Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   sun 11. maí 2025 20:25
Ívan Guðjón Baldursson
Nistelrooy: Höfum bætt okkur mikið eftir fallið
Mynd: EPA
Mynd: Leicester City
Ruud van Nistelrooy svaraði spurningum eftir að lærisveinar hans í Leicester City náðu í jafntefli í spennandi slag gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leicester tók forystuna í fyrri hálfleik en lenti svo 2-1 undir og tókst að jafna á lokakaflanum.

„Ég er ánægður með frammistöðu strákanna í dag, við náðum að jafna leikinn og fengum svo tækifæri til að sigra sem við nýttum ekki. Þessi strákur hérna er að einbeita sér að lokaprófum í grunnskóla. Hann mun kannski skora úr þessu færi þegar hann getur einbeitt sér meira af fótbolta og minna af skólanum!" sagði Nistelrooy brosandi að leikslokum og var þar að tala um hinn 15 ára gamla Jeremy Monga sem kom inn af bekknum og fékk úrvalsfæri til að stela sigrinum.

„Við erum búnir að bæta leik okkar mjög mikið síðan við féllum úr deildinni. Við erum komnir með langtímamarkmið og erum strax byrjaðir að sjá afraksturinn. Við tókum ákvörðun um að bíða ekki eftir næstu leiktíð til að hefja vinnuna, við erum strax byrjaðir. Ég er ánægður með viðbrögð leikmanna."

Leicester var þegar fallið úr úrvalsdeildinni en þessi leikur hafði þó mikla þýðingu fyrir félagið enda um nágrannaslag að ræða.

„Við vissum hvað þessi leikur þýddi fyrir stuðningsmennina. Strákarnir lögðu allt í sölurnar, þeir börðust um hvern einasta sentimetra á vellinum til að gleðja stuðningsmenn."

Nistelrooy veit þó ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við Leicester.

„Það var auðvitað sárt að falla niður um deild en núna snýst þetta um að horfa til framtíðar. Það er undir minni ábyrgð að gera það sem er best fyrir félagið, hvort sem ég verð áfram í þjálfarastarfinu eða ekki. Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Við tökum bara einn dag í einu, eina viku í einu."
Athugasemdir
banner
banner
banner