Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   þri 06. janúar 2026 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Vestri opnar akademíu í Senegal
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri á Ísafirði gaf út tilkynningu í gær um nýja fótboltaakademíu félagsins sem er staðsett í Senegal.

Vestri opnar akademíuna í samstarfi við Nordic Waves og mun hún bera nafnið Vestri/ProKebs.

Nordic Waves er góðgerðarfélag sem senegalski fótboltamaðurinn Sergine Modou Fall, einn af leikjahæstu mönnum í sögu Vestra, setti á laggirnar.

Sergine Fall og Ferran Corominas, sjúkra- og styrktarþjálfari Vestra, héldu æfingabúðir í desember þar sem æfingahópar voru mannaðir og þjálfarar ráðnir fyrir akademíuna sem tekur til starfa á nýju ári.

Markmið Nordic Waves er að auka tækifæri barna og ungmenna á svæðinu í gegnum íþróttir og menntun.

Í Vestri/ProKebs verða 60 unglingar í U13, U16 og U19 ára liðum karla og kvenna. Þar verða sex menntaðir þjálfarar og einn yfirþjálfari.

Akademían er leið til auka menntun og veita hæfileikaríku fótboltafólki brú til tækifæra í Evrópu. Vestri mun geta boðið þeim sem skara fram úr til sín á reynslu.

Mörg af stærstu liðum Evrópu hafa sterkar tengingar til landa í Afríku og hér á Norðurlöndum er FC Nordsjælland nærtækasta dæmið með Right to Dream akademíuna í Gana.

„Ef vel tekst til er ekkert því til fyrirstöðu að Vestri stækki við sig og opni tækifæri á fleiri stöðum í Afríku," segir meðal annars í tilkynningu frá Vestra.
Athugasemdir
banner