Markvörðurinn reyndi Stefán Logi Magnússon verður ekki áfram hjá KR á næsta tímabili en samningur hans við félagið er að renna út. Stefán Logi kom til KR árið 2007 og hefur verið á mála hjá félaginu þá fyrir utan árin 2009-2013 þegar hann lék með Lilleström.
„Ég er búinn að ræða við Stefán Loga og þakka honum fyrir frábær störf. Hann hefur verið frábær fyrir félagið og gríðarlega traustur markmaður fyrir okkur í mörg ár," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við Fótbolta.net í dag.
Hinn 37 ára gamli Stefán Logi spilaði einungis fimm leiki í Pepsi-deildini í sumar en hann fór í aðgerð á hné í maí og var frá í nokkrar vikur í kjölfarið.
„Hann meiddist í sumar og Beitir (Ólafsson) tók stöðuna. Stefán er 37 ára og verður 38 ára á næsta ári. Þó að það sé enginn aldur miðað við suma aðra markverði í deildinni þá ætlum við aðeins að leita á önnur mið og sjá hvernig þetta þróast. Beitir stóð sig vel og svo er Sindri (Snær Jensson) áfram á samning þannig að þeir eru okkar markmenn til að byrja með."
Beitir tók hanskana af hillunni þegar Stefán Logi og Sindri Snær meiddust báðir í maí. Beitir varði mark síðan af prýði út tímabilið.
„Hann er að verða samningslaus og við eigum eftir að ræða við Beiti og taka betur stöðuna," sagði Rúnar.
Athugasemdir