Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
   fös 14. mars 2025 15:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Umfjöllun
Átta sekúndna reglan innleidd í íslenska boltann (Staðfest)
Jökull, og að aðrir markmenn á Íslandi, þurfa að aðlaga sig að nýrri reglu!
Jökull, og að aðrir markmenn á Íslandi, þurfa að aðlaga sig að nýrri reglu!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þóroddur gat á þessu augnabliki ekki dæmt hornspyrnu á Harald Björnsson ef hann hélt of lengi á boltanum.
Þóroddur gat á þessu augnabliki ekki dæmt hornspyrnu á Harald Björnsson ef hann hélt of lengi á boltanum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þóroddur var lengi vel dómari og er nú starfsmaður KSÍ.
Þóroddur var lengi vel dómari og er nú starfsmaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ætli Pétur Guðmundsson muni dæma hornspyrnu vegna leiktafar markmanns í sumar?
Ætli Pétur Guðmundsson muni dæma hornspyrnu vegna leiktafar markmanns í sumar?
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Spjaldað fyrir óþarfa leiktafir.
Spjaldað fyrir óþarfa leiktafir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýja átta sekúndna reglan var samþykkt af stjórn KSÍ fyrr í þessum mánuði og verður innleidd í íslenska fótboltann frá og með 1. umferð Mjólkurbikarsins sem hefst 28. mars.

Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ og hafði Þóroddur Hjaltalín, sem starfar við dómaramál hjá KSÍ, staðfest tíðindin í samtali við Fótbolta.net fyrr í dag.

Reglan er þannig að ef markmaður heldur á boltanum í átta sekúndur þá skal andstæðingurinn fá hornspyrnu. Gamla sex sekúndna reglan, þar sem dæmi átti óbeina aukaspyrnu ef markmaður hélt á boltanum í sex sekúndur, er ekki lengur til.

„Ég get staðfest að þessi lagabreyting mun taka gildi á Íslandi frá upphafi bikarkeppninnar 28. mars," segir Þóroddur.

Hvernig nákvæmlega virkar reglan?
Átta sekúndur, erum við að tala um leið og markmaður snertir boltann með annarri hendi?

„Nei, áður var þetta sex sekúndur og var frá því að markmaður var kominn með fulla stjórn á boltann. Það hefur ekkert breyst. Markmaður hefur núna átta sekúndur eftir að hann nær stjórn á boltanum þangað til að hann þarf að vera búinn að losa sig við hann. Dómarinn mun með handabendingu gera markmanninum ljóst hvað hann á mikið eftir af tímanum."

„Við erum með tölfræði úr rúmlega 300 leikjum sem hafa verið spilaðir á Möltu, Ítalíu og Englandi þar sem verið var að prófa þetta. Þar voru samtals dæmdar þrjár hornspyrnur. Það voru svo þrjú tilfelli til viðbótar þar sem dómarinn hefði átt að dæma horn. Við sjáum því ekki fyrir okkur að þetta sé stór breyting nema að þetta mun hraða á leiknum sem er það sem við viljum gera. Dómarinn er kominn með betri verkfæri til að stýra því að boltinn komi fyrr í leik. Hraðari leikur er eitthvað sem allir vilja."


Er dómarinn að telja í huganum upp í átta og á níuundu sekúndu er dæmd hornspyrna?

„Nei. Framkvæmdin er þannig að þegar markmaðurinn á fimm sekúndur eftir af tíma sínum til að koma boltanum í leik þá setur dómarinn hendina upp og telur niður með fingrunum. Markmaðurinn mun sjá dómarann setja höndina upp og veit þá að hann á að koma boltanum í leik."

Ef hreyfingin til þess að koma boltanum í leik er að fara af stað þegar síðasti fingur fer niður, er það í lagi?

„Ég held það muni nú alveg sleppa ef markmaðurinn kemur boltanum í leik á níundu sekúndu. Það sem við viljum koma í veg fyrir er að menn séu miklu lengur með boltann. Við sjáum í dag menn halda á boltanum miklu lengur."

„Það verður dæmd hornspyrna þeim megin sem markmaðurinn var þegar tíminn hans rann út. Ef hann er miðsvæðis þá tekur dómarinn ákvörðun um hvoru megin hornspyrnan skal tekin,"
segir Þóroddur.

Aðrar breytingar
Aðrar breytingar á reglunum eru ekki stórvægilegar. Rangstöðureglan var aðeins fínpússuð og er nú skýrt að ef markmaður kastar boltanum út þá skal miðað við augnablikið sem boltinn fer úr höndum markmannsins þegar möguleiki er á rangstöðu.

Þá er breyting á því hvað gerist þegar boltinn fer í dómara. Núgildandi regla er að ef boltinn fer í dómarann þá fær liðið boltann aftur sem var með hann. Eftir breytingu er reglan þannig að ef boltinn var augljóslega á leið til andstæðings eða út af vellinum þá fær andstæðingurinn boltann.

„Við sjáum þá væntanlega breytingu þegar spilað er inni að ef boltinn fer upp í loft að dómarinn mun láta andstæðinginn hafa boltann."

Vilja allir hraðari leik
Þóroddur segir að dómarar muni áfram leggja áherslu á leiktafir eins og tekið var hart á síðasta sumar.

„Við ætlum að halda áfram að leggja áherslu á það, við munum fylgja því vel eftir að dómarar séu áfram að halda þessu gangandi varðandi leiktafir; bolti borinn í burtu, sparkaður í burtu eða staðið fyrir í aukaspyrnum. Mér fannst þetta ganga vel í fyrra og fannst ánægja meðal þjálfara og leikmanna. Þetta er eitthvað sem öllum finnst leiðinlegt."

„Þess vegna held ég að það sé frábært að fá þessa átta sekúndna reglu því ég held að hún muni bara hraða ennþá meira á þessu. Það er (var) risastór ákvörðun að dæma óbeina aukaspyrnu inn í vítateig."

„Við viljum ekki að menn hætti að leggja áherslur á þessi atriði þegar líður á mótið, við munum fylgja þessu eftir. Mér fannst dómararnir í fyrra sýna mikla samheldni í að fara eftir þessum fyrirmælum, miklu betur en flest önnur ár."

„Ég held að ástæðan fyrir því að við fengum svo mikla gagnrýni í fyrra hafi verið vegna þess að það var svo mikið um leiktafir sem tekið var á; gagnrýni þá að við hefðum ekki kynnt þetta betur. Það sem gerist stundum er að leikmenn læra á reglurnar og fara að haga sér öðruvísi. Þá fækkar atvikunum og þá kannski fara dómarar niður á hælana og dæma ekki ef svona atvik koma upp. Það er okkar sem stöndum fyrir utan þetta að passa upp á þetta og vera alltaf að fara yfir þessar áherslur með dómurunum."


EInungis fyrirliðinn
„Það er svo áhersluatriði sem innleitt var í Lengjubikarnum að einungis fyrirliðinn ræðir við dómarann. Því verður fylgt eftir, skapar vinnufrið fyrir dómarann í leikjum," segir Þóroddur. Leikmenn skulu ekki hópast í kringum dómarann.

Smelltu hér til að kynna þér breytingar á fótboltalögunum 2025
Athugasemdir
banner
banner