fös 13. apríl 2012 17:00
Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net 10 ára: Orri Freyr í leikbann fyrir bloggsíðuskrif
Orri Freyr Hjaltalín.
Orri Freyr Hjaltalín.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net fagnar 10 ára afmæli sínu næstkomandi sunnudag. Í tilefni þess munum við næstu daga rifja upp nokkrar eftirminnilegar fréttir úr sögu síðunnar.

Í dag höldum við aftur til ársins 2004 en Orri Freyr Hjaltalín var þá dæmdur í leikbann eftir skrif á bloggsíðu sinni. Fótbolti.net birti frétt með færslum af síðunni og í kjölfarið var mikið fjallað um málið.

Í færslunum lét Orri Freyr dómara og fleiri menn í fótboltanum fá það óþvegið. Á endanum ákvað KSÍ að úrskurða Orra í eins leik bann fyrir skrifa hans.

,,Maður var bara ungur og vitlaus og var gripinn. Maður getur hlegið af þessu í dag," sagði Orri Freyr þegar Fótbolti.net ræddi við hann í vikunni en hann er þessa dagana í æfingaferð með Þórsurum í Portúgal.

Þegar Orri skrifaði færslurnar á bloggið var hann að leika sitt fyrsta tímabil með Grindavík. ,,Eftir að ég flutti suður notum við félagarnir þessa síðu til að spjalla okkar á milli. Ég held að ég hafi verið mest búinn að fá þrjár heimsóknir á dag áður en þetta komst upp, þá fékk ég tíu þúsund."

Meðal þeirra sem fengu að heyra það á blogginu voru Þorvaldur Örlygsson þáverandi þjálfari KA og fyrrum dómararnir Gylfi Þór Orrason og Jóhannes Valgeirsson. Orri segir ekkert hafa verið á bakvið orð sín.

,,Þetta var gert í bulli. Þetta átti bara að vera fyndið og þetta átti ekki að vera skot á einn né neinn enda áttu menn aldrei að sjá þetta. Ég hef átt í fínu samstarfi við þessa menn sem ég nafngreindi þarna og þetta breytti því ekkert."

Orri sendi frá sér afsökunarbeiðni vegna málsins á sínum tíma og Grindvíkingar einnig. Aganend KSÍ tók málið fyrir og þar var Orri fyrsti og eini leikmaðurinn í sögu Íslandsmótsins til að vera dæmdur í leikbann fyrir skrif sín á netinu.

,,Mér fannst það vera pínu ósanngjarnt en þeir gerðu þetta svona og maður varð að taka því. Þetta var mjög sérstakt en þessu fer kannski að fjölga núna þegar menn eru farnir að Twitta og annað," sagði Orri sem hefur sjálfur haft sig hægan á ritvellinum síðan árið 2004.

,,Ég er búinn að vera mjög rólegur. Ég var dæmdur í tíu ára bann af mínum liðsfélögum en það fer að renna út fljótlega. Ég skoða málin þá," sagði Orri léttur að lokum.

Fréttir tengdar málinu:
Dónalegur Grindvíkingur
Afsökunarbeiðni frá Orra Frey Hjaltalín
Tilkynning frá Grindavík vegna Orra málsins
Orri fékk eins leiks bann fyrir ummælin

Sjá einnig:
Fótbolti.net 10 ára: Undirskriftalistinn fyrir Guðna Bergsson
Fótbolti.net 10 ára: Lárus Orri hótaði að segja af sér í viðtali
Fótbolti.net 10 ára: Viðtal við Jóa Kalla gerði allt vitlaust hjá Burnley
Athugasemdir
banner
banner
banner