FH tilkynnti í dag að Mackenzie Smith væri gengin í raðir félagsins en hún kemur frá Fram þar sem hún hefur spilað undanfarin tvö ár. Fótbolti.net sagði frá því í síðustu viku að Mackenzie væri á leið í FH.
Mackenzie er bandarískur miðjumaður, fædd árið 1991, sem var í lykilhlutverki hjá Fram og var fyrirliði liðsins bæði tímabilin. Hún hjálpaði Fram að komast upp úr Lengjudeildinni 2024 og enda í 8. sæti sem nýliði í Bestu deildinni 2025.
„Hún er kraftmikill og áræðinn leikmaður sem passar vel inn í leikstíl FH-liðsins. Við bjóðum Mackenzie velkomna til FH!" segir í tilkynningu FH.
FH endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar og Mjólkurbikarsins á liðnu tímabili. Liðið hefur misst lykilmenn úr hópnum frá síðasta tímabili. Thelma Karen Pálmadóttir, Arna Eiríksdóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir héldu út í atvinnumennsku og Margrét Brynja Kristinsdóttir samdi við Val.
Athugasemdir



