fös 03. maí 2019 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Spá þjálfara í 3. deild: 1-6. sæti
Reyni S. er spáð upp úr 3. deildinni.
Reyni S. er spáð upp úr 3. deildinni.
Mynd: Jón Örvar Arason
Brynjar Árnason er lykilmaður í sameiginlegu liði Hattar og Hugins.
Brynjar Árnason er lykilmaður í sameiginlegu liði Hattar og Hugins.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Sigurvin Ólafsson er þjálfari KV.
Sigurvin Ólafsson er þjálfari KV.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr leik hjá KH síðasta sumar. Þeim er spáð 6. sæti.
Úr leik hjá KH síðasta sumar. Þeim er spáð 6. sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingvar Kale er í marki Kórdrengjanna.
Ingvar Kale er í marki Kórdrengjanna.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sigurbergur gekk í raðir Reyni S. í vetur.
Sigurbergur gekk í raðir Reyni S. í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur Ásberg Hilmarsson spilar með KH í sumar.
Haukur Ásberg Hilmarsson spilar með KH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einar Orri gekk í raðir Kórdrengja í vetur.
Einar Orri gekk í raðir Kórdrengja í vetur.
Mynd: Kórdrengir
Keppni í 3. deild karla hefst í kvöld. Fótbolti.net fékk þjálfarana í deildinni til að spá fyrir um lokastöðuna.

Hver þjálfari skilaði inn spá 1-11 og sleppti sínu liði. Hér að neðan má sjá liðin sem enduðu í 1-6. sæti í spánni en niðurstaðan í heild sinni birtist á morgun.

Sjá einnig:
Spá þjálfara í 3. deild: 7-12. sæti

1. sæti Kórdrengir - 117 stig
Sæti í fyrra: 3. sæti í 4. deild
Kórdrengir eru nýliðar í 3. deildinni eftir að hafa lent í 3. sæti í 4. deildinni í fyrra. Félagið sjálft er ungt að árum en hefur sett skemmtilegan svip á neðri deildirnar á Íslandi undanfarin ár. Liðið er ótrúlega vel mannað af reynslu miklum leikmönnum sem eiga fjölmarga leiki í efstu deildum á Íslandi. Þeir hafa styrkt sig mikið fyrir sumarið og einnig fengið til sín öfluga erlenda leikmenn. Langflestir þjálfarar deildarinnar spáðu Kórdrengjum sigri í deildinni. Þeir unnu tvö 2. deildarlið í Lengjubikarnum og voru markatölu frá því að fara í undanúrslit í keppninni.
Lykilmenn: Yohance Marshall, Ingvar Þór Kale, Einar Orri Einarsson.
Þjálfarinn segir - Davíð Smári Helenarson
„Við höfum fengið til okkar frábæra leikmenn sem vissulega hafa tekið liðið á hærra plan. Eins hafa úrslit verið góð það sem af er ári, en ég og þeir sem koma að liðinu gerum okkur grein fyrir því að alvaran byrjar núna á sunnudag. Við getum samt sem áður tekið gott nesti úr þessum leikjum sem á undan hafa verið, höfum spilað virkilega vel og er leikur liðsins að þróast í rétta átt. En við erum vissulega nánast nýtt lið frá því í fyrra og nýkomnir upp um deild og þessvegna kemur það mér örlítið á óvart að þetta sé spá þjálfara og fyrirliða en ég hræðist hana alls ekki. Markmið okkar eru og hafa alltaf verið skýr. Við sem stöndum að liðinu erum að leggja allt okkar í þetta og er maður ekki að því til að vera í einhverju miðjumoði. Eins hafa þeir leikmenn sem hafa komið einfaldlega komið vegna metnaðarins sem býr hjá okkur sem stjórna og þeirra leikmanna sem fyrir eru. Markmiðin eru skýr þau eru að fara í hvern einasta leik til að vinna hann og sjá hvert það skilar okkur í lok sumars. Ég er virkilega ánægður með breytingarnar á leikmannahópnum. Við höfum náð þeim leikmönnum sem við höfum viljað og náð að bæta þetta litla sem vantaði uppá. Breidd liðsins er orðinn miklu betri og mikil samheldni er í hópnum. Eins hefur margt breyst hjá okkur Kórdrengjum. Koma Andra Steins inn í þessa þjálfun með mér hefur verið virkilega góð og eins hefur verið stofnuð stjórn á bakvið liðið sem auðveldar mér og Andra að einbeita okkur að þjálfun liðsins. Það býr mikill metnaður í okkur þjálfurum og stjórn liðsins og síðast en ekki síst leikmönnum liðsins. Við erum allir á sömu blaðsíðu með að gera okkar allra besta í sumar.”

