Tómas Bent Magnússon og félagar hans í Hearts hafa verið í toppsæti skosku deildarinnar samfleytt frá því að liðið fór á toppinn með sigri á Falkirk í sjöttu umferð deildarinnar. Það eru alls þrír og hálfur mánuður með stórliðin Rangers og Celtic fyrir neðan sig.
Miðjumaðurinn var í takmörkuðu hlutverki til að byrja með eftir komuna til Edinborgar en hann hefur byrjað níu af síðustu tíu leikjum liðsins.
Miðjumaðurinn var í takmörkuðu hlutverki til að byrja með eftir komuna til Edinborgar en hann hefur byrjað níu af síðustu tíu leikjum liðsins.
Fótbolti.net ræddi við Srdjan Tufegdzic sem þjálfaði Tómas hjá Val. Hann notaði enskt orð til að lýsa Tómasi.
„Það er helvíti gaman að sjá hann vera kominn í stórt hlutverk hjá toppliðinu í Skotlandi. Ég held að enginn hafi séð fyrir að Tómas myndi fara svona langt á svona stuttum tíma. Við sáum hæfileikana, en Tómas hefur einn frábæran kost. Allir tala um að hann sé geggjaður karakter og duglegur leikmaður og allt það, en það eru margir sem hafa þá kosti. En hann hefur einn eiginleika sem færri hafa, hann er rosalega 'coachable' ef ég nota það enska orð."
Þeir sem eru 'coachable' eru meðtækilegir fyrir leiðbeiningum frá þjálfara, tilbúnir að læra og þroskast. Túfa heldur áfram:
„Sem dæmi þá teiknar maður upp ákveðið hlutverk fyrir hann og leggur taktískt upp. Hann fer inn á völlinn og sinnir því hlutverki eiginlega enn betur en þú sem þjálfari ert búinn að leggja upp með. Ég held að það sé aðalástæðan fyrir því að hann er að blómstra núna úti. Menn eru fastir á að tala um að hann sé karakter, duglegur, hlaupi mikið og tækli mikið, en ég held að það sem skilji á milli sé þessi eiginleika hans, það eru ekki margir með hann. Hann er rosalega 'coachable', tekur rosalega flott á móti upplýsingum og framkvæmir það sem beðið erum inni á vellinum. Ég held það hjálpi honum helling núna á þessu getustigi," segir Túfa.
Hearts er þremur stigum á undan Rangers og á leik til góða á liðið í 2. sætinu. Celtic er í þriðja sæti, sex stigum á eftir en með jafnmarga leiki spilaða og toppliðið. Hearts mætir St. Mirren á heimavelli í kvöld og Celtic sækir Falkirk heim. Það er 41 ár síðan að annað lið en Rangers eða Celtic vann síðast skoska titilinn.
Þreföld umferð er spiluð í skosku deildinni og henni er svo skipt í efri og neðri hluta, með sex liðum í hvorum hluta, og spiluð einföld umferð, fimm leikir í hvorum hluta. Hearts á því eftir að spila 17 deildarleiki á tímabilinu.
Valur var á toppi Bestu deildarinnar síðustu vikurnar áður en Tómas var seldur, hann varð lykilmaður í liðinu síðustu tvo mánuðina hjá Val, var einn allra besti leikmaður Bestu deildarinnar og Hearts keypti hann í byrjun ágúst. Valur komst á toppinn í 15. umferð og Tómas var seldur til Skotlands tveimur vikum síðar.
Á síðasta hálfa árinu hefur Tómas því verið í fjóra mánuði af sex í toppsætinu í sinni deild.
Athugasemdir





