Ísland er í riðli með Spáni, Englandi og Úkraínu í undankeppni HM kvenna sem fer fram í Brasilíu 2027. Dregið var klukkan 12:00 í dag.
Spánn eru ríkjandi heimsmeistarar en England vann Evrópumótið sem haldið var í Sviss í sumar, þar sem þær unnu einmitt Spán í úrslitaleiknum.
Kynnum dráttarins var brugðið er þær sáu að Spánn og England drógust saman í riðil. Þegar Ísland var dregið úr hattinum veittu kynnarnir tveir íslenska liðinu hálfgerða vorkunn.
Riðill Íslands:
Spánn - (1. styrkleikaflokkur)
England - (2. styrkleikaflokkur)
Ísland - (3. styrkleikaflokkur)
Úkraína - (4. styrkleikaflokkur)
Leikið verður í febrúar/mars og júní gluggunum á næsta ári og mun efsta liðið í riðlunum fjórum tryggja sér beint á HM.
32 lið fara í umspil sem fer fram í október og desember 2026. Þar verða sjö sæti til viðbótar í boði á HM ásamt einu sæti sem fer í annað umspil þvert á heimsálfur.
Sama hvernig fer hjá Íslandi í riðlinum fer liðið í umspil vegna þess að það leikur í A-deild.
Hvernig virkar umspilið?
Í umspilinu verða alls 32 lið, röðuð eftir styrkleika þar sem A-deildarlið fá greiðari leið á HM. Umspilið er leikin í tveimur umferðum og er með nokkur flækjustig.
A-deild Þjóðadeildarinnar skiptist í fjóra riðla og fjögur lið í hverjum riðli. Liðin sem enda í 2. og 3. sæti í A-deild (alls átta) mæta sex sigurvegurum í C-deild og tveimur bestu liðunum í 2. sæti þar.
Lendi Ísland neðst í sínum riðli í A-deild, fer liðið í umspil með efstu liðum B-deildar og mæta þeim sem enda í 2. og 3. sæti í B-deild.
Í seinni umferð umspilsins mætast sigurvegarar fyrri leikja. Þar leika annars vegar liðin sem komu úr einvígum milli 2. og 3. sæta í A-deild og efstu liða í C-deild, og hins vegar þau sem komu úr einvígum milli neðstu liða í A-deild og efstu liða í B-deild.



