Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 11. október 2012 08:00
Arnar Már Guðjónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Prúðir nýliðar
Arnar Már Guðjónsson
Arnar Már Guðjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að ÍA en Arnar Már Guðjónsson gerir upp sumarið þeirra í pistli hér að neðan.



Vel heppnuð æfingaferð að baki og leikmenn liðsins orðnir ansi æstir í að byrja mótið. Komast á grasið á ný og að spila loksins aftur í efstu deild, en margir leikmenn liðsins að stíga sín fyrstu spor þar. Ekki var stemmningin minni í bænum þar sem að maður gat varla stigið út úr húsi án þess að maður væri tekinn á tal um standið á liðinu fyrir komandi leik.

Það voru Blikarnir sem tóku á móti okkur í fyrsta leik og náðum við að hefja mótið á sterkum 0-1 útisigri. Því var svo fylgt eftir með leik sem var örruglega stærsti leikur tímabilsins hjá okkur en það voru erkifjendurnir ÍA og KR sem mættust þar, ótrúlegur 3-2 sigur á Íslandsmeisturunum þar sem 3000 manns mættu á völlinn.

Mótið fór semsagt af stað eins og í draumi og var fljótlega farið að tala um endurtekningu frá árinu 1992 þar sem liðið kom upp um deild og lokaði deildinni svo fallega. Bæjarfélag og fjölmiðlar fóru á flug en því miður varð það nú ekki raunin eftir ansi sveiflukennt tímabil sem sveiflukóngurinn sjálfur Geirmundur Valtýsson væri stoltur af.

Vorum á einum tímapunkti meistaraefni, þann næsta lið sem var að fara niður, seinni parts móts á leið í Evrópukeppni og undir blálokin lið sem var ekki að keppa að neinu í miðjumoði. Tókum þetta svo alla leið með prúðmennsku okkar og stóðum uppi sem prúðasta lið ársins á Lokahófi KSÍ. Eitthvað sem ég hefði ekki alveg sóst eftir fyrir tímabilið en tek þetta engu að síður.

6. sætið á endanum ásættanleg niðurstaða hjá nýliðum í Pepsi Deild.

Ýmislegt gekk nú á svona fyrir utan sigra, jafntefli og töp innan vallar.
Twitter var kynnt hressilega til sögunnar og kryddaði svo sannarlega uppá sumarið þar sem að 2 fráfarandi liðsfélagar frá Englandi voru duglegir að dæla inn yfirlýsingum um hin ýmsu málefni bæjarins. Lítið sem ekkert var hægt að fara í bíó og hvað þá á almennilegt kaffihús. Það síðarnefnda hefði reyndar getað hjálpað einum framherja liðsins sem skellti sér glorhungraður á Facebook með eina bombu. Nokkuð viss um að ef menn hefðu getað skellt sér og fengið sér eina majonessmúffu með Kókómjólk í downtown Akranes að slíkt hefði ekki gerst.

Sektarsjóðurinn sem Páll Gísli Jónsson heldur svo snyrtilega utan um með sinn fallega aðstoðarmann Árna Snæ Ólafsson var á sínum stað eins og vanalega. Lítil breyting var á skiptingu hans og virðast ungir leikmenn liðsins bara ekki geta lært að leggja sín föt í þvottakörfuna án þess að hafa þau á röngunni. Einnig voru áberandi sektir þar sem Gamlir unnu Unga ítrekað stórt á æfingu og voru ungir sektaðir við hæfi þar. Það ber þó að hrósa Aroni Ými fyrir að næla sér ekki í eina hámarkssekt með því að verða sér til skammar á vegum félagsins.

Tímabilið var svo endað með Flöskuleiknum árlega þar sem að Gamlir unnu Unga glæsilega 7-2 á Akranesvelli.

Öll umgjörð í kringum liðið var virkilega góð og ber að hrósa öllum þeim sem hjálpuðu til á einhvern hátt. Glæsileg myndbönd sem stuðningsmannafélag okkar stóðu fyrir nutu mikilla vinsælda og mæli ég með að menn horfi á þau aftur hér

Ekki er svo hægt að fara yfir sumarið hjá okkur án þess að minnast á hinn síunga spilandi aðstoðarþjálfara liðsins hann Dean Martin. Hann varð fertugur á árinu og tók þátt í nánast öllum leikjum liðsins og held ég að það séu ekki margir sem hafi skorað í efstu deild orðnir 40 ára.

Þakka kærlega fyrir skemmtilegt sumar.

Tímabilið er á enda,
off season er hafið.
Margir munu sér þá henda,
beint í syndabaðið.

Kv. Laga & Ljóðakonungur ÍA
Arnar Már Guðjónsson

Sjá einnig:
Bjarni var okkur sem faðir
Aðeins eitt jafntefli
Lærdómsríkt tímabil
Skelfing kvíðnir
Ef og hefði
Hlaupabrettin voru annað heimili
Athugasemdir
banner
banner
banner