
Hin tvítuga Katla Tryggvadóttir er í byrjunarliði Íslands gegn Noregi á Evrópumótinu í kvöld.
Þetta er fyrsti keppnisleikurinn sem þessi hæfileikaríki leikmaður byrjar fyrir íslenska landsliðið, en án efa ekki sá síðasti.
Þetta er fyrsti keppnisleikurinn sem þessi hæfileikaríki leikmaður byrjar fyrir íslenska landsliðið, en án efa ekki sá síðasti.
Hérna er smá kynning á Kötlu sem er yngsti leikmaður íslenska hópsins á EM.
15. Katla Tryggvadóttir
Aldur: 20 ára
Staða: Framliggjandi miðjumaður eða kantur
Heimabær: Reykjavík
Uppeldisfélag: Valur
Félag: Kristianstad
Fyrrum félög: Valur, Þróttur Reykjavík
Landsleikjafjöldi: 8 leikir og 0 mörk
Kjúllinn í hópnum er á sínu fyrsta stórmóti með Íslandi en án efa ekki það síðasta. Katla er gríðarlega hæfileikarík fótboltakona sem nokkur af stærstu félögum Evrópu eru að fylgjast með. Þrátt fyrir að hún sé ung að árum þá er langt síðan maður heyrði nafn hennar fyrst þar sem hún var að gera stórkostlega hluti í yngri flokkum Vals og með KH í 2. deild.
Árið 2020 fékk Katla, sem er fædd árið 2005, sín fyrstu tækifæri með meistaraflokki Vals og spilaði hún aðeins meira árið eftir, en hún var ekki sátt með tækifærin sem hún fékk og ákvað að söðla um; hún fór í Laugardalinn og samdi þar við Þróttara. Það er kannski eitthvað sem margir leikmenn gætu tekið til fyrirmyndar, að sýna hugrekki og stökkva á tækifærið að spila fótbolta í staðinn fyrir að sitja á bekknum.
Þetta reyndist gott skref fyrir Kötlu sem þróaðist áfram í Þrótti undir handleiðslu Nik Chamberlain og Eddu Garðarsdóttur, sem eru núna þjálfarar Breiðabliks. Hún fékk þær mínútur sem hún þurfti og sýndi það strax að hún gæti spilað vel í Bestu deildinni. Eftir tímabilið 2022 var hún valin efnilegasti leikmaður deildarinnar af öðrum leikmönnum.
Hún var í þeim hópi sem fór á lokakeppni EM U19 landsliða í fyrra og var stjarnan í því liði ef svo má segja þrátt fyrir að vera ekki elsti leikmaðurinn þar. Hún var svona sá leikmaður sem mest fór í gegnum. Og áfram hélt hún að spila vel með Þrótti þar sem hún var í liði umferðarinnar í hverri umferðinni á fætur annarri. Það var eins og boltinn væri límdur við lappirnar á henni sumarið 2023, svo mikil var tæknin sem hún býr yfir.
Þarna vissu þau sem fylgdust með íslenskum kvennabolta að Katla myndi ekki stoppa lengi í Bestu deildinni. Eftir tímabilið 2023 gekk hún í raðir Kristianstad sem er mikið Íslendingafélag og sást það fljótt að sænska úrvalsdeildin væri skref sem væri ekki of stórt fyrir Kötlu. Á tíma sínum hjá Kristianstad hefur Katla verið einn öflugasti leikmaður sænsku deildarinnar og er eins og áður segir undir smásjá stærri félaga í Evrópu. Þrátt fyrir að vera bara á sínu öðru tímabili þarna, þá er hún komin í fyrirliðahóp félagsins en hún er léttur og skemmtilegur karakter sem hikar ekki við að segja hlutina eins og þeir eru. Hún er þroskuð bæði innan sem utan vallar.
Katla spilaði sína fyrstu landsleiki í fyrra og er núna komin á fyrsta stórmótið, en eins og áður segir þá verður þetta ekki síðasta stórmótið hjá þessum frábæra leikmanni. Í kvöld fær hún stórt tækifæri sem gaman verður að sjá hana takast á við.
Athugasemdir