Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   þri 13. október 2015 10:43
Alexander Freyr Tamimi
Líklegt byrjunarlið Íslands gegn Tyrkjum - Ömmi inn
Fótbolti.net spáir þremur breytingum á byrjunarliði Íslands
Icelandair
Fótbolti.net spáir því að Ögmundur byrji.
Fótbolti.net spáir því að Ögmundur byrji.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar er mættur aftur eftir bann.
Aron Einar er mættur aftur eftir bann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland mætir Tyrklandi í lokaumferð undankeppni EM 2016 í Konya klukkan 18:45 að íslenskum tíma.

Augljóst er að einhverjar breytingar munu eiga sér stað á byrjunarliðinu. Leikurinn skiptir mun meira máli fyrir Tyrki en íslensku strákarnir hafa þó lýst yfir miklum sigurvilja, enda vilja þeir tryggja sér toppsæti A-riðils. Hér að neðan má sjá líklegt byrjunarlið að okkar mati.



Aðalmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson er fjarri góðu gamni vegna meiðsla og við spáum því að Ögmundur Kristinsson standi á milli stanganna í hans stað. Ögmundur hefur verið að gera frábæra hluti með Hammarby í Svíþjóð og á skilið að fá tækifæri.

Við spáum því að Kári Árnason haldi sæti sínu í byrjunarliðinu þrátt fyrir að hafa farið meiddur af velli gegn Lettlandi, en Heimir Hallgrímsson sagði að hann væri heill heilsu. Varnarlínan verður því sú hefðbundna sem við höfum séð í undanförnum leikjum.

Fastlega má gera ráð fyrir því að fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson komi aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa afplánað leikbann. Við spáum því að Emil Hallfreðsson missi sæti sitt í liðinu í hans stað. Auk Arons verður Gylfi Þór Sigurðsson á miðjunni og þeir Birkir Bjarnason og Jóhann Berg Guðmundsson verða áfram á köntunum.

Þá spáum við því að Jón Daði Böðvarsson komi inn í byrjunarliðið í stað Alfreðs Finnbogasonar, en sá fyrrnefndi missti af leiknum gegn Lettlandi vegna meiðsla. Hann ku vera klár í slaginn og í ljósi þess hve mikla trú þjálfararnir hafa á honum má gera ráð fyrir því að hann endurheimti sæti sitt.

Ásamt Jóni Daða verður Kolbeinn Sigþórsson svo uppi á topp.

Annar möguleiki er að Emil haldi sæti sínu og fari upp á kantinn og að Jóhann Berg verði færður fram með Kolbeini.




Athugasemdir
banner