Kári Árnason gæti komið inn í hjarta varnarinnar ef Lagerback heldur sig ekki við sömu vörn og í Lubljana.
Á fréttamannafundi áðan kom fram að allir leikmenn í íslenska hópnum eru klárir í slaginn fyrir leikinn mikilvæga gegn Slóvenum á Laugardalsvelli á morgun. Lars Lagerback fær því „jákvæðan hausverk" varðandi val á byrjunarliði á morgun enda margir leikmenn sem hafa staðið sig vel og ýmsir möguleikar á stöðunni.
Um markmannsstöðuna þarf ekki að ræða. Þar verður Hannes Þór Halldórsson sem sýndi mikið öryggi og varði vel á mikilvægum augnablikum í útileiknum.
Birkir Már Sævarsson og Ari Freyr Skúlason verða bakverðirnir áfram en nú þegar Kári Árnason er kominn úr banni er spurning hvort hann komi inn í miðja vörnina fyrir Sölva Ottesen sem var úti í kuldanum hjá FCK og spilaði lítið. Lagerback talaði þó mjög vel um Sölva á fréttamannafundi áðan treystir honum fullkomlega þrátt fyrir litla leikæfingu.
Ég spái því þó að Kári komi inn í liðið og verði við hlið Ragnars Sigurðssonar. Á miðjunni verður fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og við hið hans líklega Helgi Valur Daníelsson eða Emil Hallfreðsson. Emil lék útileikinn og spái ég því að hann haldi sæti sínu. Birkir Bjarnason verður á vinstri kanti líkt og í Lubljana.
Kolbeinn Sigþórsson verður annar af fremstu mönnum en hin þrjú sætin sem ég á eftir að nefna er kannski stærsta spurningamerkið nú þegar Gylfi Sigurðsson er í leikbanni. Eiður Smári Guðjohnsen átti frábæra innkomu í útileiknum og mögulegt að Lagerback vilji halda honum sem vopni á bekknum sem gæti breytt leiknum.
Eiður gæti verið frammi með Kolbeini og Rúrik Gíslason komið inn á hægri kantinn. Ísland fann ekki taktinn í fyrri hálfleiknum í Slóveníu og var Alfreð Finnbogason tekinn af velli í hálfleik. Það er samt alls enginn dómur um að hann og Kolbeinn geti ekki spilað saman þó það hafi ekki gengið þessar 45 mínútur og tel ég að þeir verði aftur í fremstu víglínu og Eiður notaður á hægri kantinum í þessu 4-4-2 kerfi Lagerback.
Þessar vangaveltur eru aðeins til gamans gerðar en ljóst er að Lagerback hefur úr nokkrum spennandi möguleikum að velja.
Sjá einnig:
Einnkunnagjöf leikmanna eftir Slóvenía - Ísland
Athugasemdir