,,Er fótboltanörd"
Fannar Berg Gunnólfsson er nafn sem íslenskir knattspyrnuunnendur gætu þurft að leggja á minnið en þessi 31 árs þjálfari hefur þótt gera góða hluti með unglingalið norska meistaraliðsins Molde FK.
Fannar lék á sínum tíma með Suðurnesjaliðunum Keflavík, Njarðvík, Grindavík og Reyni Sandgerði en meiðsli settu strik í reikninginn sem varð þess valdandi að hann fór út í þjálfun.
„Ég var klókur leikmaður og skildi hvað fótboltinn gekk út á,” sagði Fannar við norska fjölmiðla og segir að þjálfunin hafa fljótt orðið að einskonar ástríðu hjá honum.
Fannar er núna í Mastersnámi í íþróttastjórnun í háskólanum í Molde en það var fyrir tilstuðlann eins lektors skólans að Fannar hóf störf hjá knattspyrnuliði Molde. Lektorinn, Oskar Solenes þótti mikið til Fannars koma og hvatti hann til að sækja um sem þjálfari u-15 ára liðs Molde.
„Eftir tvö viðtöl og nokkrar æfingar var ég orðinn fyrsti kostur í þjálfarastarfið,“ sagði Fannar
„Velferð leikmannsins skiptir mestu máli. Það að tapa eða vinna skiptir ekki öllu máli hjá mér heldur það að leikmaðurinn læri og taki ábyrgð í lífinu. Ég hef þjálfað leikmenn sem eru núna á mála hjá Bristol City, PSV Eindhoven og Kaiserslautern og í dag búa þeir að sumu því sem ég kenndi þeim.”
Fótaboltanörd
Fannar segir að það sé hlutverk þjálfarans að vinna sér inn traust leikmanna og lýsir því hvernig fyrstu dagarnir voru hjá Molde.
„Leikmennirnir höfðu aldrei séð mig eða heyrt um mig áður og vissu ekki hvernig þeir áttu að nálgast mig. Ég talaði litla norsku og samskiptin fóru að mestu fram á ensku. Þetta þótti þeim forvitnilegt en ég ávann traust þeirra með tímanum. Þú einfaldlega ávinnur þér virðingu með þeirri vinnu sem þú ynnir af hendi.”
Hann segir nokkurn mun á því að þjálfa á Íslandi og í Noregi.
„Áður fyrr þurfti ég að gera allt sjálfur en hér skipta menn með sér verkum og það auðveldar manni lífið að við erum tveir sem sinnum þjálfuninni,” sagði Fannar og bætir við:
„Fótboltinn er mín ástríða og ég legg hart að mér í þessari vinnu. Ef ég er ekki að spila fótbolta eða þjálfa, þá er ég að horfa á hann. Ég er fótboltanörd.”
Fannar stefnir langt í þjálfun og er næsta skref að öðlast UEFA B þjálfaragráðu. Að því loknu er stefnan sett á UEFA A þjálfaragráðu og að lokum UEFA Pro-license.
Íslenskir þjálfarar hafa verið að hasla sér völl erlendis að undanförnu og verður fróðlegt að fylgjast með þessum efnilega þjálfara í framtíðinni.
Athugasemdir