Fær ekki að fara fyrr en Salah snýr aftur - Vill fara frá Tottenham - Juventus orðað við marga - Guehi til Þýskalands?
   þri 13. janúar 2026 14:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umfjöllun
„Liðið eftir tíu ár" - Tíu árum síðar
Icelandair
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex í leik með landsliðinu.
Rúnar Alex í leik með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir Ingi Ingason.
Sverrir Ingi Ingason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Birgir Finnsson í leik gegn Englandi á Wembley.
Kolbeinn Birgir Finnsson í leik gegn Englandi á Wembley.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Aron Elís Þrándarson og Óttar Magnús Karlsson á æfingu með landsliðinu.
Aron Elís Þrándarson og Óttar Magnús Karlsson á æfingu með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Orri Steinn var að raða inn mörkum með 4. flokki Gróttu árið 2016. Hann er í dag landsliðsfyrirliði Íslands.
Orri Steinn var að raða inn mörkum með 4. flokki Gróttu árið 2016. Hann er í dag landsliðsfyrirliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Núna eru liðin tíu ár síðan undirritaður skrifaði pistil hér á Fótbolta.net þar sem hann spáði í spilin fyrir framtíðina. Íslenska karlalandsliðið hafði þá nýlokið þátttöku sinni á fyrsta stórmóti sínu, Evrópumótinu í Frakklandi. Tveimur árum síðar átti liðið svo eftir að fara á HM í Rússlandi.

Í pistlinum, sem vakti nokkra athygli á sínum tíma, var því spáð hvaða leikmenn myndu taka við keflinu af gullkynslóðinni. Slíkir spádómar hafa tíðkast í enskum fjölmiðlum í gegnum tíðina og hafa þeir verið misgóðir enda er mjög erfitt að spá fram í tímann þegar kemur að fótbolta og öðrum íþróttum.

En núna eru tíu ár liðin. Skoðum hvernig þessi spádómur rættist.

Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson
Í markinu var Rúnar Alex sem er í dag á mála hjá FC Kaupmannahöfn í Danmörku, en þar er hann ekkert að spila. Rúnar Alex var á þessum tíma að taka sín fyrstu skref með Nordsjælland í Danmörku. Fyrir nokkrum árum var hann orðinn aðalmarkvörður íslenska landsliðsins en í dag kemst hann ekki í hóp. Hann hefur spilað 27 landsleiki fyrir Ísland.

Elías Rafn Ólafsson og Hákon Rafn Valdimarsson berjast í dag um markmannsstöðuna í íslenska landsliðinu en þegar fréttin var skrifuð 2016 þá voru þeir báðir í 3. flokki, Hákon hjá Gróttu og Elías hjá Breiðabliki. Því kannski ekki skrítið að þeir hafi ekki verið þarna á blaði.

Hægri bakvörður: Alfons Sampsted
Eins og Rúnar Alex, þá hefur Alfons dottið út úr myndinni undanfarin misseri. Hann er í dag á mála hjá Birmingham á Englandi en spilar lítið sem ekkert. Hann fékk mörg tækifæri með A-landsliðinu en náði ekki að nýta þau til þessa; hefur alls 23 landsleiki en ekki verið með í síðustu hópum.

Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið fyrsti maður á blað í hægri bakvörðinn upp á síðkastið en hann var lítið inn í myndinni hjá landsliðinu áður en Erik Hamren tók við árið 2016.

Sverrir Ingi Ingason og Hjörtur Hermannsson
Það er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið ágætis gisk. Sverrir Ingi er í dag einn mikilvægasti leikmaður landsliðsins og hefur verið það í nokkur ár núna. Hann fór bæði á EM 2016 og HM 2018 með liðinu en í aukahlutverki þar sem Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson byrjuðu alla leiki. Sverrir hefur í dag spilað 65 landsleiki og skorað fjögur mörk. Hjörtur hefur verið inn og út úr landsliðshópnum sem er klárlega hægt að setja spurningamerki við þar sem hann hefur nánast alltaf spilað vel þegar hann hefur fengið að spila. Hjörtur er í dag leikmaður Volos í Grikklandi og hefur spilað 29 landsleiki.

Daníel Leó Grétarsson hefur oftast byrjað í hjarta varnarinnar með Sverri að undanförnu en hann var einn af leikmönnum sem kom til greina í stöðu vinstri bakvarðar í umfjölluninni fyrir tíu árum síðan.

Vinstri bakvörður: Sindri Scheving
Sindri var afar efnilegur leikmaður sem fór ungur að árum í akademíu Reading á Englandi, eins og nokkrir aðrir íslenskir leikmenn höfðu gert. Hann spilaði 35 leiki fyrir yngri landslið Íslands og þar á meðal þrjá leiki fyrir U21 landsliðið en hlutirnir gengu einfaldlega ekki upp hjá honum í fótboltanum. Hann kom heim 2017 og spilaði með Haukum, Víkingi Reykjavík, Þrótti Reykjavík, SR og Fjölni áður en skórnir fóru á hilluna árið 2021.

Mikael Egill Ellertsson og Logi Tómasson hafa mest verið að spila stöðu vinstri bakvarðar í landsliðinu undanfarið. Mikael skoraði átta mörk í átta leikjum með 4. flokki Fram árið 2016 og Logi Tómasson gerði sigurmark Víkings í úrslitaleik Íslandsmótsins í 3. flokki það ár.

