

Hlín Eiríksdóttir hefur verið frábær með Piteå í byrjun tímabils en varð fyrir því óláni að skora í eigið net undir lok leiks
Það var nóg um að vera hjá íslensku landsliðskonunum í Evrópuboltanum í dag en það skiptust á skin og skúrir hjá liðum þeirra.
Dagný Brynjarsdóttir var í byrjunarliði West Ham í lokaumferðinni á Englandi í dag en liðið tapaði fyrir Arsenal, 2-0. Hún fór af velli á 85. mínútu leiksins.
West Ham hafnaði í 6. sæti með 27 stig. Arsenal var á meðan í harðri baráttu við Chelsea um titlinn en Chelsea vann Manchester United 4-2 þar sem María Þórisdóttir lék allan leikinn fyrir United. Chelsea vinnur því deildina á einu stigi og Arsenal lendir í öðru.
Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn sænska toppliðsins Rosengård sem vann öruggan 3-0 sigur á Umeå í sænsku deildinni en Rosengård er nú með 17 stig í efsta sæti deildarinnar.
Elísabet Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Kristanstad unnu góðan 4-1 sigur á Brommapojkarna. DB Pridham, fyrrum leikmaður ÍBV, lagði upp tvö mörk í leiknum og þá komu Emelía Óskarsdóttir og Amanda Andradóttir inná sem varamenn á 72. mínútu og hjálpuðu til við að landa sigrinum. Kristianstad er í 7. sæti með 11 stig.
Hallbera Guðný Gísladóttir lagði upp fyrra mark Kalmar í 4-2 tapi fyrir Örebro í sömu deild. Berglind Rós Ágústsdóttir lék allan tímann fyrir Örebro sem er í 6. sæti með 12 stig en Kalmar er í 12. sæti með 6 stig.
Hlín Eiríksdóttir kom mikið fyrir í 2-1 tapi Piteå gegn Eskilstuna. Hún lagði upp jöfnunarmark Piteå í byrjun síðari hálfleiks en varð svo fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net undir lok leiks.
Piteå er í 3. sæti með 13 stig en Hlín hefur spilaði feykivel í byrjun tímabils.
Allt í járnum í Noregi
Ingibjörg Sigurðardóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir byrjuðu báðar er Vålerenga og Brann gerðu 1-1 jafntefli. Svava Rós fór af velli í hálfleik í liði Brann. Liðin eru jöfn á toppnum með 22 stig.
Selma Sól Magnúsdóttir lék allan leikinn er Rosenborg gerði markalaust jafntefli við Lilleström. Rosenborg er í 3. sæti með 19 stig.
Sara Björk einum sigri frá titlinum
Íslenski landsliðsfyrirliðinn, Sara Björk Gunnarsdóttir, kom inná á 78. mínútu er Lyon vann Paris FC, 2-0. Lyon er nú með fimm stiga forystu á Paris Saint-Germain þegar tveir leikir eru eftir og á liðið möguleika á að tryggja sér titilinn í næstu umferð.
Athugasemdir