Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   þri 23. ágúst 2011 10:15
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Afhverju ekki að fá raunverulega áhorfendur á völlinn?
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
Áhorfendur á Laugardalsvelli í gær. Ég tel 480, Framarar telja 846
Áhorfendur á Laugardalsvelli í gær. Ég tel 480, Framarar telja 846
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Hvernig væri að taka upp gamla hugmynd sem var notuð á einum velli fyrir nokkrum árum, fjölskyldutilboð, 1500 kall á völlinn fyrir alla fjölskylduna? Fyllum sætin af raunverulegum áhorfendum en ekki ýktum tölum!''
,,Hvernig væri að taka upp gamla hugmynd sem var notuð á einum velli fyrir nokkrum árum, fjölskyldutilboð, 1500 kall á völlinn fyrir alla fjölskylduna? Fyllum sætin af raunverulegum áhorfendum en ekki ýktum tölum!''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru 480 áhorfendur á Laugardalsvelli í gær sem sáu Fram vinna 3-1 sigur á Val. Ekki 846 eins og Framarar gáfu upp til fjölmiðla og í leikskýrslu á vef KSÍ.

Þetta hef ég sjálfur sannreynt með því að taka ljósmyndir í hárri upplausn af áhorfendum á vellinum í gær og telja kollana. (Sjá stóra mynd hér.)

Laugardalsvöllur getur tekið 9800 í sæti og 5200 í stæði svo nýtingin á þessum stóra leikvangi var ekki nema 3,2%.

Vinnubrögðin að ýkja áhorfendafjöldann á Laugardalsvelli eru langt frá því að vera einsdæmi í Pepsi-deildinni, þó þetta virðist ekki gert á öllum völlum. Svo virðist allavega sem tölurnar sem Framarar fengu frá vallarstarfsmönnum KSÍ í gær séu rangar.

En afhverju ekki að reyna að fá raunverulega áhorfendur á völlinn, mynda þannig meiri stemmningu og fjör í kringum íslenska boltann?

Í miðri kreppu ákváðu forráðamenn félaganna í deildinni að hækka miðaverð úr 1200 krónum í 1500 og töldu að með því væri hægt að auka tekjur félaganna.

Sú hugmyndafræði er að mínu mati álíka vitlaus og skattastefna ríkisstjórnarinnar. Þó skattar séu hækkaðir jafngildir það ekki meiri peninga í kassann, og það sama gildir um miðaverðið, ef kollunum á vellinum fækkar er hækkunin fljót að týnast.

Mig rekur ekki minni til þess að það hafi verið uppselt á deildarleik á Íslandi enda taka flestir vellirnir við mun fleiri áhorfendum en eru að mæta. Það var ekki einu sinni uppselt á Fylkisvöll þegar 4833 áhorfendur voru mættir á leik gegn KR árið 2002.

Miðað við nýtingu á áhorfendasvæðum flestra vallana er ekki hægt að segja að eftirspurnin sé of mikil og er nema von að maður spyrji hvort ekki megi lækka miðaverðið myndarlega og setja meiri kraft í að fá fólk á völlinn. Hver veit nema einmitt það verði til þess að auka tekjurnar?

Hvernig væri að taka upp gamla hugmynd sem var notuð á einum velli fyrir nokkrum árum, fjölskyldutilboð, 1500 kall á völlinn fyrir alla fjölskylduna? Fyllum sætin af raunverulegum áhorfendum en ekki ýktum tölum!

Að lokum, 3,2% nýting á Laugardalsvelli, Framarar, þið verðið að fara að finna ykkur eigin heimavöll þar sem hægt er að mynda stemmningu.
banner
banner
banner