Hægri kantur: Albert Guðmundsson
Árið 2016 var Albert líklega efnilegasti leikmaður sem við Íslendingar áttum. Hann hafði þá vakið athygli með unglingaliðum PSV Eindhoven í Hollandi og með yngri landsliðum Íslands. Albert er í dag einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins og var frábær fyrir liðið í undankeppni HM 2026 þar sem Ísland rétt missti af umspili. Leið Alberts að stöðu lykilmanns í landsliðinu hefur ekki verið eins greið og fólk kannski bjóst við en hann er kominn þangað í dag.

Albert getur leyst flestar stöður framarlega á vellinum, getur bæði spilað sem kantmaður og miðsvæðis. Hann hefur í dag spilað 46 landsleiki og skorað í þeim 14 mörk.

Miðjumenn: Kolbeinn Birgir Finnsson og Aron Elís Þrándarson
Kolbeinn Birgir var á þessum tíma nýfarinn út til Groningen í Hollandi eftir að hafa byrjað að spila með Fylki í efstu deild á Íslandi þegar hann var 15 ára gamall. Kolbeinn var á þessum tíma mjög spennandi miðjumaður en hann breyttist síðar meir í vinstri bakvörð og varð mjög öflugur sem slíkur. Hann hefur spilað 14 landsleiki fyrir Ísland en hefur lítið verið inn í myndinni að undanförnu þar sem hann hefur ekki verið að spila með félagsliði sínu, Utrecht í Hollandi. Aron Elís átti mjög farsælan feril sem atvinnumaður í Noregi og Danmörku og náði að spila 17 landsleiki fyrir Ísland, en flestallt voru það vináttulandsleikir. Aron er í dag kominn heim til Víkings og er að jafna sig af erfiðum meiðslum.

Fyrstu menn á blað á miðjunni í dag eru Skagamennirnir Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson. Þeir voru saman að spila í 4. flokki ÍA þegar fréttin kom út árið 2016. Stefán Teitur Þórðarson er annar leikmaður sem hefur verið að spila svolítið á miðsvæðinu en hann var að stíga upp í meistaraflokk ÍA á þessum tíma.

Vinstri Kantur: Jón Dagur Þorsteinsson
Jón Dagur fór ungur frá HK til Fulham á Englandi og vakti þar athygli með ungingaliðunum. Þegar fréttin var skrifuð árið 2016 var hann á mála hjá Fulham en hann hafði þá meðal annars spilað með U21 liðinu þar. Jón Dagur náði ekki að koma sér í gegn hjá Fulham en hefur átt mjög flottan feril í Danmörku, Belgíu og nú síðast Þýskalandi þar sem hann er á mála hjá Herthu Berlín.

Hann er í dag í nokkuð stóru hlutverki í landsliðinu og er yfirleitt fyrsta nafn á blað í vinstri kantstöðunni. Jón Dagur hefur spilað 52 landsleiki fyrir Ísland og skorað í þeim sex mörk.

Framherjar: Jónatan Ingi Jónsson og Óttar Magnús Karlsson
Á þessum tíma var Jónatan Ingi í akademíu AZ Alkmaar í Hollandi en belgíska fótboltasambandið hafði áhuga á honum þar sem móðir hans er frá Belgíu. Jónatan kom heim í FH 2018 og var einn besti leikmaður efstu deildar áður en hann fór út til Noregs árið 2021. Hann lék vel í Noregi en kom aftur heim 2024 og gekk þá í raðir Vals þar sem hann er í dag einn öflugasti leikmaður Bestu deildarinnar. Jónatan spilaði fyrir öll yngri landslið Íslands og á að baki tvo leiki fyrir A-landslið Íslands. Óttar Magnús var árið 2016 kominn heim eftir að hafa verið í akademíu Ajax í Hollandi. Hann hefur á ferli sínum komið víða við en hann hefur spilað í Noregi, Svíþjóð, á Ítalíu og í Bandaríkjunum. Hann hefur síðustu árin spilað í neðri deildum Ítalíu og er í dag leikmaður Renate í Serie C. Óttar Magnús hefur spilað ellefu landsleiki og skorað í þeim tvö mörk.

Tveir sterkustu framherjar Íslands í dag eru Andri Lucas Guðjohnsen og Orri Steinn Óskarsson, landsliðsfyrirliði. Andri Lucas var árið 2016 í akademíu Espanyol á Spáni og hefði undirritaður líklega átt að giska á hann enda kemur hann úr svakalegri fótboltafjölskyldu. Það sama má segja um yngri bróður hans, Daníel Tristan, sem hefur verið í landsliðshópnum að undanförnu. Orri Steinn var árið 2016 að raða inn mörkum með 4. flokki Gróttu.

Auðvitað var þetta bara til gamans gert árið 2016 og á sama tíma var tilgangurinn að kynna unga leikmenn fyrir lesendum. Þrír af ellefu réttir er kannski ekkert frábær árangur en þegar maður tekur tillit til þess að margir af þeim leikmönnum sem eru í liðinu í dag voru í 3. og 4. flokki árið 2016, þá er það ekkert svo hræðilegt heldur. Landsliðið í dag er á áhugaverðum stað en eftir að hafa mistekist að komast á HM 2026 í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó er draumurinn að fara á Evrópumótið 2028 og sá draumur er alls ekkert svo óraunhæfur.
Athugasemdir
banner
banner