fim 24. mars 2011 08:30
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Minning
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
Við bræður á leið á  leik með FH.
Við bræður á leið á leik með FH.
Mynd: Dagbjört Rún Guðmundsdóttir
Maggi með skoskum stuðningsmanni eftir landsleik í Laugardalnum árið 2003.
Maggi með skoskum stuðningsmanni eftir landsleik í Laugardalnum árið 2003.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mósaíkmyndin sem Maggi gerði í Kaplakrika.
Mósaíkmyndin sem Maggi gerði í Kaplakrika.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Við bræður á leik í Kaplakrika.
Við bræður á leik í Kaplakrika.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Ég ætla að misnota aðstöðu mína aðeins og minnast hér bróður míns, Magnúsar Guðmundssonar sem lést alltof snemma, aðeins 33 ára gamall 15. mars síðastliðinn eftir erfið veikindi. Maggi var ekki bara bróðir minn, hann var líka minn besti vinur, og við mjög nánir enda innan við ár á milli okkar í aldri. Hann verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju klukkan 15:00 í dag.

Reyndar ætla ég að minnast hans útfrá fótboltanum þar sem við áttum svo ótrúlega margar ljúfar stundir saman undanfarin ár og það kemur þá enn skýrar fram en nokkru sinni að ég og við bræður fengum það með móðurmjólkinni að styðja FH og höfum gert alla tíð af eins miklum krafti og við gátum.

Framan af vorum við bræður vakandi og sofandi yfir handboltanum í FH þar sem við æfðum báðir og vorum öllum stundum en fótboltaáhuginn hans meginn var lítill sem enginn. Það var ekki fyrr en í kringum aldamótin þegar hann þurfti að liggja margar vikur heima eftir að hafa farið í aðgerð á baki að hann féll fyrir fótboltanum enda meðleigjandi hans forfallinn og ekki kom annað til greina en að hafa sjónvarpið stillt á enska boltann. Honum varð það á að velja að styðja Manchester United, og það er eina ákvörðun hans í lífinu sem ég var honum ósammála um.

Fljótlega eftir þetta fórum við bræður því að fara saman á völlinn til að styðja okkar menn í FH og að sjálfsögðu fórum við alla leið í þeim stuðningi og fengum að fylgja félaginu eftir á gríðarlegum uppgangsárum.

Við Maggi vorum vakandi og sofandi yfir FH liðinu og mættum á alla leiki liðsins, og breytti þá engu hvort um var að ræða toppleiki yfir hásumarið eða æfingaleik í desember. Alltaf mættum við og fylgdumst með liðinu okkar.

Pælingarnar okkar á milli voru líka miklar og daglega ræddum við saman í síma og oftar en ekki snerist umræðan um FH liðið okkar á hinn ýmsa hátt. Við höfðum miklar skoðanir á liðinu á allan hátt.

Okkar skoðun var líka að það væri upplifun að mæta á völlinn. Við vildum mæta snemma á völlinnn, hálftíma fyrir leik, og njóta félagsskaps hvors annars og spjalla og spá í hvernig þjálfarinn ætlaði að spila í dag. Leikdagurinn byrjaði reyndar miklu fyrr, treyja liðsins var tekin fram snemma morguns og dagurinn fór í að pæla í leik kvöldsins.

Það var einmitt hans hugsun að skapa slíka upplifun þegar hann tók upp á því að skapa fyrstu og einu mósaík myndina sem ég veit til þess að hafi verið mynduð á fótboltavelli á Íslandi. Þar er átt við mynd sem mynduð er af pappaspjöldum sem áhorfendur halda á, mismunandi eftir hvar þeir sitja. Maggi skipulagði þetta sjálfur og fór í prentsmiðju og fékk spjöldin og raðaði svo í sætin á vellinum og tókst ljómandi vel til. Allavega miðað við að þetta er jú litla Ísland og ekki endalaust af fólki sem situr saman.

