Bardagakappinn orðheppni Paddy Pimblett segir Trent Alexander-Arnold, leikmann LIverpool, hafa valdið sér miklum vonbrigðum með því að framlengja ekki samninginn hjá félaginu og kallar hann eðlu í viðtali við Sky Sports.
Pimblett er uppalinn í Liverpool-borg og verið stuðningsmaður Liverpool alla sína ævi.
Hann fylgist með öllum fréttum af félaginu og talaði aðeins um samningamál Trent í viðtali fyrir bardaga sinn við Michael Chandler sem fer fram um helgina.
Stærstu fjölmiðlar heims fullyrða að Trent hafi hafnað því að framlengja samning sinn við Liverpool og sé á leið til Real Madrid á frjálsri sölu í sumar, en þær fréttir hafa ekki farið vel í Pimblett sem gagnrýnir Trent harðlega.
„Hann er eðla. Ég myndi skipta út ferli mínum fyrir þetta og það án þess að hugsa mig tvisvar um. Að vinna titla fyrir borgina mína og liðið sem ég hef stutt allt mitt líf. Ég myndi gera allt til að fá tækifærið til þess.“
„Peningarnir sem hann er að þéna og sem honum hefur verið boðið og bara til þess að fá alla í borginni til þess að brosa. Ég vildi alltaf vera eins og Steven Gerrard, Fernando Torres og Luis Suarez þegar ég var að alast upp.“
„Hann er bara að fara yfirgefa félagið sem hann ólst upp hjá, styður og verið þarna fyrir hann í gegnum allt lífið bara til þess að verða enn ein hjóltönnin í Madrid-vélinni.“
„Trent hefði getað orðið að goðsögn hjá Liverpool og sagðist alltaf vilja taka við fyrirliðabandinu. Þannig hann var bara að ljúga þessu er það ekki? Hann hefur gleymt uppruna sínum,“ sagði Pimblett.
Í öðru viðtali við TNT Sport sagði Pimblett að Trent væri ekki 'Scouser' (manneskja sem býr í eða er frá Liverpool-borg) og að hann sé að fara illa með Liverpool með því að fara frítt frá félaginu.
Pimblett er vanur því að kalla mann og annan eðlu, pulsu eða svepp, en segir þó enga svakalega meiningu á bak við það. Hann notar orðin til að móðga, en uppruna eðlunnar má rekja til útvarpsmannsins Pete Price sem var kallaður eðla af einum hlustanda fyrir mörgum árum.
Sá hlustandi hringdi inn og sagði ástæðuna fyrir því að hann fengi ekki samsæriskenningamanninn David Icke í þáttinn væri vegna þess að hann myndi uppljóstra því að Price væri eðla í hamskiptum.
Icke, sem er verulega umdeildur á Bretlandseyjum, hefur haldið því fram að konungsfjölskyldan sé full af blóðsjúgandi eðlum og komi frá annarri plánetu. Brandarinn festist við Price og hafa borgarbúar í Liverpool notað þetta slangur óspart til þess að skjóta á aðra síðan.
Athugasemdir