Það fóru tveir leikir fram í efstu deild ítalska boltans í dag og í kvöld þar sem Como tók á móti Milan í stærri leik kvöldsins.
Lærlingar Cesc Fábregas voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu forystunni snemma leiks þegar Marc-Oliver Kempf skoraði með skalla eftir hornspyrnu.
Como var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Milan tókst að skora jöfnunarmark undir lokin sem kom þvert gegn gangi leiksins. Ignace Van der Brempt tapaði boltanum afar klaufalega á eigin vallarhelmingi sem gerði Alexis Saelemaekers kleift að senda Adrien Rabiot einn í gegn og fiskaði Frakkinn vítaspyrnu. Samlandi hans Christopher Nkunku steig á vítapunktinn og var heppinn að skora þar sem Jean Butez var með báðar hendur í boltanum en skotið reyndist of fast. Fjórða markið hjá Nkunku í síðustu þremur deildarleikjum hans með Milan.
Síðari hálfleikurinn var jafnari heldur en sá fyrri en heimamenn í Como virtust áfram vera hættulegri aðilinn. Þeim tókst þó ekki að skora á meðan Rabiot kom boltanum tvisvar sinnum í netið.
Rabiot skoraði fyrst eftir skyndisókn þar sem Rafael Leao gerði mjög vel að búa til færi fyrir Frakkann. Staðan hélst 1-2 allt þar til á lokamínútunum þegar Rabiot innsiglaði sigur Milan með föstu skoti utan vítateigs. Rabiot skaut með vinstri og fór boltinn meðfram jörðinni en Butez náði samt ekki til hans og er hægt að setja stórt spurningarmerki við frammistöðu markvarðarins hjá heimamönnum í þessum leik.
Þetta reyndust lokatölurnar, 1-3 sigur Milan þrátt fyrir flotta frammistöðu hjá lærlingum Fábregas í liði Como.
Milan er í öðru sæti Serie A deildarinnar með 43 stig eftir 20 umferðir, þremur stigum á eftir nágrönnum sínum í toppliði Inter. Como situr í sjötta sæti með 34 stig.
Fyrr í dag hafði Bologna betur á útivelli gegn Verona. Þar komust heimamenn yfir í fyrri hálfleik en gestirnir svöruðu með þremur mörkum fyrir leikhlé.
Riccardo Orsolini, Jens Odgaard og hinn eftirsótti Santi Castro skoruðu mörkin.
Verona minnkaði muninn í síðari hálfleik en tókst ekki að jafna metin þrátt fyrir flotta frammistöðu, svo lokatölur urðu 2-3.
Bologna er í áttunda sæti með 30 stig, fjórum stigum frá evrópusæti, á meðan Verona vermir botnsæti deildarinnar. Liðið er með 13 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Como 1 - 3 Milan
1-0 Marc-Oliver Kempf ('10 )
1-1 Christopher Nkunku ('45, víti)
1-2 Adrien Rabiot ('55 )
1-3 Adrien Rabiot ('88 )
Verona 2 - 3 Bologna
1-0 Gift Orban ('13 )
1-1 Riccardo Orsolini ('21 )
1-2 Jens Odgaard ('29 )
1-3 Santiago Castro ('44 )
2-3 Remo Freuler ('72 , sjálfsmark)
Athugasemdir


