Bayern vill Bernardo Silva - Skotlmark Man Utd og Liverpool vill fara til Real - Ensk félög horfa til Kimmich
   fim 06. júní 2024 19:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Eiður Gauti: Forsetinn hefði ekki fengið hraðari þjónustu
'Ég skil ekki hvernig þetta getur gerst'
'Ég skil ekki hvernig þetta getur gerst'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Ég var búinn að segja við strákana að það væri eitthvað stórt að fara gerast'
'Ég var búinn að segja við strákana að það væri eitthvað stórt að fara gerast'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Í baráttunni gegn Fylki.
Í baráttunni gegn Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Magnús Arnar lenti í samstuðinu við Eið Gauta.
Magnús Arnar lenti í samstuðinu við Eið Gauta.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er uppalinn HK-ingur og það að fá kallið í fyrsta byrjunarliðsleikinn sinn í Bestu deildinni á móti Breiðabliki er náttúrulega risastórt'
'Ég er uppalinn HK-ingur og það að fá kallið í fyrsta byrjunarliðsleikinn sinn í Bestu deildinni á móti Breiðabliki er náttúrulega risastórt'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Kom í HK frá Ými fyrir þetta tímabil.
Kom í HK frá Ými fyrir þetta tímabil.
Mynd: Ýmir
„Heilsan er frekar góð miðað við allt. Ég slapp við helstu heilahristingseinkennin; var ekki með svima, ógleði og ældi ekkert eða neitt svoleiðis. Það er yfirleitt eitthvað þannig vesen sem heldur manni lengi frá. Ég hef fengið einhvern smá hausverk síðan þetta gerðist, en ekkert alvarlegt," sagði Eiður Gauti Sæbjörnsson, leikmaður HK, við Fótbolta.net.

Eiður Gauti rotaðist alveg í blábyrjun á leik HK gegn Breiðabliki þegar hann lenti í samstuði við samherja. Hann þurfti að fara í aðgerð, þurfti að festa tvær tennur aftur í gómnum og sauma þurfti 30 spor þar sem vörin fór í hakk.

„Það þurfti að sauma 30 spor framan og aftan í kringum vörum. Svo þurfti að koma þessum tönnum aftur upp, kominn með teina og það er spurning hvort það haldi allt. Það er hægt að laga það allt saman, hef ekki áhyggjur af því, það besta við þetta er að hausinn er í lagi."

„Ég hitti sjúkraþjálfarann okkar eftir helgi og fæ þá kannski frekari upplýsingar um hvað tekur við. Ég veit í raun ekki núna hvað ég má gera og hvað ekki, en ég má ekkert reyna á mig fyrr en það er búið að taka saumana úr. Ég þarf því ekkert að hafa áhyggjur af höfuðmeiðslunum, þannig séð, fyrr en það verður búið að græja kjaftinn á mér. Ég byrja væntanlega í næstu viku að testa hausinn, sjá hvort ég finni fyrir einhverju ef ég hreyfi mig."


Á fljótandi fæði
Hvernig virkar það með matinn, áttu að vera á fljótandi fæði?

„Ég hef í rauninni bara verið að drekka Froosh og hleðslu frá því að þetta gerðist. Ég get ekkert tuggið eða þannig, sem er frekar glatað, en ég lifi það alveg af."

„Það er búið að troða tönnunum aftur upp og það voru settir teinar. Við vonum að það haldi. Pabbi er tannlæknir og hann á félaga sem gerði þetta allt. Ég er í toppmálum hvað þetta allt varðar, en veit ekki alveg hvernig framhaldið verður. Vonandi vaxa tennurnar við ræturnar aftur og þá er þetta ekkert mál. Í versta falli deyja tennurnar og þá þarf að skipta um þær."


Ógeðslegt að segja frá þessu
Þjálfari HK sagði við Fótbolta.net að Eiður hefði tapað tveimur tönnum. Það er þó ekki raunin.

„Þær duttu ekki úr mér. Það er í raun ógeðslegt að segja frá þessu... þegar ég horfi upp þá set ég varirnar svolítið niður og tennurnar brotna og fara í gegnum vörina, þaðan kemur skurðurinn. Fyrsta sem Ísak sjúkraþjálfari gerir þegar hann kemur að mér er að draga vörina af tönnunum. Tennurnar eru þannig séð upp í mér en þær eru mölbrotnar. Í bílnum á leiðinni í aðgerð þá leið mér eins og tennurnar væru í kokinu af því ég fann tennurnar við tunguna á mér þar sem þær áttu alls ekki að vera. Það þurfti að þrýsta þeim aftur á sinn stað."

