Arsenal gæti keypt Lautaro á metfé - Líklegt að Arsenal kaupi Sesko í sumar - Launakröfur Garnacho of háar fyrir Napoli
   fim 06. febrúar 2025 11:16
Elvar Geir Magnússon
Nýr landsliðsþjálfari Færeyja skrifaði glæpasögu sem kom út í íslenskri þýðingu
Eyðun Klakstein er nýr landsliðsþjálfari Færeyja.
Eyðun Klakstein er nýr landsliðsþjálfari Færeyja.
Mynd: fsf.fo
Færeyska fótboltasambandið hefur ákveðið að ráða heimamanninn Eyðun Klakstein sem nýjan landsliðsþjálfara en Norðlýsið greindi fyrst frá þessu.

Á endanum stóð valið á milli þriggja aðila, Norðmannsins Leif Gunnar Smerud, Danans Jakob Michelsen og Eyðun Klakstein.

Eyðun er 52 ára og er frá Klaksvík, hann hefur meðal annars þjálfað KÍ, B36 og Víking í Götu í Færeyjum. Þá hefur hann þjálfað yngri landslið Færeyja, þar á meðal U21 landsliðið, og ánægja verið með hans störf þar.

Eyðun tók við færeyska landsliðinu til bráðabirgða á síðasta ári þegar Svíinn Håkan Ericson var rekinn. Eyðun stýrði liðinu í 1-0 sigri gegn Armeníu og 0-1 tapi gegn Norður-Makedóníu í Þjóðadeildinni í nóvember. Hann er nú ráðinn til frambúðar.

Eyðun er einnig með bakgrunn í fjölmiðlum og þá hefur hann skrifað skáldsögur. Hann skrifaði glæpasögu sem heitir Lygin í íslenskri þýðingu en Ugla útgáfa gaf bókina út hér á landi.

„Daginn eftir skyndilegt andlát bróður síns fær Sara Emmudóttir dularfullt bréf. Það verður til þess að hún fer að kafa í fortíð sem hún hafði flúið. Við sögu koma meðal annars rokktónleikar í Þórshöfn tuttugu árum fyrr þar sem ung kona lét lífið," segir í lýsingu bókarinnar.
Athugasemdir
banner