Man City að undirbúa tilboð í Guehi - Man Utd hyggst ekki fá Rashford aftur - Gomez áfram hjá Liverpool
banner
   mið 14. janúar 2026 09:55
Elvar Geir Magnússon
Nýjasti leikmaður ÍA fæddist á Akranesi
Rafael Máni Þrastarson með ÍA treyjuna.
Rafael Máni Þrastarson með ÍA treyjuna.
Mynd: ÍA
Um síðustu helgi var staðfest að Rafael Máni Þrastarson væri genginn í raðir ÍA frá Fjölni. Skagamenn kynntu svo Rafael í gær sem nýjan leikmann sinn.

„Rafael Máni er 18 ára kraftmikill, hraður og tæknilega góður sóknarmaður. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þegar leikið 51 meistaraflokksleik og skorað í þeim 20 mörk. Þá á Rafael leik fyrir U19 ára landslið Íslands," segir í tilkynningu ÍA.

Rafael hefur leikið fyrir Fjölni (og venslalið þess) allan ferilinn en í tilkynningu Þá er greint frá ansi sterkri tengingu hans við Akranes.

„Rafael Máni á heldur betur rætur sínar að rekja upp á Skaga en báðir foreldrar Rafaels eru fædd og uppalin á Akranesi – og þá er Rafael Máni sjálfur fæddur á sjúkrahúsinu á Akranesi."

Rafael spilaði 12 leiki og skoraði 4 mörk í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð er Fjölnismenn féllu niður í 2. deild. Það hefur verið talað um 12 milljóna króna verðmiða en samkvæmt heimildum Fótbolta.net var upphæðin lægri.
Athugasemdir