
Grindavík hélt sér uppi í Lengjudeildinni í dag þrátt fyrir að hafa tapað sannfærandi gegn Njarðvíkingum á JBÓ vellinum í dag.
Lestu um leikinn: Njarðvík 3 - 0 Grindavík
„Það er smá skrítin tilfinning að tapa 3-0 en samt vera glaður á sama mómentinu" sagði Anton Ingi Rúnarsson annar af þjálfurum Grindavíkur eftir tapið í dag.
„Markmiðið var nátturlega bara að halda sér uppi í þessum síðustu tveim leikjum og það tókst. Það er ánægjuefni og það verður stemning í kvöld"
Grindavík fór á einum tímapunkti í dag niður í fallsæti en voru leikmenn og aðrir á vellinum einhvertíman meðvitaðir um það?
„Við vorum meðvitaðir um stöðuna í hálfleik en þá var hún breytt aðeins. Þá var þetta svolítið stál í stál. Við vorum meðvitaðir um það að við þyrftum svolítið að treysta á Keflvíkingana því þetta væri svolítil brekka en við ætluðum að reyna að spíta í lófana og ná inn marki snemma sem reyndar tókst ekki"
Anton Ingi Rúnarsson og Marko Valdimar Stefánsson tóku við liðinu þegar tveir leikir voru eftir og náðu að stýra liðinu frá falli. Þeir hafa áhuga á að vera áfram.
„Það er ekki búið að ræða það. Við töluðum bara um að klára síðustu tvo leikina og reyna að halda liðinu uppi og það tókst. Menn eiga svo eftir að setjast bara niður og fara yfir hvernig þeir sjá fyrir næsta tímabil"
„Þetta er spennandi hópur og við Marko vinnum vel saman. Það gekk vel burt séð frá þessu 3-0 tapi, þá gekk frábærlega á móti ÍR-ingunum og við myndum alveg vilja byggja ofan á það. Við erum báðir Grindvíkingar og viljum koma liðinu af stað og hækka levelið"
Nánar er rætt við Anton Inga Rúnarsson í spilaranum hér fyrir ofan.