Bruno vill ekki fara frá Man Utd - Enzo Fernandez orðaður við PSG - Atletico vill Gomes
banner
   fim 15. janúar 2026 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hafa áhyggjur og óska eftir skjótum viðbrögðum dómsmálaráðuneytisins
Mun hafa mikil áhrif á íslenskan fótbolta - og aðrar íþróttir.
Mun hafa mikil áhrif á íslenskan fótbolta - og aðrar íþróttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH fékk þau svör að það umsóknarferlið gæti tekið sex mánuði.
FH fékk þau svör að það umsóknarferlið gæti tekið sex mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Félög í Bestu deild kvenna hafa áhyggjur af því að leikmenn utan EES muni ekki fá leikheimild með liðunum áður en Besta deildin hefst.

FH samdi á dögunum við bandaríska leikmanninn Mackenzie Smith sem hefur spilað í tvö tímabil hér á landi með Fram og sækja þarf um dvalarleyfi fyrir hana. Grindavík/Njarðvík hefur samið við tvær bandarískar á síðustu dögum og Breiðablik tilkynnti nýjan leikmann í gær. Þessir leikmenn þurfa dvalarleyfi hér á landi.

Við undirbúning dvalarleyfisumsóknar fyrir nýjan leikmann FH fengu stjórnarmenn þær fréttir að ekki væri lengur hægt að greiða fyrir flýtimeðferð umsóknar. FH fékk þau svör að það gæti tekið allt að sex mánuði að vinna úr úrvinnslu umsóknanna. Það þarf slíkt leyfi svo leikmenn fái leikheimild hér á landi. Besta deild karla hefst 10. apríl og Besta kvenna tveimur vikum síðar.

FH hefur lýst yfir áhyggjum sínum og Fótbolti.net hefur undir höndum tölvupóst sem sendur var á aðstoðarmann (Þórólfur Heiðar Þorsteinsson) dómsmálaráðherra (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir).

Frá FH til aðstoðarmanns dómsmálaráðherra
Sæll Þórólfur

Nú er undirbúningstímabil knattspyrnufólks í fullum gangi. Fyrri félagaskiptagluggi KSÍ er frá 5. febrúar til 29. apríl 2026 fyrir mót sumarsins og því ljóst að lið munu næstu vikurnar vera að móta sín lið og semja við leikmenn, m.a. erlenda leikmenn sem sumir hverjir koma frá löndum utan Evrópu.

Á síðustu vikum hafa nokkur lið samið við bandaríska leikmenn, m.a. kvennalið FH í fótbolta sem samdi við bandarískan leikmann sem hefur leikið fyrir Fram síðustu tvö sumur og endursömdu við annan bandarískan leikmann sem spilaði með liðinu síðasta sumar. Kvennalið Breiðabliks tilkynnti um samning við bandarískan miðjumann í þessari viku, kvennalið Grindavíkur/Njarðvíkur tilkynnti nýlega um samning við bandarískan markmann og varnarmann og svo mætti lengi telja.

Liðin fóru af stað nú á nýju ári að sækja um atvinnuleyfi fyrir þessa bandarísku leikmenn fyrir komandi tímabil, en fyrstu leikir liðanna í KSÍ móti fara fram í febrúar og Besta deildin hefst í apríl. Þegar haft var samband við Útlendingastofnun kom í ljós að eftir áramótin er ekki lengur í boði að borga flýtigjald fyrir umsóknir um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk (umsóknin kostaði fyrir áramót 16.000 kr. og síðan flýtigjaldið 48.000 kr.) og að nú kosti umsóknin 80.000 kr, enginn möguleiki á flýtimeðferð og miðað við framvindu mála sé gert ráð fyrir að umsóknir sem berist stofnuninni í dag verði afgreiddar um mitt sumar.

Engin athugasemd er gerð við það að umsóknarkostnaðurinn hafi hækkað en ljóst er að margra mánaða vinnslutími umsókna mun koma sér gífurlega illa fyrir mörg íþróttafélög landsins þó hér á undan hafi aðeins verið talin upp nokkur tilfelli. Þetta þýðir að þeir bandarísku leikmenn sem skrifuðu undir núna síðustu vikurnar fá ekki leikheimild fyrr en að Íslandsmótið verður orðið hálfnað. Þessar fréttir eru gífurlegt högg fyrir okkur og flest önnur kvennalið, en síðasta sumar voru bandarískir leikmenn í hverju einasta liði í Bestu deildinni. Vakin var athygli á þessum breytingum við forsvarsmenn nokkurra félaga í Bestu Deildinni og deila þau öll þessum áhyggjum með okkur.

Aðrar íþróttagreinar eins og körfuboltinn munu eflaust líka finna fyrir þessu þar sem að menningin fyrir bandarískum leikmönnum er enn sterkari, en þar þurfa lið oft að sækja nýja leikmenn á miðju tímabili og er þá þörf á skjótri afgreiðslu umsókna hjá Útlendinga- og Vinnumálastofnun.

Við köllum eftir því að dómsmálaráðuneytið taki þetta mál fyrir hið snarasta þar sem boðið verði aftur upp á að greiða fyrir flýtimeðferðir á umsóknum, eða jafnvel að íþróttafélög fái sérmeðferðir við slíkar umsóknir þar sem sérstakar umsóknir verði vegna atvinnuleyfa fyrir íþróttaleikmenn sem íþróttafélögin þyrftu að skila inn.

Með von um skjót viðbrögð,
Meistaraflokksráð kvennaliðs FH í fótbolta
Athugasemdir
banner