15. umferð Pepsi-deildarinnar verður leikin í kvöld sunnudag og á morgun mánudag. Jörundur Áki Sveinsson er einn af sérfræðingum okkar um deildina og við fengum hann til að renna yfir leikina.
Leiknir - ÍBV (í dag 17): Leiknir vinnur þennan leik
Þetta verður fallslagur af bestu gerð. Lítið hefur gengið hjá ÍBV upp á síðkastið og nú er staða þeirra orðin verulega slæm. Nýju leikmennirnir hafa ekki verið að skila nægjanlega miklu og þjálfaraskiptin hafa ekki haft góð áhrif á liðið. Þeir mega ekki tapa þessum leik.
Leiknismenn unnu langþráðan og góðan sigur á Íslandsmeisturunum í síðustu umferð. Það hlýtur að gefa þeim sjáfstraust og byr í seglin. Það verður gaman að sjá hvort að þeir nái að fylgja þeim leik eftir, þeir verða að gera það og algjört lykilatriði fyrir þá að vinna á heimavelli og það á móti helsta keppinauti sínum. Leiknir vinnur þennan leik.
Stjarnan - Víkingur (í kvöld 19:15): Leikmenn þurfa að líta í eigin barm
Veit eiginlega ekki hvar á að byrja með þetta tímabil hjá Stjörnunni. Þvílík vonbrigði. Sá þá spila á móti Leikni í síðustu umferð og voru mjög bitlausir. Finnst leikmenn þurfa að líta í eigin barm og fara að gera þetta eins og menn. Veit eiginlega ekki eftir hverju þeir eru að bíða. Það þurfa að allir að sína ábyrgð, ekki bara þjálfararnir, leikmennirnir líka. Hafa ennþá möguleika á Evrópu... eða kannski ekki...
Víkingar hafa náð að safna stigum í undanförnum leikjum. Hafa aðeins náð að fjarlægjast botninn en samt ekki, eru fimm stigum frá fallsæti þannig að þeir þurfa að halda áfram að safna stigum. Þeirra bíður erfitt verkefni og þó, Stjörnunni hefur ekki gengið vel á heimavelli og vinni Víkingur þá ná þeir Stjörnunni að stigum. Finnst vera jafnteflislykt af þessu... en Stjarnan stelur þessu í lokin.
ÍA - FH (mánudag 19:15): Gulli að ná miklu úr mannskapnum
FH vann góðan sigur á Val í síðustu umferð og það var gaman að sjá Atla Viðar fá tækifæri og nýta það vel. Menn hafa verið að tala um að FH hafi ekki verið að spila vel í sumar. Veit ekki alveg að hvað það þýðir, þeir eru í efsta sætinu og hafa skorað flest mörk í deildinni. Það hefur oft verið þannig með FH-inga að þeir spila betur eftir því sem líður á tímabilið. Eru búnir að endurheimta toppsætið og það þekkja þeir vel og vilja ekki láta það af hendi.
Skagamenn hafa að mínu mati sýnt ótrúlega seiglu í sumar. Gulli er að ná ótrúlega miklu út úr mannskapnum. Eru ekki að flækja hlutina, gera allt frekar einfalt og vinna inna stig reglulega. Ég hef þó trú á því að FH vinni þennan leik, eru einfaldlega sterkari en Skaginn. Atli Viðar skorar aftur. POOOOTTTTÞÉÉÉTTT!
Keflavík - Fjölnir (mánudag 19:15): Hef hrifist af Fjölni
Útlitið er ekki gott hjá Keflavík. Hafa tapað mörgum leikjum, ekki unnið síðan 7.júní (eini sigurleikur þeirra) og menn eru farnir að tala um hvaða lið það verði sem fari niður með Keflavík. En á meðan það er ennþá tölfræðilega hægt að hanga í deildinni þá verða menn að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að sjá til þess að svo verði. Einn sigur gæti gert heilmikið og komið þeim á beinu brautina.
Fjölnir er það lið sem ég hrifist hvað mest af. Gústi og Óli Palli eru að gera frábæra hluti með þetta lið. Spila skemmtilega, gríðarleg liðsheild, stemming og gaman hjá þeim. Geta gert alvöru atlögu að Evrópukeppni, en þá þurfa þeir að vinna leiki eins og á móti Keflavík. Stöðugleiki er lykilatriði hjá þeim liðum sem ætla að ná í Evrópukeppni. Spái Fjölni sigri, en það verður ekki auðvelt.
Valur - Breiðablik (mánudag 19:15): Flottur bragur á Blikum
Þetta verður eitthvað. Valur að færa sig yfir á Laugardalsvöll og maður veit ekki hvaða áhrif það hefur á þá. Það munar tveimur stigum á þessum liðum þannig að það er algjört lykilatriði að tapa ekki. Valsmenn hafa spilað vel í sumar. Eru með flott lið og leikmenn sem eru með betri leikmönnum í deildinni. Nú reynir talsvert á þá og hvort þeir vilji þetta nógu mikið. Þetta er mjög athyglisverður leikur.
Breiðablik er vel spilandi lið og og geta með sigri skilið Val eftir sem þeir vilja örugglega gera. Hafa verið nokkuð stöðugir í sumar, gerðu vel í að fá Glenn. Hafa fengið fæst mörk á sig í deildinni, níu. Sækja á mörgum mönnum og vinna mjög vel saman sem lið. Flottur bragur á þessu liði.
Þetta verður hörkuleikur og ég hallast að því að þetta endi með jafntefli.
KR - Fylkir (mánudag 19:15): Fylkir mun ná í stig
Hemmi Hreiðars fékk ekki auðvelt prógram þegar hann tók við í sumar. Búinn að fara með liðið í Krikann (jafntefli), Kópavogsvöll (sigur), til Eyja (sigur) og svo kom smá skellur á heimavelli. En það verður ekki af Fylkismönnum tekið að þeir munu berjast til síðast manns og mér finnst allt annað að sjá til liðsins eftir þjálfaraskiptin, fyrir utan skituna á móti Fjölni. Liðið er að leggja sig fram og gera allt mjög einfalt, enda kannski algjör óþarfi að að flækja hlutina. Það hentar þeim vel að spila á móti liðum sem eru meira með boltann. Eru með hættulega menn fram á við og eru sterkir til baka.
KR er hinsvegar með frábært lið. Ótrúleg breidd hjá þeim og tapið hjá þeim á móti Fjölni kom talsvert á óvart. Spurning hvort að Stefán Logi verði kominn aftur í markið hjá þeim, skiptir þá miklu máli. Svo er það hausverkur þjálfarana hverjir spila í fremstu stöðunum. Hafa ótrúlega breidd í framlínunni og Fylkir þarf að loka vel á þá og halda þeim frá markinu. Fyrir KR er þetta must win leikur ef þeir ætla að halda pressunni á FH. Tel að Fylkir muni gera vel og ná í stig í Vesturbænum. 0-0 eða 1-1.
Stöðutaflan
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir