Ómar skrifar pistla á vef Víkurfrétta - VF.is
Nú er EM byrjað í allri sinni dýrð. Aðeins heimsmeistarakeppnin toppar þetta stórkostlega mót. Þarna mætast flest af bestu liðum í heimi, það er í raun bara Brasilía og Argentína sem maður saknar. Og mótið fer vel af stað. Reyndar var ég að horfa á mína menn í Svíþjóð tapa sínum fyrsta leik. Eftir að hafa séð leik Frakka og Englendinga þá held ég samt að þeir eigi ennþá möguleika að fara áfram. Svíþjóð hefur verið mitt lið síðan að ég bjó þar í nokkur ár. Ég flutti þangað á sautjánda ári til þess að spila með Malmö FF. Þar var ég í þrjú ár. Þarna voru margir góðir fótboltamenn og tveir af þeim spila í sænska landsliðinu í dag. Marcus Rosenberg og Zlatan Ibrahimovic. Á þeim tíma bjóst maður samt ekki við að þeir myndu eiga jafn farsælan feril og raun hefur verið.
Þegar ég kem út spila ég með unglingaliði Malmö FF sem var skipað 17 og 18 ára strákum. Marcus Rosenberg er einu ári yngri en ég og spilaði þá fyrir 16 ára liðið. Hann var hægri bakvörður og ég verð að virðukenna að ég hefði sjálfsagt ekki vitað hver hann var ef við hefðum ekki lennt í sama bekk í skóla. Það fór ekki mikið fyrir hæfileikunum á fótboltavellinum. Þegar ég er svo á eldra ári í unglingaliðinu og hann á því yngra komst hann ekki einu sinni í liðið. Hann spilaði með varaliðinu og var þá farinn að fá sénsinn sem framherji. Þegar hann er svo á eldra ári í unglingaliðinu slær hann loks í gegn sem framherji. Hann verður markakóngur unglingadeildarinnar og er færður upp í aðalliðið. Þar spilaði hann í nokkur ár en sló í gegn í meistaraflokk þegar hann var lánaður til Halmstad. Þaðan lá leiðin aftur til Malmö, svo til Ajax og þá til Werder Bremen þar sem hann spilar í dag.
Zlatan Ibrahimovic þarf varla að kynna fyrir neinum sem eitthvað fylgist með fótbolta. Hann er einn af bestu framherjum heims síðustu ár og virðist bara verða betri með árunum. Við erum jafnaldrar og fylgdumst þess vegna að í gegnum unglingaliðið. Það var samt þannig að fyrsta árið mitt hjá Malmö þá spilaði hann lítið. Hann þurfti að sætta sig við að vera mest á bekknum þar sem að aðrir framherjar gengu fyrir. Við vorum vissulega með gott lið og urðum sænskir meistarar það árið. Það var samt augljóst að Zlatan hafði hæfileika en það höfðu aðrir leikmenn líka. Zlatan var ekki nógu stöðugur og spilaði ekki nógu mikið fyrir liðið að mati þjálfaranna. Það var ekki fyrr en árið eftir sem að hann fékk að spila reglulega í unglingaliðinu. Um haustið var hann svo fyrst færður upp í aðalliðið og árið eftir sló hann svo í gegn með þeim. Þaðan lá leiðin til Evrópu og sögu hans eftir það þekkja flestir. Níu deildarmeistaratitlar á níu árum með fimm mismunandi liðum talar sínu máli.
Þó að þeir séu að mörgu leyti ólíkir eiga þeir það sameiginlegt að hafa ekki komist í lið þegar þeir voru 17 ára. Vissulega hefur Zlatan náð töluvert lengra á sínum ferli en Marcus en þeir hafa samt báðir átt flottan feril. Sérstaklega í ljósi þess í hvaða stöðu þeir voru þegar þeir voru yngri. Einhverjir hefðu ef til vill gefist upp. Farið í fýlu yfir því að vera ekki í liðinu. Ekki þeir. Þeir höfðu trú á sér og því sem þeir voru að gera. Það geta ekki allir orðið besti leikmaður í heimi. Ef maður hefur hefur samt trú á sér og gefst ekki upp er aldrei að vita hvar maður endar.
Athugasemdir