginn við þjóðskrá.
Albert Örn Jónsson heitir maðurinn samkvæmt því sem hann staðfestir sjálfur á einum spjallþræðinum á Víkingur.net, að Albert Örn og Albert Jóns séu sami maður.
Nafnið Albert Örn Jónsson er ekki til í þjóðskrá og þegar litið er yfir alla einstaklinga fædda 4. ágúst 1969 er engan Albert að finna.
Á 16 vini á Facebook
Þessi aðili fer mikinn í lofræðum um Leif og er fljótur að koma honum til varnar þegar þess þarf. Síðast gerðist þetta í gær í ummælum við færslu Sunnudagsmessunar á Facebook. Einn notandi sem heitir Elvar sagðist hafa verið farinn að taka Sunnudagsmessunni sem frábærum skemmtiþætti, en svo birtist Leifur Garðars! Albert Örn svaraði því svo tveimur tímum síðar:
,,Flottur þáttur í gær. Elvar minn - líklega ertu Púllari og þess vegna kemurðu með svona leiðindi. Fannst þátturinn flottur. GBen snilld að venju, HH og LSG beinskeyttir. Skemmtilegir orðaleikir hjá þeim þremur."
Á Facebook á Albert Örn 16 vini og hægt er að sjá þrjá þræði þar sem hann hefur sent inn ummæli. Í öllum tjáir hann sig um Leif, í þessum hér að ofan, og svo í tveimur þar sem hann líkir Leifi við Guðmund Guðmundsson landsliðþjálfara í handbolta.
,,Hrikalega eru Gummi Gumm þjálfari og Leifur Garðars þjálfari Víkings líkir í útliti - áttaði mig á því þegar GG var dansandi á hliðarlínunni í gær," segir til að mynda þar.
Upphafið á Víkingur.net
Upphafið að þessu öllu var á spjallborði vefsins Víkingur.net, sem er vefur stuðningsmanna Víkings. Þar skráði Albert Örn sig fyrst inn 13. ágúst 2009 og hefur síðan sett inn 14 færslur, undir tveimur nöfnum, Albert Örn og Albert Jóns.
Fyrsta færslan sem Albert Örn tjáir sig við er þráður þar sem stuðningsmaður spyr afhverju Marteinn Briem byrjar ekki alla leiki. Albert svarar þeim þræði og segir meðal annars:
,,Vil hrósa þjálfaranum sem hefur sett sitt traust á unga Víkinga og ég hef tekið eftir honum á mörgum leikjum 2. flokks og meira segja 3 leikjum í 3. flokki. Erum líka að spila 100% betri fótbolta en verðum að klára færin. Þar liggur fjárans hundurinn. Fyrri þjálfari henti öllum í Berserki eða leyfði mönnum ekki að æfa."
Segir Leif hafa átt stóran þátt í velgengni FH
Á eftir þessu kemur fjöldi færslna en færsla númer tvö vekur einnig athygli. Þar er þráður sem stuðningsmaður gagnrýnir Leif þjálfara og vill fá Andra Marteinsson aftur í Víkina. Albert Örn svarar þar eigin spurningu um hvort Leifur hafi ekkert gert sem aðalþjálfari. Grípum inn í svarið:
,,Hann kom Fylki í evrópukeppni og tvisvar í undanúrslit bikarsins á þremur árum ?? Hefur Víkingur gert meira en það á undanförnum árum ?? Auk þess sem hann átti stóran þátt í velgengni FH - raunar upphaf að þeirri velgengni sem nú stendur yfir. Ólafur landsliðsþjálfari hefur margoft sagt frá því í viðtölum um þá tíma. Er ekki nær að við styðjum við bakið á strákunum, sem hafa leikið vel en verið óheppnir fyrir framan markið, það hlýtur að fara að falla með okkur."
Albert Örn er enn að tjá sig um málefni félagsins og tjáir sig ekki bara um Leif Garðarsson. Í vetur hefur hann til dæmis tjáð sig um það þegar Víkingur staðfesti að Leifur yrði áfram þjálfari félagsins í október.
,,Flottar fréttir - óttaðist að við ætluðum að fá enn ein þjálfaraskiptin. Hef fylgst með þjálfaranum og leitað álits á honum annars staðar, t.d. í Árbænum - fær alls staðar toppeinkunn hvað skipulag og vinnusemi varðar - það skilar sér hjá okkur í Víkinni," sagði í færslu 3. október og upp á síðkastið hefur hann einnig gagnrýnt umfjöllun Víkingur.net um dómgæslu í jafntefli liðsins gegn Leikni á dögunum sem og sett út á neikvæðan stuðningsmann sem bjóst við tapi í þeim leik.
Sendir einnig tölvupósta
Albert Örn er reyndar ekki bara virkur á spjallborði og Facebook því Fótbolti.net hefur allavega þrisvar fengið sendan frá honum tölvupóst.
Í eitt skiptið var Heimir Guðjónsson þjálfari FH að svara spurningum lesenda í útvarpsþættinum Fótbolta.net. Lesendur máttu þá senda tölvupóst með spurningu og hún var lesin upp í þættinum. Í spurningunni kom Albert Örn inn á hvernig gengi liðs FH breyttist til batnaðar eftir að Leifur var ráðinn aðstoðarmaður Ólafs Jóhannessonar með liðið.
Í eitt skipti, haustið 2009 tilkynnti Albert að Leifur hafi framlengt samningi sínum við Víking og síðastliðið haust sagðist hann hafa rökstuddar heimildir fyrir því að Leifur væri að taka við liði Keflavíkur.
Hulunni ekki svipt...
En þrátt fyrir að geta rakið allar þessar sögur um huldumannin Albert Örn Jónsson er eitt sem ég get ekki, svipt hulunni af því hver þessi maður er, sem er svona áhugasamur um Leif Garðarsson. Eflaust les Albert Örn þennan pistil og gæti því hugsanlega haft samband við okkur og gefið nánari deili á sér og þessum mikla áhuga?
Sjá einnig:
Albert Örn á Facebook (Aths. búið að eyða)
Spjallþræðir eftir Albert Örn á Víkingur.net (1)
Spjallþræðir eftir Albert Örn á Víkingur.net (2)
Spjallþræðir eftir AlbertJóns á Víkingur.net
Svör Heimis Guðjónssonar við spurningum lesenda
Athugasemd:
Pistillinn var skrifaður mánudaginn 2. mars og fyrst ætlaður til birtingar daginn eftir en var frestað til dagsins í dag. Að morgni þriðjudags var Facebook aðgangi Alberts eytt en þá hafði eitthvað kvissast út að umræddur pistill væri í vinnslu.