Desember er genginn í garð og jólin nálgast óðfluga. Í tilefni þess ætlum við á Fótbolta.net að færa lesendum glaðning á hverjum degi fram að jólum og rifja upp eftirminnileg og skemmtileg viðtöl sem birst hafa á vefnum í gegnum tíðina.
Jóladagatalið hefst á eftirminnilegri viðtalstilraun við Ólaf Karl Finsen árið 2010. Hafliði Breiðfjörð reyndi þá ítrekað að hefja viðtalið við ungan Ólaf við lítinn árangur.
Ólafur, sem var þá aðeins átján ára, var að snúa aftur í Stjörnuna að láni frá AZ Alkmaar í Hollandi. Hann var greinilega óvanur fjölmiðlum og átti erfitt með að fóta sig í viðtalinu. Eftir nokkrar tilraunir varð svo úr að viðtalið fór fram skriflega.
Úr fréttinni:
Það heppnast ekki öll viðtöl sem fjölmiðlamenn reyna að taka og skýrt dæmi þess kom í ljós í dag þegar Fótbolti.net reyndi að taka sjónvarpsviðtal við Ólaf Karl Finsen sem var að koma á láni til Stjörnunnar frá AZ Alkmaar í Hollandi.
Ólafur Karl er ungur að árum, fæddur árið 1992, og lítið reyndur í að gefa fjölmiðlum viðtöl og það kom bersýnilega í ljós þegar Fótbolti.net reyndi að ræða við hann á fréttamannafundi Stjörnunnar í dag með litlum árangri.
Viðtalið við Ólaf Karl má sjá hér að ofan en taka verður fram að það er birt á þennan hátt með fullu samþykki Ólafs sjálfs sem er betri í að svara fyrir sig á fótboltavellinum en fyrir framan hljóðnema og mun eflaust vekja athygli í sumar.
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
























