Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 10. febrúar 2014 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
(Staðfest)
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
Svona leit Fótbolti.net út árið 2002 þegar vefurinn fór fyrst í loftið 15. apríl það ár.  Í júlímánuði sama ár var (Staðfest) fyrst notað á vefnum.
Svona leit Fótbolti.net út árið 2002 þegar vefurinn fór fyrst í loftið 15. apríl það ár. Í júlímánuði sama ár var (Staðfest) fyrst notað á vefnum.
Mynd: Fótbolti.net
Sam Dalla Bona á æfingu hjá Chelsea 12. apríl 2002. Hann samdi við AC Milan 8. júlí það ár og það varð til þess að orðið Staðfest  kom fyrst í fyrirsögn á Fótbolta.net en þá án svigans góða.
Sam Dalla Bona á æfingu hjá Chelsea 12. apríl 2002. Hann samdi við AC Milan 8. júlí það ár og það varð til þess að orðið Staðfest kom fyrst í fyrirsögn á Fótbolta.net en þá án svigans góða.
Mynd: Getty Images
Lee Bowyer hvílir sig á æfingu hjá Leeds United 29. júlí 2002. Viku áður hætti Liverpool við að kaupa hann þó kaupverð væri samþykkt.  Þetta varð efni í fyrstu (Staðfest) fréttina á Fótbolta.net.
Lee Bowyer hvílir sig á æfingu hjá Leeds United 29. júlí 2002. Viku áður hætti Liverpool við að kaupa hann þó kaupverð væri samþykkt. Þetta varð efni í fyrstu (Staðfest) fréttina á Fótbolta.net.
Mynd: Getty Images
Allir biðu í ofvæni eftir að sjá (Staðfest) við félagaskipti Juan Mata 1309 smelltu á LIKE við fréttina á Fótbolta.net en 75 á alla samkeppnisvefina til samans.
Allir biðu í ofvæni eftir að sjá (Staðfest) við félagaskipti Juan Mata 1309 smelltu á LIKE við fréttina á Fótbolta.net en 75 á alla samkeppnisvefina til samans.
Mynd: Twitter
Í 2010 útgáfu Fótbolta.net var (Staðfest) hluti af hönnun vefsins þar sem mynd í hönnuninni átti að skapa ímyndaða sögu af félagaskiptum.
Í 2010 útgáfu Fótbolta.net var (Staðfest) hluti af hönnun vefsins þar sem mynd í hönnuninni átti að skapa ímyndaða sögu af félagaskiptum.
Mynd: Fótbolti.net
Faceook síðan (Staðfest) fór í loftið 8. desember 2010 og er reglulega uppfærð.
Faceook síðan (Staðfest) fór í loftið 8. desember 2010 og er reglulega uppfærð.
Mynd: Fótbolti.net
,,Það er ekki staðfest fyrr en það er (Staðfest) innan sviga á Fótbolta.net."

Þetta heyrir maður oft þegar fólk talar saman um fótbolta en þarna er vísað í helsta kennimerki Fótbolta.net frá því vefurinn opnaði fyrst árið 2002.

Þegar ég opnaði Fótbolta.net fyrst 15. apríl 2002 hafði ég enga reynslu af því að vinna við fjölmiðla en hafði haft mikinn áhuga á íþróttafréttamennsku frá því í æsku.

Þess vegna mótaði ég vefinn jafnóðum með því að hlusta á það sem lesendur vildu sjá og heyra og hlustaði alltaf á góð ráð. Jafnóðum bættust svo við starfsmenn við vefinn sem höfðu sínar skoðanir á hvernig hlutirnir ættu að vera.

Stærsta vandamálið var samt að það bárust ótal fréttir úr enskum fjölmiðlum um hin og þessi fyrirhuguðu félagaskipti og það gat reynst fólki erfitt að grisja úr hvaða félagaskipti voru gengin í gegn og hver ekki. Því var ljóst að það þurfti að leysa þetta vandamál.

Við höfum undanfarna daga rætt þessi mál á skrifstofunni og reynt að rifja upp hvernig hugmyndin á bakvið að merkja (Staðfest) við fréttir af því sem væri formlega klappað og klárt hafi komið upp, en ekki náð árangri. Ýmsar tilgátur komu upp sem gengu bara ekki upp, til dæmis að Ronaldinho farsinn árið 2003 hafi verið ástæðan en svo er ekki því (Staðfest) birtist fyrst á Fótbolta.net ári áður, eða 2002.

