Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
banner
   þri 09. október 2012 11:00
Sindri Snær Jensson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Aðeins eitt jafntefli
Sindri Snær Jensson
Sindri Snær Jensson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Val en markvörðurinn Sindri Snær Jensson gerir upp sumarið þeirra í pistli hér að neðan.



Þessi pistill er hinn fullkomni vettvangur til að búa til afsakanir á gengi sumarsins. Bara ef við hefðum unnið þennan leik og svo framvegis. Það ætla ég ekki að gera. Knattspyrnufélagið Valur lék 22 leiki í deild líkt og hin liðin, uppskeran 28 stig sem er nokkuð frá því sem við leikmenn og þjàlfarar ætluðum okkur. 9 sigurleikir, 1 jafntefli og 12 tapleikir. Við duttum úr bikarnum á Valbjarnarvelli gegn Þrótt, þangað mætir maður ekki með hálfum hug og ætlast til sigurs. Einfaldlega ekki nægilega góður árangur fyrir Knattspyrnufélagið Val. Mikil umræða átti sér stað um rekstur félagsins og starfsumhverfið en leikirnir fara fram inni à vellinum og þar áttum við leikmenn að gera betur heilt yfir.

Miklar breytingar voru gerðar á leikmannahópi Vals og byrjuðum við sumarið Færeyingalausir eftir að hafa haft þrjá árið 2011, á miðju sumri endurheimtum við þó að mínu mati einn besta hægri bakvörð deildarinnar Jónas Tór Næs . Gambíumaður að nafni Nesta kom sterkur inn í okkar hóp og smitaði menn af gleði sinni. Þeir sem lentu þó í honum í sumar geta vottað fyrir það að þar er á ferðinni sennilega harðasti leikmaður deildarinnar, allavega inni á vellinum. Við misstum okkar allra besta mann Sigurbjörn Hreiðarsson sem ákvað að róa á önnur mið og á einhvern óskiljanlegan hátt misstum við galdramanninn Jón Vilhelm upp á Skaga. Halli Björns ákvað að demba sér aftur í mennskuna enda er hann alltof pro til að spila á Íslandi. Arnar Sveinn var orðinn dauðleiður á fótbolta og tók sér kærkomið frí. Ingó Sig fór síðan til Kaupmannahafnar í dönskuskóla. Allir þeir leikmenn sem komu til okkar smellpössuðu inn í hópinn þó ég hefði viljað sjá meira frá mörgum þeirra inni á vellinum.

Hópurinn fór í skemmtilega æfingaferð til Akureyrar þar sem við áttum einnig leik gegn Þór í lengjubikar. Þessi ferð verður lengi í minnum höfð innan hópsins sem í hana fór. Yngri og óreyndari menn liðsins urðu fyrir barðinu á svokallaðri yfirspennu og þykir mér ótrúlegt að lítið sem ekkert hafi frést af þessari svaðilför okkar í höfuðstað norðursins. Sveinn Elías Þórsari lóðsaði okkur eftirminnilega um dalvíkursvæðið í vélsleðaferð sem hópurinn hafði mjög gaman að.

Kristján Guðmundsson stórgóður þjálfari okkar til síðustu tveggja ára talaði oft um markmiðin okkar í viðtölum í sumar. Þetta fór ekki alltaf vel í landann og þóttu þessi svör leiðinleg. En enga að síður þá unnum við mikið út frá þessum markmiðum sem við settum okkur í samvinnu við Hafrúnu Kristjánsdóttur íþróttasálfræðing og mikinn Valsara. Þessi vinna og uppsetning þjálfaranna á æfingum, fundum og leikjum var algjörlega til fyrirmyndar þó ég sé enginn dómari á það. En árið 2012 náðum við ekki heilt yfir okkar markmiðum augljóslega. Ég vil koma á framfæri þakklæti til Kristjáns og Freys fyrir hönd allra leikmanna Vals, nútímaþjálfarar sem kunna sín fræði og eiga báðir eftir að ná langt í faginu.

Kannski var til mikils ætlast að búast við titilbaráttu á Hlíðarenda. Ég geng svo langt að segja að við vorum hreinlega ekki með mannskapinn í það. Margir leikmenn liðsins hafa ekki mikla reynslu í efstu deild og þjálfararnir með ungt lið í höndunum. Meðalaldur liðsins í sumar var 23,8 ár, þá tek ég inn alla þá 24 leikmenn sem spiluðu fyrir Val. Sá elsti fæddur 1977 Ólafur Ironman Gunnarsson og sá yngsti Indriði Áki Þorláksson fæddur 1995. Aðeins einn leikmaður lék alla leiki Vals í sumar og það var Rúnar Már blýpungurinn af Króknum.

Þó að þessi pistill sé svona í neikvæðari kantinum þá þýðir það ekki að sumarið hafi verið alslæmt. Virkilega góð mæting var á Vodafone völlinn í sumar og tóku leikmenn eftir því og vilja þakka stuðninginn. Flott umgjörð var í kringum leikina okkar og alltaf unaðsleg grill lykt í upphitun. Hópurinn var mjög samheldinn og stóð saman í gegnum súrt og sætt. Það gat tekið aðeins á menn að vinna annan hvern leik og gera aldrei jafntefli. Fyrsta jafnteflið okkar kom í 19. umferð gegn ÍA og það var skrýtin tilfinning. Valur skoraði 34 mörk í öllum regnbogans litum og dreifðist markaskorun nokkuð jafnt á mannskapinn þó Rúnar og Kolbeinn hafi skorað sitthvor 7 mörkin.

Svona rétt í endann get ég ekki annað en minnst ummæla sumarsins þar sem frethólkur úr Keflavík kallaði okkur lélegasta lið sem hann hafði mætt á ferlinum þó svo að við unnum báða leikina gegn þeim og samanlagt 8-0.

Ég gæti í raun skrifað mikið lengri pistil enda mikið gengið á hjá Val á þessu ári. En niðurstaðan er 8. sæti og eru það að sjálfsögðu mikil vonbrigði. Knattspyrnufélagið Valur er og mun alltaf vera stórveldi í íslensku íþróttalífi.

Aukin umfjöllun um boltann gerir þetta ennþá skemmtlegra og fá fjölmiðlar hrós frá mér fyrir góða umfjöllun í ár.

Takk fyrir okkur í sumar.

Sindri Snær Jensson

Sjá einnig:
Lærdómsríkt tímabil
Skelfing kvíðnir
Ef og hefði
Hlaupabrettin voru annað heimili
Athugasemdir
banner