'Að vera ónotaður varamaður leik eftir leik segir sig nú bara sjálft, það vill enginn leikmaður sitja á bekknum'
Viking frá Stafangri varð í fyrradag Noregsmeistari í níunda sinn og í fyrsta sinn síðan 1991. Bærinn og félagið var búin að bíða lengi eftir þessum titli og var vel fagnað eftir öruggan sigur á Vålerenga í lokaumferðinni. Það var mikil spenna í aðdraganda leiksins, stuðningsmannalagið ómaði um allan bæ í aðdraganda leiksins, fánar og borðar á lofti með skilaboðunum að stefnt væri á gullið. Það var lítið stress á liðinu sem vann 5-1 sigur á Lyse Arena.
Viking er mikið Íslendingafélag og í dag spilar einn Íslendingur með liðinu, það er Hilmir Rafn Mikaelsson sem er leikmaður U21 landsliðsins.
Viking er mikið Íslendingafélag og í dag spilar einn Íslendingur með liðinu, það er Hilmir Rafn Mikaelsson sem er leikmaður U21 landsliðsins.
„Tilfinningin er óraunveruleg, mjög mikið stolt. Það voru klikkuð fagnaðarlæti, stuðningsmenn hlupu inn á völlinn og allt trylltist. Síðan var farið beint niður í bæ og þar var tekið vel á móti manni," segir Hilmir sem svaf takmarkað í gærnótt.
Allt gekk upp
Bodö/Glimt er með ákveðna yfirburðastöðu í Noregi eftir frábært gengi, bæði heima fyrir og í Evrópu, síðustu ár. Langflestir bjuggust við því að Bodö myndi vinna titilinn þriðja tímabilið í röð og í fimmta sinn á síðustu sex árum, en það gerðist ekki.
„Það mætti segja að allt hafi gengið upp. Það voru tveir lykilmenn seldir fyrir tímabilið og liðinu var spáð 3. eða 4. sæti þannig það var smá stress í byrjun."
„Liðið er bara mjög vel uppsett og við vitum í hverju við erum góðir í og erum ekkert að flækja hlutina. Það sem stóð upp úr voru klárlega föstu leikatriðin hjá okkur, við skorum einhver 30 mörk úr þeim."
„Bodö eru mjög öflugir og það sem hjálpaði okkur er að þeir voru orðnir þreyttir undir lokin fannst mér, þeir eru að spila marga leiki og eru ekki að rótera liðinu það mikið. Þeir skutu sig svolítið sjálfir í fótinn fannst mér, en bara geggjað fyrir okkur."
Tæpur sigur í næstsíðustu umferð
Viking vann titilinn á einu stigi, liðið endaði með 71 stig úr leikjunum 30, stigi meira en Bodö/Glimt. Var eitthvað stress á lokakaflanum?
„Stressið var mest í næstsíðasta leiknum, úti á móti Fredrikstad. Það var mjög mikill 50/50 leikur en við náðum að koma boltanum inn, þannig þetta var drullu tæpt."
Sigurmarkið kom á 72. mínútu á útivelli gegn Fredrikstad í næstsíðustu umferðinni. Sá sigur fór langt með að tryggja titilinn.
Ekki sáttur við hlutverkið
En að Hilmi sjálfum, hann er 21 árs framherji sem kom til Viking frá Venezia fyrir tímabilið. Hann kom við sögu í tólf leikjum í deildinni, byrjaði tvo og skoraði tvö mörk. Hann kom ekki við sögu í tíu síðustu deildarleikjum liðsins.
„Þetta var mjög lærdómsríkt tímabil en auðvitað er ég ekki sáttur. Þetta var frekar skrítið því mér fannst ég var að nýta þá sénsa sem ég fékk í byrjun tímabils."
„Ég var ekki að skoða lán í sumar, það var tekinn fundur og við vorum sammála um það að það væri sniðugt að taka harkið hérna í hálft ár í viðbót og sjá."
„Að vera ónotaður varamaður leik eftir leik segir sig nú bara sjálft, það vill enginn leikmaður sitja á bekknum. En staðan sem klúbburinn var í, í titilbaráttu og með þann hóp sem við erum með þá er þetta bara erfið staða fyrir mig."
Ánægður að sjá færsluna
Hilmir er frá Hvammstanga en fór út í atvinnumennsku frá Fjölni. Aðdáendasíða Kormáks fagnaði Noregsmeistaratitlinum vel og kom fram að fagnað yrði langt fram á kvöld. Fjórir félagar Hilmis voru mættir á leikinn á sunnudsginn.
„Já, heyrðu ég sá það, geðveikt að sjá þetta. Auðvitað fékk maður skilaboð frá nokkrum og alltaf gott að fá skilaboð frá mínu fólki."
„Kóngarnir Hrafn, Helgi, Hannes og Anton eiga nú skilið stórt klapp á bakið eftir að hafa komið alla leið á leikinn," segir Hilmir.
En hvernig sér hann veturinn fyrir sér, hvað vill hann sjá gerast?
„Það þarf bara að koma í ljós, þarf klárlega að fara spila reglulega og sína hvað í mér býr. En á sama tíma er ömurlegt að skipta endalaust um klúbba, ég þarf að taka tímann núna eftir tímabilið og hugsa þetta almennilega. En það væri ekki amalegt að byrja að spila reglulega með meistaraliði," segir Hilmir.
Athugasemdir