Eftir að hafa skoðað gömul skjöl og reynt að finna út úr þessu komst ég að því að fyrsta fréttin sem hafði merkinguna var 8. júlí árið 2002 þegar Sam Dalla Bona gekk til liðs við AC Milan frá Chelsea. Fréttin er reyndar ekki alveg rétt merkt, Bæði því Staðfest var ekki í sviga, og það var fyrir framan fyrirsögnina en ekki aftan.

STAÐFEST - Dalla Bona gerir 6 ára samning við AC Milan

Á eftir fylgdu tvær fréttir með samskonar merkingu, annars vegar um kaup Liverpool á Alou Diarra og hinsvegar um að Leeds hafi samþykkt kauptilboð Liverpool í Lee Bowyer.

Stóra breytingin sem allir þekkja kom svo í kjölfarið, fyrsta (Staðfest) fréttin leit dagsins ljós 21. júlí 2002, og hún var um eitthvað sem gerðist ekki!

Bowyer fer ekki til Liverpool!!! (STAÐFEST)

Fréttin er reyndar alveg hreint ótrúleg og byggir á yfirlýsingu á opinberum vef Liverpool þar sem félagið segist hætt við kaup á Lee Bowyer og Gerard Houllier þáverandi þjálfari liðsins hraunar í raun yfir leikmanninn. Nokkuð sem maður sér ekki í dag.

En það er skemmst frá því að segja að (Staðfest) hefur slegið í gegn og síðan fyrsta fréttin með þeirri merkingu birtist hafa komið 7546 slíkar fréttir á Fótbolta.net.

Lesendur Fótbolta.net treysta líka á að fréttir sem bera merkinguna séu réttilega staðfestar. Okkar vinnuregla er að ef einhver aðili viðskiptanna, félag sem selur, félag sem kaupir eða leikmaðurinn sjálfur, staðfestir vistaskiptin, þá megi nota merkinguna. Þetta gildir ýmist um fréttir í Evrópuboltanum sem þeim íslenska.

Við höfum líka orðið vör við að hegðun lesenda er eftir þessu. Margir taka ekki mark á fréttinni fyrr en þeir eru búnir að fara á Fótbolta.net og athuga hvort þar standi (Staðfest)

Besta dæmið um þetta er stærsta frétt félagaskiptagluggans í janúar, félagaskipti Juan Mata til Manchester United frá Chelsea. Það mátti greinilega merkja að þó lesendur sæju fréttina á öðrum miðlum fyrst, þá komu þeir yfir á Fótbolta.net til að athuga með (Staðfest). Þetta endurspeglaðist svo í hversu margir smelltu á LIKE við fréttina hjá okkur, samanborið við samkeppnisvefina.

Juan Mata til Man Utd
Fótbolti.net 1309 Like
mbl.is 28 Like
Vísir.is 12 Like
433.is 35 Like

Þessi félagaskipti brutu reyndar líka blað í sögu Fótbolta.net því í fyrsta sinn í tæplega 12 ára sögu vefsins sendum við okkar fulltrúa á fréttamannafundinn þegar leikmaðurinn var formlega opinberaður til Manchester United. Vonandi verður hægt að gera meira af því í framtíðinni.

En (Staðfest) lifir áfram og mun gera um ókomna tíð. Þessi einfalda samsetning orðsins er komin í daglegt tal fólks, og jafnvel þó það fylgist ekki með Fótbolta.net eða fótbolta yfir höfuð. ,,Er það staðfest innan sviga?" spyr fólk stundum.

(Staðfest) hefur líka orðið til þess að einhver sem ég þekki ekki til heldur úti Facebook síðu sem tekur saman (Staðfest) fréttir og (Staðfest) hefur einnig ratað inn í Slangurorðabókina hjá Snöru

fótbolti punktur net staðfest
orðasamband
mjög áreiðanlegar heimildir; frá vefsíðunni fotbolti.net þar sem sumar fréttir eru sérstaklega merktar með „(Staðfest)“
,,Þetta er dagsatt. Alveg fótbolti punktur net staðfest!"


En þessar vinsældir (Staðfest) verðum við líka að taka alvarlega. Lesendur eru að gefa okkur það traust að það megi trúa og treysta á (Staðfest), og við endurgjöldum traustið með því að hafa þær vinnureglur að nota þetta bara þegar við teljum allt klappað og klárt!

Við heitum því (Staðfest)

- Höfundur er framkvæmdastjóri Fótbolta.net
Athugasemdir
banner
banner