2. sæti Reynir S. - 109 stig
Sæti í fyrra: 1. sæti í 4. deild
Samkvæmt spánni fara nýliðarnir beint upp úr 3. deildinni sem er athyglisvert. Sandgerðingar voru á fljúgandi siglingu í 4. deildinni í fyrra og unnu til að mynda Skallagrím 7-1 í úrslitaleiknum og fóru taplausir í gegnum tímabilið fyrir utan eitt bikartap. Miklar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra og liðið hefur styrkt sig með reyndum leikmönnum og þá aðallega leikmönnum frá Suðurnesjunum. Reyni gekk vel í Lengjubikarnum og fóru taplausir í gegnum riðilinn. Liðið spilaði hörku varnarleik og fékk fæst mörk á sig af liðunum í riðlinum.
Lykilmenn: Admir Kubat, Sigurbergur Elísson, Bojan Stefán Ljubicic
Þjálfarinn segir - Haraldur Freyr Guðmundsson
„Spáin kemur mér nokkuð á óvart þar sem við erum nýliðar í deildinni. Markmiðin okkar í sumar eru klár, við viljum reyna gera atlögu að því að fara upp um deild. Það verður hins vegar erfitt og hörð baráttu þar sem ég býst við jafnri deild og mörg lið sem geta fylgt Kórdrengjum upp sem eiga að fara blindandi upp um deild. Við höfum misst mjög marga sterka pósta frá síðasta tímabili, en höfum verið að fylla í þau skörð í vetur og teljum okkur hafa gert ágætlega þar, þannig að heilt yfir er ég bara ánægður með hópinn eins og hann er í dag.”

3. sæti Höttur/Huginn - 92 stig
Sæti í fyrra: Nýtt félag
Höttur/Huginn teflir fram sameiginlegu liði í sumar í fyrsta skipti. Bæði lið féllu úr 2. deildinni í fyrra og í kjölfarið var ákveðið að sameina liðin. Þjálfari liðsins er Viðar Jónsson. Ekki er langt síðan Huginn lék í Inkasso-deildinni og þá hefur Höttur einnig leikið í næstu efstu deild. Það gæti tekið sinn tíma fyrir Viðar að púsla saman bókstaflega nýju liði en liðið hefur spilað fáa leiki á undirbúningstímabilinu og ekki verið með fullskipaðan hóp í vetur.
Lykilmenn: Brynjar Árnason, Ivan Bubalo, Rúnar Freyr Þórhallsson.
Þjálfarinn segir - Viðar Jónsson
„Spáin kemur ekki á óvart. Ég reiknaði með að okkur yrði spáð í toppbaráttu miðað við gengi vetrarins og gengi þessara félaga síðustu ár. Markmið okkar eru mörg og mismunandi en það helsta er að koma okkur upp úr 3. deild. Við vitum að það verður mjög erfitt og margt þarf að ganga upp því að þetta er hörkudeild. Með nýjum þjálfara koma nýjar áherslur og ég er sáttur við þær breytingar sem orðið hafa á hópnum. Þetta verkefni sem við erum að fara í með sameiningu þessara flottu félaga er afar spennandi og vonandi mætir fólk á völlinn í sumar og hvetur okkur áfram.”

