Eiður Gauti Sæbjörnsson (hér til vinstri) er gríðarlega mikill markaskorari. Arian Ari Morina (til hægri) er líka lykilmaður í Ými.
Keppni í 3. deild karla hefst á morgun, annað kvöld, þegar Víðir Garði tekur á móti Hvíta riddaranum. Hver þjálfari skilaði inn spá 1-11 og sleppti sínu liði. Hér að neðan má sjá liðin sem enduðu í 9-12. sæti í spánni.
9. sæti: Kormákur Hvöt (44 stig)
Sæti í fyrra: 9. sæti í 3. deild
Kormákur/Hvöt lenti í fallbaráttu á síðustu leiktíð og var liðið aðeins þremur stigum frá fallsvæðinu þegar tvær umferðir voru eftir. En liðið náði í einn sigur í síðustu tveimur umferðunum og tókst að bjarga sér frá falli. Hilmar Þór Kárason var markahæsti leikmaður liðsins en hann er búinn að fá félagaskipti yfir í Sindra í 2. deild. Spurning er hvernig áhrif það mun hafa á liðið en það eru komnir inn sterkir erlendir leikmenn sem ættu að geta hjálpað. Aco Pandurevic mun halda áfram þjálfun liðsins. Hann stefnir eflaust á að byggja á árangrinum frá síðasta tímabili og gera enn betur.
Lykilmenn: Goran Potkozarac, Ismael Moussa Yann Trevor og Uros Duric.
Gaman að fylgjast með: Lazar Cordasic er öflugur miðjumaður sem gæti heillað marga á vellinum í sumar.
Þjálfarinn segir - Aco Pandurevic
„Mín skoðun er sú að deildin sé aðeins auðveldari en á síðasta tímabili því við fengum þrjú lið upp úr 4. deild. Það er erfitt að spá en kannski geta spár haft góð áhrif á liðin sem er ekki spá svo góðu gengi. Kormákur/Hvöt er með góða leikmenn, en við erum svolítið eftir á í samanburði við hin liðin vegna þess að æfingaaðstæður eru ekki góðar og við erum enn að safna liðinu en á heildina litið er ég mjög spenntur að við séum að byrja tímabilið."
10. sæti: Ýmir (43 stig)
Sæti í fyrra: 3. sæti í 4. deild
Ýmir hafnaði í þriðja sæti 4. deildar í fyrra en liðið lagði Hvíta riddarann að velli í þeim. Upphaflega var það ekki nóg fyrir sæti í 3. deild en þar sem Einherji dró sig úr keppni þá komst Ýmir upp. Þeir verða því með lið í keppni í 3. deild í sumar og samkvæmt spánni þá munu þeir halda sér uppi. Ýmir hefur litið ágætlega út á undirbúningstímabilinu og komst í undanúrslit B-deildar Lengjubikarsins. Í liðinu eru margir leikmenn í yngri kantinum sem eru flestallir uppaldir í HK. Það er óhætt að mæla með því að fólk fylgist með Eiði Gauta Sæbjörnssyni í sumar en hann hefur skorað 90 mörk í 92 KSÍ-leikjum.
Lykilmenn: Arian Ari Morina, Eiður Gauti Sæbjörnsson og Hörður Máni Ásmundsson.
Gaman að fylgjast með: Eiði Gauta, og hversu mörg mörk hann mun skora í sumar. Hann gerði 23 mörk í 13 leikjum í D-riðli 4. deildar síðasta sumar.
Þjálfarinn segir - Ari Már Heimisson
Spáin kemur okkur svo sem ekki á óvart þar sem við erum nýliðar í deildinni og pínu óskrifað blað. Það er mikill uppgangur í félaginu og við höfum fulla trú á að við getum endað ofar í deildinni. Deildin verður örugglega mjög spennandi þar sem allir geta unnið alla og okkar markmið er einfaldlega að sýna og sanna að við eigum heima ofar en Ýmir hefur verið síðustu ár."
