Fjölmiðlar eru oft gagnrýndir en sjaldan eins mikið og þegar kemur að umfjöllun um kvennaknattspyrnu sem þykir lítil miðað við annað. Vissulega er rétt að minna sé fjallað um kvennaknattspyrnu en aðra knattspyrnu en áhuginn á að bæta úr því verður líka að koma frá félögunum sjálfum.
Félögin stofnuðu með sér samband snemma á síðustu öld, Knattspyrnusamband Íslands, þar sem fjöldi manns starfar. Getur verið að þar á bæ skorti metnað til að ýta undir þessa umfjöllun?
Nú um helgina mun U17 ára landslið kvenna leika í lokakeppni Evrópumóts U17 ára landsliða í Sviss. Fótbolti.net vildi fjalla myndarlega um mótið og hafði hug á því að senda sinn fulltrúa út með liðinu.
Leitað var til KSÍ, og óskað eftir samvinnu. Hún snerist að því að fulltrúi Fótbolta.net fengi að fara með sama flugi og liðið, bókaði sig á sama hóteli, og ferðast með liðinu til æfinga og leikja. Fótbolti.net bæri allan kostnað, og mætti aðeins á fjölmiðlatengda viðburði hjá liðinu, en þar sem mótið er stutt, aðeins þrír dagar, væri með þessum hætti hægt að nýta tímann betur í að fjalla vel um liðið.
Svar sambandsins var á þann hátt að okkar fulltrúi gæti farið í sama flugi og liðið út en eftir það væri óskað eftir að okkar fulltrúi væri ekki á sama hóteli eða í samfloti með liðinu.
Nú er ekki eins og liðið verði kaffært í fjölmiðlamönnum í ferðinni því íslenskir fjölmiðlar eru ekki að mæta í slíkar ferðir. Ég get ekki skilið sem svo að KSÍ hafi áhuga á aukinni umfjöllun þegar samvinnan er engin.
Þetta er reyndar ekki vandamál sem er nýtt af nálinni því þegar sama lið fór í keppnisferð á síðasta ári var fulltrúa KSÍ bannað að senda Fótbolta.net myndbandsviðtöl sem voru tekin í ferðinni. Í stað þess að ná til allra fótboltaáhugamanna á Fótbolta.net, voru þau þess í stað sýnd takmörkuðum hópi á Facebook síðu sambandsins.
Er nema von að maður spyrji félögin hvort félögin séu ánægð með starfsmenn sína í sambandi þeirra, KSÍ? Nú mega þau beina reiði sinni yfir skorti á umfjöllun þangað en ekki til fjölmiðlanna.