Fær ekki að fara fyrr en Salah snýr aftur - Vill fara frá Tottenham - Juventus orðað við marga - Guehi til Þýskalands?
banner
   þri 13. janúar 2026 12:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
FH fær tvo nýja leikmenn (Staðfest) - Annar bakvörður frá HK
Kristján Snær og Aron Jónsson.
Kristján Snær og Aron Jónsson.
Mynd: FH
Aron Jónsson.
Aron Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Snær.
Kristján Snær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þeir Aron Jónsson og Kristján Snær Frostason voru rétt í þessu tilkynntir sem nýir leikmenn FH. Um tvo varnarmenn er að ræða. Báðar gera þeir samning út keppnistímabilið 2028

Aron er fæddur árið 2004 og kemur til FH frá Aftureldingu þar sem hann hefur spilað síðustu tvö tímabil. Hann er miðvörður sem uppalinn er hjá norska félaginu Brann. Hann lék á sínum tíma tvo leiki fyrir U19 landsliðið. Samningur hans við Aftureldingu rann út eftir síðasta tímabil.

FH hefur verið með augun opin fyrir miðverði eftir að Ahmad Faqa hélt aftur til AIK í Svíþjóð eftir að hafa leikið á láni með FH síðasta sumar.

Kristján Snær Frostason er fæddur árið 2005 og kemur til FH frá uppeldisfélaginu HK. Hann var líkt og Aron með lausan samning eftir síðasta tímabil. Kristján Snær er hægri bakvörður sem kom við sögu í ellefu leikjum með HK á liðnu tímabili. Hann var í háskólanámi í Bandaríkjunum en er hættur í náminu. Hann á að baki átta leiki fyrir yngri landsliðin.

Það vekur athygli að fyrir hjá FH er annar hægri bakvörður sem kom einmitt frá HK fyrir rúmu ári síðan. Birkir Valur Jónsson var fastamaður í liði FH á síðasta tímabili og verður fróðlegt að sjá hvernig samkeppni hans og Kristjáns Snæs verður.

„Aron er hafsent sem hefur mikið af þeim eiginleikum sem við erum að leita eftir, öruggur á boltanum, fljótur og kraftmikill og með gott hugarfar. Er með góðan bakgrunn frá Noregi, kominn með reynslu úr efstu deild hér á Íslandi og hefur mikinn metnað fyrir því að bæta sig enn frekar."

„Kristján er sókndjarfur bakvörður með mikla hlaupagetu, hraða og kraft. Hann er kominn með fína reynslu úr efstu deild, gott hugarfar og mikinn vilja til að bæta sig enn frekar og stimpla sig inn í FH-liðið."

„Báðir þessir leikmenn eru spennandi viðbót við hópinn og passa inn í það sem við erum að byggja upp hérna í Krikanum, orkumikið og kraftmikið lið sem ætlar sér stóra hluti á næstu árum,"
segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, um nýju leikmennina.


Athugasemdir
banner
banner