Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mið 11. október 2017 15:15
Magnús Már Einarsson
Præst og Sandnes fara frá KR - Tobias og Bjerregaard mögulega áfram
Micchael Præst er á förum frá KR.
Micchael Præst er á förum frá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Robert Sandnes.
Robert Sandnes.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Michael Præst og Robert Sandnes verða ekki áfram í herbúðum KR á næsta tímabili. Samningar beggja leikmanna eru að renna út og þeir eru á förum en þetta staðfesti Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Danski miðjumaðurinn Præst kom til Íslands fyrir tímabilið 2013 þegar hann gekk í raðir Stjörnunnar. Hann varð Íslandsmeistari með Stjörnunni árið 2014 áður en hann gekk í raðir KR fyrir sumarið 2016.

Í sumar lék hinn 31 árs gamli Præst einungis fjóra leiki í Pepsi-deildinni en meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá honum.

Robert Sandnes kom til KR síðastliðinn vetur. Hann spilaði fimmtán leiki í Pepsi-deildinni í sumar en átti ekki fast sæti í liðinu. Þessi 25 ára gamli Norðmaður hefur áður verið á mála hjá Stjörnunni og Selfossi.

Vilja halda Tobias og Bjerregaard
Dönsku leikmennirnir Morten Beck og Kennie Chopart eru báðir samningsbundir KR. Ekki er ljóst hvort dönsku framherjarnir Tobias Thomsen og Andre Bjerregaard verði áfram hjá KR. Tobias skoraði níu mörk í 22 leikjum í Pepsi-deildinni í sumar. Bjerregaard kom til KR í júlí og skoraði fjögur mörk í tíu leikjum áður en hann fótbrotnaði gegn KA í 20. umferð.

„Við ætlum að sjá hvort við getum haldið Bjerregaard og Tobias Thomsen líka. Við munum ræða við þá og sjá hvort það sé möguleiki í stöðunni," sagði Rúnar.

Viðræður við samningslausa leikmenn
Rúnar segir að KR-ingar séu að vinna í að semja við samningslausa leikmenn en liðinu mistókst að ná í Evrópusæti á liðnu sumri.

„Við erum að reyna að ganga frá samningum við Óskar (Örn Hauksson) og Skúla Jón (Friðgeirsson). Það gengur vel og það er jákvætt," sagði Rúnar.

„Það eru ungir strákar sem við erum að framlengja við. Valtýr (Már Michaelsson), Axel (Sigurðarson) og Oliver Dagur (Thorlacius) áttu eftir að ganga frá sínu. Við erum að reyna að klára svoleiðis mál og tryggja að þessir ungu strákar verði okkar leikmenn þannig að við getum haldið áfram að vinna með þá," sagði Rúnar.

Sjá einnig:
Stefán Logi ekki áfram hjá KR
Athugasemdir
banner