Sparkspekingurinn Troy Deeney er á þeirri skoðun að það ætti að afnema þann sið að standa heiðursvörð fyrir nýkrýndum Englandsmeisturum og telur þetta vera meiri niðurlægingu en virðingu.
Liverpool varð Englandsmeistari síðustu helgi með því að vinna Tottenham sannfærandi, 5-1, á Anfield.
Sá siður hefur tíðkast að önnur lið standi heiðursvörð fyrir meisturunum út tímabilið en nokkur lið hafa að vísu neitað að gera það í gegnum árin.
Deeney, sem spilaði hér árum áður með Watford í ensku úrvalsdeildinni, segir að þetta sé siður sem megi hverfa úr enska boltanum.
„Chelsea mun standa 'heiðursvörð' fyrir leikinn gegn Liverpool á Stamford Bridge og næstu helgi mun Arsenal líklegast þurfa að gera það sama. Það, eins og með margt annað í fótbolta, er eitthvað sem ég mun aldrei skilja. Mér finnst þetta í raun vera úrelt kjaftæði.“
„Þetta er ekki merki um virðingu heldur meira eins og niðurlæging fyrir liðið sem þarf að standa þarna og gefa meisturunum lítið lófaklapp. Það er eins og liðin sem munu spila gegn meisturunum í síðustu leikjunum séu að segja: „Vel gert, við erum í skýjunum með að þið unnuð okkur“,“ sagði Deeney á Sun.
Athugasemdir