Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fös 10. október 2014 13:00
Haukur Lárusson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Brekkan
Haukur Lárusson
Haukur Lárusson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Þegar litið er til baka yfir nýafstaðið tímabil er eitt orð sem kemur upp í hugann, brekka. Okkur var spáð neðsta sæti af öllum sérfræðingum landsins en við hjá Fjölni vissum vel að við værum betra lið en það. Ef ég vitna í orð Bergsveins Ólafssonar, fyrirliða og lífskúnstners, þegar hann var eitt sinn úti að labba með köttinn sinn Mola og var hugsað til brekkunnar sem koma skildi þetta sumarið mælti hann, „Fögur er brekkan svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, grænir vellir en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og troða þessari spá þar sem sólin sést sjaldan.“

Mótið byrjaði af krafti hjá okkur Fjölnismönnum, taplausir eftir fyrstu 6 umferðirnar og menn fóru að sjá að þarna var alvöru lið á ferð. Þrátt fyrir að margir leikmenn hafi verið að leika sína fyrstu leiki í Pepsídeildinni fann maður að allir voru tilbúnir í verkefnið. Ég man það vel eftir eina æfinguna í Júní kom Guðmundur Karl til mín, lagði höfuðið á öxlina á mér og sagði, “Haukur, ég vona að við verðum orðnir Íslandsmeistarar fyrir þjóðhátíð. Væri drullu gaman.” Ég sagði við hann að láta svona draumóra ekki trufla sig því töpin myndu að öllum líkindum koma.

Við tóku þrír tapleikir í röð og við sáum drauminn um Íslandsmeistaratitilinn alltaf taka eitt og eitt risaskref frá okkur. Við unnum ekki leik í nákvæmlega 2 mánuði, plús mínus 30 daga. Þarna var andrúmsloftið orðið frekar þungt í klefanum og menn fundu að eitthvað þurfti að gerast, eitthvað sem væri líkt og í draumi. Og það gerðist. Ég man þetta eins og það hafi gerst áðan. Hann labbaði inn í klefann haldandi á bronsskónum og ég sá hvernig allir litu upp af hrifningu. Maður sá hvernig vonin brast fram í andlitum strákanna. Hann sagði “Strákar. Ég er Magnús Páll og ykkur er borgið, Ég er ljós heimsins. Þeir sem fylgja mér munu ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.”

Við náðum svo að kroppa í þau stig sem dugði til að halda okkur áfram í deild þeirra bestu. Eina markmiði sumarsins var náð. Það hefði verið allt í lagi að tryggja þetta kannski aðeins fyrr svo að Gunni Már hefði getað komist í Októberfestarferðina sína sem hann átti pantaða sömu helgi og síðasti leikurinn var. En svona er þetta bara. Þú ferð ekkert í lautina á hverjum degi Gunni minn og tekur stig.

Mikið var rætt um mætingu á leikina hjá Fjölni í sumar. Grafarvogurinn með allan þennan fjölda af fólki og kannski ekki nema í kringum 200 manns á leik. Oft á tíðum þegar við gengum inná völlinn var nánast tóm stúkan sem blasti við manni þegar upp úr göngunum var komið. En svo tóku stuðningsmennirnir við sér líkt og liðið í síðustu umferðunum og kláruðu mótið með stæl. Það gefur liðinu svo hrikalega gott “boost” að heyra stuðningsmennina styðja liðið áfram.

Eftir tímabilið lagði svo Gunni Valur skóna á hilluna frægu. Gunni er eins og allir vita einn almesti Fjölnismaður sem hægt er að finna. Ég er nokkuð viss um að ef menn nuða smá í honum með gulrótinni að spila við Leikni í efstu deild á næsta ári sé hægt að breyta þessari ákvörðun. Ég mun allavega reyna.

En sem fyrr segir á Fjölnir lið í efstu deild að ári. Þarna á liðið heima og verður vonandi um ókomna tíð. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessu sumri kærlega fyrir, leikmönnum, þjálfurum, liðstjórum, sjúkraþjálfurum, starfsfólki á leikjum, stjórninni, stuðningsmönnunum og svo lengi mætti telja.

Takk fyrir sumarið og takk fyrir mig. Turn kveður að sinni.
Ps. Illugi biður að heilsa

Sjá einnig:
Vonbrigði - ÍBV
Fall er fararheill - Fram
Skítarákir upp eftir allri dollunni - Þór
Athugasemdir
banner
banner
banner