Franski sóknarleikmaðurinn Anthony Martial er afar eftirsóttur eftir að hann rann út á samningi hjá Manchester United um síðustu mánaðamót.
Martial er 28 ára gamall og skoraði 90 mörk í 317 leikjum á níu árum í Manchester.
Á sínu besta tímabili skoraði Martial 23 mörk í 48 leikjum en hann þótti gríðarlega mikið efni þegar hann kom fyrst til félagsins aðeins 19 ára gamall og byrjaði strax að raða inn mörkunum, en svo átti eftir að hægjast á honum.
Martial spilaði 30 landsleiki fyrir Frakkland frá 2015 til 2021 en hefur ekki spilað síðan, eftir að hafa verið algjör lykilmaður upp öll yngri landsliðin.
Sóknarmaðurinn knái hefur verið orðaður við ýmis félög í sumar en hann ætlar að nota næstu vikur til að velja á milli þeirra tilboða sem eftir standa.
Hann hefur þegar neitað nokkrum tilboðum frá enskum úrvalsdeildarfélögum samkvæmt heimildum Fabrizio Romano.
Athugasemdir