„Ég hef ekki viljað sjá myndirnar sem voru teknar af mér en ég hef heyrt að þær séu ekki fallegar. Það þurfti að púsla vörinni saman þegar hann var að sauma, giska hvað átti að vera hvar því hún var alveg í molum."

„Það kórónaði svo hversu mikið höggið var þegar ég frétti að það hafi komið gat á treyjuna hans Magnús Arnars (liðsfélagans) og hann hafi verið með skurð á mjöðminni. Ég skil ekki hvernig þetta getur gerst."


Bara óheppni
Eiður er búinn að horfa aftur á atvikið. Hvernig gat þetta gerst?

„Það var ekkert mál að horfa á atvikið, það sést þar að ég dett alveg út. Ég man ekkert eftir því að hafa staðið upp og labbað af vellinum."

„Ég á erfitt með að segja til um það. Ég sé ekki einu sinni Magga og ég er ekki viss um að hann sjái mig. Þetta var HK og Breiðablik, 10 sekúndur búnar og það ætla allir að mæta í stríð. Þú hoppar bara á hvað sem er. Ég held að við höfum báðir ætlað að ráðast á þennan bolta, bara óheppni."


Algjör heppni
Það var kannski lán í óláni að fyrst að einhver þurfti að meiðast á þennan hátt þá hafi það verið Eiður en ekki einhver annar. Hann er mjög heppinn með fólkið sem hann hefur í kringum sig upp á þessi meiðsli að gera. Faðir hans er tannlæknir og móðir hans hjúkrunarfræðingur.

„Þetta er eiginlega ótrúlegt. Ég fór í aðgerð hjá Sævari Péturssyni, líklega besti munn- og kjálkaskurðlæknir á Íslandi, algjör toppmaður. Það að hann hafi verið heima, ekki að gera neitt, verið laus, og það að pabbi hafi verið uppi í stúku og getað komið strax niður á völl... Ég er mættur í stólinn hjá Sævari og hann er byrjaður að deyfa mig hálftíma eftir að þetta gerist. Í flestum tilvikum hefði fólk verið sent niður á spítala en þar veit fólk ekkert endilega hvað á að gera með svona. Það var algjör heppni að Sævar hafi verið laus og ég gat bara mætt beint til hans til að kippa þessu í lag."

Það er ekkert víst að forseti Íslands hefði fengið jafnhraða þjónustu.

„Ég svona í alvörunni held ekki," sagði Eiður og hló. „Sævar og pabbi voru saman í tannlæknaskólanum og hafa verið vinir lengi. Það var bara rokið í símann og hringt beint í hann. Alvöru toppþjónusta."

Draumurinn var að rætast
Það er ekki mikið hægt að ræða um frammistöðu Eiðs í leiknum, en hvernig var að fá kallið í byrjunarliðið?

„Það var náttúrulega geggjað. Ég er uppalinn HK-ingur og það að fá kallið í fyrsta byrjunarliðsleikinn sinn í Bestu deildinni á móti Breiðabliki er náttúrulega risastórt. Það er draumur allra leikmanna HK að spila á móti Breiðabliki í efstu deild. Ég var vel gíraður í þennan leik. Ég var búinn að segja við strákana að það væri eitthvað stórt að fara gerast, fyrsti byrjunarliðsleikurinn í Bestu. Það gerðist vissulega eitthvað, en ekki alveg það sem ég óskaði mér."

Hvenær snýr Eiður aftur á völlinn?
Eiður er ekki viss hvenær hann getur byrjað að spila aftur.

„Ég veit ekki hvort það sé einhver hræðsla með vörina eða tennurnar. En ég held að heilahristingurinn sé ekki að fara halda mér lengi frá. Þetta er bara spurning hvenær ég fæ grænt ljós með munninn á mér. Það kæmi mér ekkert á óvart ef ég væri mættur aftur eftir 3-4 vikur, en set fyrirvara á það," sagði Eiður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner