Hollenski miðvörðurinn Sven Botman hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við deildabikarmeistara Newcastle United.
Newcastle keypti Botman frá franska félaginu Lille árið 2022 þar sem hann varð deildarmeistari árið á undan.
Hann hefur komið við sögu í sautján leikjum á þessari leiktíð og alls spilað 93 leiki fyrir klúbbinn.
„Ég er í skýjunum með að skrifa undir nýjan samning. Félagið hefur gefið mér svo margt á þessum þremur og hálfu ári. Ég hef vaxið sem manneskja og sem leikmaður og finnst ég geta gefið félaginu meira til langs tíma. Þess vegna eru báðir aðilar gríðarlega ánægðir með þessa ákvörðun og er ég spenntur fyrir því sem koma skal,“ sagði Botman.
Botman hefur spilað með öllum yngri landsliðum Hollands. Hann var valinn í úrtakshóp landsliðsins fyrir HM í Katar árið 2022 en var ekki valinn í lokahópinn.
Athugasemdir