11. sæti: ÍH (37 stig)
Sæti í fyrra: 10. sæti í 3. deild
ÍH endaði að lokum í tíunda sæti 3. deildar í fyrra eftir að hafa verið í bullandi fallbaráttu lengi vel. ÍH var á botni deildarinnar þegar 15 umferðir voru liðnar en síðasti fjórðungur mótsins var flottur hjá liðinu. ÍH náði að lokum að bjarga sér með þremur stigum meira en Vængir Júpiters sem fóru niður í 4. deild. Ef spáin rætist hins vegar núna þá fer ÍH niður í 4. deild. ÍH samanstendur mest af ungum Hafnfirðingum en þó leynast nokkrir reynslumiklir í hópnum inn á milli.
Lykilmenn: Arnar Sigþórsson, Karl Viðar Magnússon og Kristján Ólafsson.
Gaman að fylgjast með: Brynjar Ásgeir Guðmundsson er einn af reynslumestu leikmönnum liðsins. Hversu mikið spilar hann í sumar?
Þjálfarinn segir - Davíð Örvar Ólafsson
„Það mætti halda að þjálfararnir í deildinni hafi pælt í þessu á meðan þeir væru að bíða eftir hamborgara á Búllunni, þetta er nú meiri vitleysan þessi spá! Annars er okkar spáð sæti ofar en í fyrra sem er jákvætt en við erum ekki að fara falla úr þessari deild, ég lofa því. En svona í alvöru þá erum við lítið að pæla í þessu og ætlum okkur að vera ofar en 11. sæti, það er okkar markmið fyrir sumarið. Við erum með fínt lið, nokkra eldri leikmenn og svo eru þetta ungir menn sem vilja leika sér í fótbolta og svo enn yngri leikmenn úr 2.fl FH sem eru að stíga sín fyrstu eða önnur spor í fullorðins fótbolta. Okkur gekk ágætlega í þessum undirbúningsleikjum og Lengjubikarnum. Við erum ekki með stóran hóp, nokkrir enn eftir að skila sér heim og vonandi fáum við 3-4 leikmenn í viðbót fyrir fyrsta leik. Við byrjuðum mótið illa í fyrra og vorum í basli lengi að klára leikina og fá stig, vorum svo flottir í ágúst og september og héldum okkur uppi. Við ætlum okkur að byrja betur núna og fyrsti leikur er á móti Kormáki/Hvöt á laugardaginn og við verðum klárir þá. Rósir eru rauðar..."
12. sæti: Hvíti riddarinn (16 stig)
Sæti í fyrra: 4. sæti í 4. deild
Eftir að ljóst varð að Kórdrengir myndu ekki taka þátt í Íslandsmótinu í sumar þá var Hvíti riddarinn færður upp í 3. deild. Liðið vissi ekki af því með miklum fyrirvara að þeir væru að fara að spila í 3. deild í sumar en þeir munu koma inn og gera sitt besta. Mosfellingar hafa aldrei leikið í 3. deild í núverandi mynd, eða síðan hætt var með riðla fyrir tímabilið 2013. Þetta verður spennandi verkefni fyrir Hvíta riddarann en þeir myndu heldur betur afsanna þessa spá ef þeir forðast fall því liðið fékk langfæst stig frá þjálfurunum í spánni, þeir eru langneðstir í þessari spá.
Lykilmenn: Alvaro Cordero Martinez Corbalan, Aron Daði Ásbjörnsson og Sigurður Kristján Friðriksson.
Gaman að fylgjast með: Spánverjinn Alvaro fellur líklega líka í þennan flokk en hann er nýbúinn að fá félagaskipti og verður fróðlegt að sjá hvernig honum vegnar í Mosfellsbænum.
Þjálfarinn segir - Sindri Snær Ólafsson
„Mjög eðlileg spá miðað við það að við séum að koma upp. Við vitum hinsvegar sjálfir hvað býr í okkur og stefnum hærra. Finnum fyrir miklum stuðningi frá Mosfellingum, það mun skila okkur langt!"
Athugasemdir