4. sæti KF - 77 stig
Sæti í fyrra: 3. sæti í 3. deild
KF kom mörgum á óvart í fyrra og var hársbreidd frá því að komast upp í 2. deildina. Liðið var stigi frá efstu sætunum og 2-0 tap gegn KV í næst síðustu umferðinni fór útum vonir KF að fara upp um deild. Slobodan Milisic er áfram við stjórnvölinn sem þjálfari og undir hans stjórn er stefnan sett á að komast upp í 2. deildina á nýjan leik eftir tvö ár í röð í 3. deildinni. Alexander Már Þorláksson er kominn frá Kára en hann var markakóngur 2. Deildar árið 2015 með KF. Hann mun styrkja sóknarleikinn mikið í Fjallabyggð.
Lykilmenn: Alexander Már Þorláksson, Grétar Áki Bergsson, Halldór Ingvar Guðmundsson.
Fyrirliðinn segir - Halldór Ingvar Guðmundsson
„Spáin kemur svo sem ekki á óvart held að það verði alveg nokkur lið sem verða þarna í toppbaráttunni og við stefnum klárlega á að vera eitt þessara liða. Markmið sumarsins er að gera betur en í fyrra og þar sem við enduðum í 3. sæti í fyrra þá er það nokkuð augljóst hvað við ætlum okkur í sumar.
Undirbúningstímabilið hefur gengið bara fínt, höfum verið að spila ágætlega á köflum en aftur á móti þá höfum við ekki verið með okkar sterkasta lið bæði vegna meiðsla og vegna búsetu. Það hafa verið smá breytingar á liðinu en alls ekki miklar, höfum náð að halda kjarnanum í liðinu og bætt aðeins í með sterkum leikmönnum.”


5. sæti KV - 72 stig
Sæti í fyrra: 7. sæti í 3. deild
Eftir að hafa fallið úr 2. deildinni sumarið 2017 var KV spáð falli úr 3. deildinni í fyrra. Liðið var þó aldrei í fallbaráttu í fyrra og náði KV í 16 stig í fyrri umferðinni í fyrra og voru í toppbaráttu. Það fjaraði þó undan velgengninni hjá KV seinni hluta sumars og endaði liðið með 23 stig í fyrra. Sigurvin Ólafsson er þjálfari liðsins á sínu öðru tímabili. Miklar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra. Liðinu gekk upp og ofan í Lengjubikarnum og fékk til að mynda 18 mörk sig í fimm leikjum. Sóknarleikur liðsins hefur hinsvegar ekki verið vandamálið í vetur og í fyrra sumar.
Lykilmenn: Garðar Ingi Leifsson, Einar Már Þórisson, Jón Ívan Rivine
Þjálfarinn segir - Sigurvin Ólafsson
„Spáin kemur ekkert á óvart þannig lagað. Það er helst gaman að sjá að trú annarra þjálfara á okkur hefur aukist á milli ára, því okkur var spáð neðsta sætinu í fyrra. Markmiðið er að fá fleiri stig en öll hin liðin. Við höfum misst nokkra góða leikmenn, þar á meðal markakónginn okkar frá í fyrra í mennskuna í Sandgerði. Á móti hafa margir nýir leikmenn bæst í hópinn sem eru að koma mjög sterkir inn. Þeir sem fyrir voru hafa líka bætt sig, þannig að mér líst mjög vel á hópinn.”

6. sæti KH - 67 stig
Sæti í fyrra: 5. sæti í 3. deild
KH er á sínu öðru ári í 3. deild en þeir voru lengst af í toppbaráttu í fyrra. Liðið mætir til leiks með töluvert breytt lið en þónokkrir lykilmenn fyrri ára eru horfnir á braut. KH hefur þó fengið nokkra öfluga leikmenn í vetur og þá eru ungu leikmennirnir frá því í fyrra orðnir árinu eldri. Einnig bættust við bræður frá Argentínu á dögunum. Ef vel gengur að búa til liðsheild er ekki nokkur spurning um að KH getur blandað sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar.
Lykilmenn: Alexander Lúðvígsson, Sveinn Ingi Einarsson og Haukur Ásberg Hilmarsson.
Þjálfarinn segir - Hallgrímur Dan Daníelsson
„Deildin er gríðalega sterk þetta árið og svo eru þessi marg umtöluðu "kynslóðaskipti" hjá okkur. Við erum að byggja upp ungt og spennandi lið ásamt nokkrum reynsluboltum. Markmiðið er að festa liðið í sessi sem sterkt neðri deildarlið sem spilar skemmtilegan bolta með ungum gröðum leikmönnum. Maður getur nú ekki verið ánægður með brotthvarf góðra manna en við höfum fengið góða menn í þeirra stað.”
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner