Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   sun 10. október 2021 12:30
Matthías Freyr Matthíasson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ert þú tólfta manneskjan?
Matthías Freyr Matthíasson
Matthías Freyr Matthíasson
Stuðningurinn við liðið skiptir miklu máli.
Stuðningurinn við liðið skiptir miklu máli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég ætla að leyfa mér að draga þá barnalegu ályktun fyrst þú ert að lesa Fótbolti.net að þá séu meiri líkur en minni á að þú sért fótboltaáhugamanneskja. Fyrst ég geng út frá því þá langar mig til að spyrja þig, hvar varst þú 27. júní 2016? Ok, kannski ekki sanngjarnt að tala um dagsetningu, en hvar varst þú þegar karlalandslið Íslands var að spila við England á EM 2016?

Hvar varst þú þegar Hannes varði víti frá Messi?

Hvar varst þú þegar Arnór Trausti skoraði gegn Austurríki?

Hvar varst þú þegar Ísland tapaði gegn Króatíu og komst ekki á HM?

Hvar varst þú þegar Jói Berg varð Jói Bern, því hann skoraði þrennu gegn Sviss?

Hvar varst þú þegar íslenska kvennalandsliðið spilaði á EM í Hollandi?

Svo lengi mætti telja. Við höfum verið sem þjóð svo ofdekruð af árangri landsliða okkar á undanförnum árum að við eigum yfirglás af frábærum minningum sem okkur hefur verið gefið. Við höfum verið kölluð „bláa hafið“, stuðningsmannahópurinn Tólfan (og aðrir sem ekki telja sig tilheyra þeim, þótt þeir geri það) vöktu heimsathygli fyrir stuðning sinn við landsliðin. Við vorum stolt af liðunum okkar og framgöngu þeirra á knattspyrnuvellinum.

Við vorum líka stolt af þjálfurnum sem ítrekað mættu í fjölmiðla og gáfu þakkir til stuðningsfólks. KSÍ var öflugt og duglegt við að tala fallega um stuðningsfólkið og reynt var eftir fremsta megni að tengjast við þennan stóra hóp fólks sem mætti, klappaði, söng og stóð allar 90 plús mínúturnar.

Nú hefur aldeilis gefið á bátinn. Illa gengur á vellinum og enn verr utan vallar. Það sem þau sem standa að karlalandsliðinu hefur mistekist, er að sýna auðmýkt gagnvart aðstæðunum. Ég hef ekki séð ríka áherslu frá þjálfurum eða KSÍ að fá þjóðina til þess að flykkjast að baki þessum unga landsliðshóp karla sem eru að stíga sín fyrstu skref. Það með annars hefur skilað sér í því að aðsókn á Laugardalsvöllinn á móti Armeníu var með slakasta móti. Það er leikur á mánudag gegn Lichtenstein. Ekki berast einhverjar fregnir af því að miðasala gangi vel. Ég því miður komst ekki á leikinn á móti Armeníu en ég ætla að mæta á mánudaginn.

Því mér finnst íslenska landsliðið eiga það skilið frá mér. Það hefur gefið mér minningarnar sem ég minntist á hér að ofan og nú vil ég styðja við bakið á þeim, með það að markmiði að einn daginn munu jákvæðu fréttirnar verða enn fleiri en þær neikvæðu.

Stjórn KSÍ og landsliðsþjálfarar þurfa að líka að tala til stuðningsfólks, fáið okkur með ykkur í lið. Sýnið auðmýkt en jafnframt hvetjið. Þið þurfið á okkur að halda. Alveg eins og við þurfum á því að halda fyrir sálarlífið að íslensk knattspyrna verði á uppleið á ný. Fyrst að ég tek ekki eftir þessari áskorun KSÍ til stuðningsfólks, þá segi ég bara þetta:

Kæri lesandi, klæddu þig í bláu treyjuna og komdu með mér á völlinn á mánudaginn. Ef það verður leiðinlegt veður, so be it. Hitum okkur með söngvum og öskrum og tökum þátt. Styðjum liðið til sigurs.

Tólfta manneskjan getur nefnilega skipt sköpum.
Athugasemdir
banner
banner