banner
   mán 04. október 2021 17:47
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimir vildi ekki tjá sig um mál Hannesar - Ákveðið að endurnýja ekki samning Kristins
Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Freyr var kynntur sem leikmaður FH á laugardag.
Kristinn Freyr var kynntur sem leikmaður FH á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikið hefur verið rætt og ritað um mál Hannesar Þórs Halldórssonar að undanförnu. Hannes á eitt ár eftir af samningi sínum við Val en rætt hefur verið um að bæði hann og Valur geti nýtt sér uppsagnarákvæði í samningnum.

Hannes, sem er 37 ára, er sá markvörður sem leikið hefur flesta landsleiki á sínum ferli og varði mark landsliðsins á blómaskeiði þess.

Hannes varði mark Vals í 21 leik í deildinni á vonbrigðartímabili hjá Val. Fréttaritari ræddi stuttlega við Hannes fyrir viku síðan og þar sagði hann ekkert geta gefið upp með sína stöðu en aðspurður hvort hann einhverjar viðræður væru í gangi við Val þá sagði Hannes: „Nei, það eru engar og næst ekki í neinn niðri á Hlíðarenda."

Það hefur einnig mikið verið rætt um Kristin Frey Sigurðsson sem yfirgaf Val núna að tímabilinu loknu og skrifaði undir hjá FH. Kristinn hefur verið einn allra besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar að undanförnu og var eftirsóttur þegar ljóst var að hann yrði ekki áfram hjá Val.

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, ræddi við Fótbolta.net í dag og var m.a. spurður út í Hannes og Kristin Frey. Heimir vildi ekki tjá sig um mál Hannesar en aðspurður um Kristin Frey hafði Heimir þetta að segja:

„Samningurinn við Kristin Frey var ekki endurnýjaður, það var ósköp einfalt. Hann er toppdrengur og ég ætla vona að honum gengi vel hjá FH."

Eruði með mann í hans stöðu innan félagsins eða eruði að leita að nýjum manni í hans stöðu?

„Við erum að skoða leikmannamálin," sagði Heimir og hélt áfram. „Það er ljóst að ef tekin eru síðustu þrjú ár, 6. sætið 2019, Íslandsmeistarar 2020 og fimmta sætið núna 2021, að okkur vantar stöðugleika. Auðvitað gera menn sér grein fyrir því að það er ekki alltaf hægt að verða Íslandsmeistari en félag eins og Valur verður að vera með lið sem er alltaf samkeppnishæft í toppbaráttu."

„Ef við lítum á þessi þrjú ár þá þarf að gera einhverjar breytingar til að reyna viðhalda stöðugleika og viðhalda velgengni,"
sagði Heimir.

Nánar var rætt við Heimi og verður framhaldið af viðtalinu birt síðar í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner