Valur og KR leika til úrslita í Borgunarbikarnum á laugardag. Flautað verður til leiks klukkan 16:00 á Laugardalsvellinum.
Jörundur Áki Sveinsson, er sérfræðingur Fótbolta.net um Pepsi-deild karla. Við fengum hann til að rýna aðeins í úrslitaleik bikarsins.
Jörundur Áki Sveinsson, er sérfræðingur Fótbolta.net um Pepsi-deild karla. Við fengum hann til að rýna aðeins í úrslitaleik bikarsins.
Tvö stærstu Reykjavíkurfélögin
Eins og vera ber, býst Jörundur Áki við jöfnum og skemmtilegum bikarúrslitaleik milli tveggja Reykjavíkur-risa.
„Þetta eru tvö stærstu Reykjavíkurfélögin með mikla hefð og báðum liðum hefur gengið vel í bikarnum ef við skoðum söguna," segir Jörundur Áki og bætir við að báðum liðum hefur einnig gengið vel í Pepsi-deildinni í sumar.
„Það sem fær mann til að vera aðeins meira KR-megin er að það er meiri breidd hjá KR og það hafa verið aðeins um meiðsli hjá Val upp á síðkastið sem hefur komið niður á þeirra leik. Það gæti sett stórt strik í reikninginn ef til dæmis Haukur Páll og Patrick Pedersen yrðu ekki með og ég tala nú ekki um, ef Ingvar Kale verði heldur ekki með. Þá er þetta orðinn allt annar leikur en maður hefði búist við, fyrirfram," segir Jörundur aðspurður út í það, hvort liðið sé líklegra til að hampa titlinum.
Gerir ráð fyrir að allir verði með
Það hefur verið umtalsverð umræða um meiðslamálin í herbúðum Vals. Þjálfarar Vals hafa lítið viljað gefa upp almennilega hvernig staðan á Ingvari Kale, Patrick Pedersen og Hauki Páli sé. Einnig hefur Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals verið að leika sér með mál Emils Atlasonar sem er á láni hjá félaginu frá KR.
Jörundur Áki býst við því að þrír fyrr nefndu, sem hafa verið að glíma við meiðsli verði allir með í leiknum á morgun.
„Mér finnst ólíklegt að Óli sé eitthvað að grínast með þessi mál í fjölmiðlum. Það reyna allir leikmenn að tjasla sér saman fyrir þennan leik. Þetta verður spennandi að sjá hverjir verða með og hverjir ekki. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Val að allir þessir þrír leikmenn verði klárir í slaginn."
Veit ekki hvað Gary Martin er að spá
Við fengum Jörund Áka til að stilla upp sinni draumasóknarlínu hjá KR, ef allir leikmenn KR eru heilir. Hólmbert Aron fór af velli meiddur í síðasta deildarleik. Hann æfir þó með liðinu í dag og búist er við því að hann verði orðinn klár fyrir morgundaginn.
„Ég myndi stilla Hólmberti upp á topp og með Óskar Örn og Sören Frederiksen með honum. Það yrði mín drauma uppstilling. Ef Hólmbert verður ekki klár, þá myndi ég hafa Þorstein Má í hans stað."
„Ég veit ekki alveg hvað Gary Martin er að spá þessa dagana. Það er ekki af honum tekið að hann getur skorað mörk og breytt leikjum en mér finnst viðhorfið hans ekki vera honum til framdráttar. Það er eitt að vera óánægður en annað að vera alltaf með það í fjölmiðlum og vera með leiðindarstæla. Ég styð Bjarna og Gumma Ben. alveg í því að setja manninn á bekkinn. "
Hungrið talvert mikið Valsmegin
Liðin hafa mæst einu sinni í sumar í Pepsi-deildinni. Þar fóru Valsmenn illa með KR-inga á Vodafone-vellinum. Hlíðarendapiltar fóru með 3-0 sigur af hólmi í þeim leik, með tveimur mörkum frá Patrick Pedersen og einu frá Hauki Ásberg Hilmarssyni í uppbótartíma.
„Það var einn slakasti leikur KR á tímabilinu. Þeir vita það alveg að þeir geta ekki komið með hangandi haus inn í þennan leik. Það er langt síðan Valur vann titil og hungrið er líklega talvert mikið Valsmegin. Þekkjandi Óla Jó. og Bjössa þá verður allt kapp lagt í að vinna þennan titil, " segir Jörundur Áki.
Valsmenn fara inn í bikarúrslitaleikinn með þrjú töp í deildinni í röð á bakinu. Jörundur Áki segir að það megi vel vera að það skipti einhverju máli en það muni þó ekki trufla menn þegar í leikinn er komið
„Ég held samt sem áður að þegar menn eru komnir inn í þennan leik þá ýta menn því frá sér og gefi allt í það að til vinna titil. Þeir eru ekkert að spá í því sem er liðið. Þetta er þessi eini leikur, nýtt mót og það þýðir ekkert að spá í því hvað hefur verið að gerast í deildinni. "
„Ég geri ráð fyrir að þetta verði jafn leikur. Ein mistök til eða frá geta ráðið úrslitum. Þetta gæti farið í framlengingu og vítaspyrnukeppni, er það ekki alltaf draumurinn fyrir hlutlausu aðilana?"
En hverjir verða bikarmeistarar?
„Ef allir eru heilir hjá Val, þá held ég að þeir vinni þennan leik," sagði Jörundur Áki Sveinsson að lokum.
Fótbolti.net verður með sérstakan bikarúrslitaþátt á laugardag á X-inu FM 97,7 milli 12 og 14. Umsjónarmenn eru @tomthordarson og @elvargeir. Hitað verður upp fyrir leikinn en Pétur Pétursson og Þorgrímur Þráinsson verða meðal gesta.
Þú getur hlustað á X-ið á netinu með því að smella hérna
Athugasemdir