En þó svo við höfum gengið lengst í að styðja FH reyndum við á tímapunkti að ganga eins eftir íslenska landsliðinu en sögðum stopp og gáfumst upp þegar við áttuðum okkur á að KSÍ mismunar áhorfendum gríðarlega eftir stétt og stöðu. Eftir það hættum við alfarið að kaupa okkur miða á landsleiki, horfðum heldur saman á í sjónvarpi þegar ég þurfti ekki að starfa við leikina á vegum Fótbolta.net.

En fyrst ég kem að Fótbolta.net verð ég að fara nánar út í það, fyrirtækið sem ég stofnaði árið 2002 og frá fyrsta degi var hann boðinn og búinn að hjálpa til við það sem vantaði. Hann skrifaði mikið lesna pistla um ýmislegt í fótboltanum og ítarlegar greinar um menn eins og Eric Cantona, Roman Abramovich og ýmsa fleiri.

Ég gat alltaf leitað til hans með það sem þurfti að gera fyrir vefinn alveg eins og ég hafði getað áður með mitt fyrra fyrirtæki. Maggi var líka brautryðjandi fyrir Fótbolta.net því hann var fyrsti fulltrúi vefsins á erlendri grundu. Það var árið 2003 þegar hann fór fyrir hönd vefsins til Þýskalands að sjá Íslendinga leika gríðarlega mikilvægan leik enda átti Ísland möguleika á sæti á Evrópumótinu hefði þeim tekist að vinna sem reyndar gerðist ekki. Ferðin var gríðarlega skemmtileg fyrir hann og mikil upplifun.

Maggi greindist með bráðahvítblæði í júní í fyrra og eftir það reyndist honum mjög erfitt að komast á völlinn þó hann langaði mikið. Einu sinni reyndi hann þó og fékk leyfi fyrir velvild FH að mæta á bíl inn á svæðið í Kaplakrika, en það reyndist honum samt of erfitt svo hann náði ekki að endurtaka það í fyrrasumar.

Hann náði þó að fara á einn lokaleik með mér fyrr á árinu, það var í febrúar þegar við fórum í Kórinn og sáum liðið leika við Breiðablik í Fótbolta.net mótinu. Hann var orðinn mjög veikur þá og átti mjög erfitt með að hreyfa sig.

Hans ætlun var samt sem áður alltaf að sigrast á krabbameininu og komast aftur í sitt daglega líf. Planið var að taka baráttuna næstu tvö árin og sigra krabbann og fara á Bahamas árið 2012.

Því miður hafði krabbinn betur því mánudaginn 14. mars síðastliðinn fengum við fjölskyldan þau tíðindi að baráttan væri töpuð, hann ætti aðeins 1-2 daga eftir. Hann hafði þá verið í næstum tvær vikur á gjörgæslu Landspítalans vegna veikindanna. Hann kvaddi svo daginn eftir það.

Minningin um litla bróður minn lifir. Hann var frábær náungi, lífsglaður húmoristi sem tók á móti öllu mótlætinu brosandi. Ég á eftir að sakna þess sárt að geta ekki heyrt í honum og spjallað við hann, og get ekki talið hversu oft mig hefur langað að geta hringt í hann síðustu daga til að ræða við hann um fótbolta og annað.

Þessi pistill snýr að okkur bræðrum og fótboltanum, þó auðvitað höfum við átt svo margt annað sameiginlegt og margar minningar utan hans einnig. Þær lifa áfram.

Ég vil að lokum þakka öllum veittan hlýhug í tengslum við andlát Magga, og þá sérstaklega FH sem hefur reynst okkur mjög vel á þessari erfiðu stundu. Þrátt fyrir að hafa tapað baráttunni við krabbann 15. mars er hann enn í einni baráttu, því skömmu áður en hann lenti á gjörgæslu vegna veikinda sinna skráði hann sig til keppni í Mottumars þar sem hann er langefstur. Þá baráttu ætlar hann að vinna með stæl. Smelltu hér til að fara á Mottumars.
banner
banner
banner
banner