Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
banner
   mán 03. júní 2024 11:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fékk heilahristing, tapaði tveimur tönnum og 30 spor saumuð
Var borinn af velli í gær.
Var borinn af velli í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Eiður fagnar hér marki sínu gegn Fylki í bikarnum.
Eiður fagnar hér marki sínu gegn Fylki í bikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Magnús Arnar fékk skurð á mjöðmina.
Magnús Arnar fékk skurð á mjöðmina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Gauti Sæbjörnsson, framherji HK, var borinn af velli rétt eftir að leikur HK gegn Breiðabliki hófst í gærkvöldi. Hann lenti í samstuði við samherja, fékk heilahristing og fór í kjölfarið á sjúkrahús.

Lestu um leikinn: HK 0 -  2 Breiðablik

„Hann fékk heilahristing, er búinn að tapa tveimur framtönnum og það þurfti að sauma þrjátíu spor," sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, við Fótbolta.net í gær.

„Þetta var samstuð, Eiður og Maggi skella bara saman, koma úr sitthvorri áttinni og lenda saman. Maggi (Magnús Arnar Pétursson) er með gat á treyjunni eftir tennurnar á Eiði og skurð á mjöðminni. Hann lék með plástur allan leikinn. Þetta var rosalega þungt högg."

„Pabbi hans er tannlæknir og mamma hans er hjúkrunarfræðingur, þannig hann er í þokkalega góðum höndum upp á næstu skref. Við vitum ekkert nákvæmlega hver framvindan verður."

„Heilahristingurinn er líklega það sem mun halda honum lengst frá. Ég held það verði bara settar nýjar tennur í hann og annað slíkt. Þekking mín nær svo ekki lengra en það,"
sagði Ómar.

Það vakti athygli að Eiður Gauti var í byrjunarliðinu í gær. Það var fyrsti byrjunarliðsleikurinn hans í deildinni. Fyrir hafði hann byrjað einn bikarleik og komið inn á í tveimur deildarleikjum.

„Hann hefur komið með góða innkomu, var bæði mjög krefjandi fyrir Valsmiðverðina sem og Fylkismiðverðina þegar hann kom inn á. Hann hefur sýnt okkur að hann er í mjög góðu standi, hefur komist hratt á þann stað að við myndum treysta honum til að spila 90 mínútur. Við lögðum upp með að hann myndi slást í loftinu við Damir (Muminovic) og Viktor (Örn Margeirsson). Hann átti skilið að byrja. Kom inn í liðið á lokadegi gluggans og er búinn að æfa með okkur í mánuð. Hann hefur barist inn í liðið."

Eiður Gauti kom til HK frá venslafélaginu Ými á lokadegi gluggans. Hann er fæddur árið 1999 og hefur raðað inn mörkum fyrir Ými síðustu ár.

Býst við Hákoni Inga og Atla Þór klárum í næsta leik
Hákon Ingi Jónsson kom inn á fyrir Eið Gauta en fór af velli í hálfleik. Hver er staðan á honum?

„Ég hef engar áhyggjur af öðru en að hann verði klár eftir landsleikjahlé. Hann var ekki orðinn meiddur, hefði getað spilað áfram. Við vorum búnir með einn skiptingaglugga, vissum að hann gæti ekki spilað 45 mínútur í viðbót, það var mjög ólíklegt og vildum ekki taka óþarfa áhættur með heilsuna á honum."

Atli Þór Jónasson var ekki með í gær vegna meiðsla.

„Hann ætti að geta náð næsta leik."

Nú tekur við landsleikjahlé og næsti leikur HK er ekki fyrr en 18. júní gegn Fram á útivelli.
Athugasemdir
banner
banner