Bruno vill ekki fara frá Man Utd - Enzo Fernandez orðaður við PSG - Atletico vill Gomes
banner
   fim 15. janúar 2026 21:37
Ívan Guðjón Baldursson
Þýskaland: Magnað draumamark ekki nóg
Tíu leikmenn Union Berlin jöfnuðu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Augsburg 1 - 1 Union Berlin
1-0 Alexis Claude-Maurice ('45+6)
1-1 Marin Ljubicic ('92)
Rautt spjald: Derrick Kohn, Union Berlin ('89)

Augsburg tók á móti Union Berlin í sautjándu umferð þýska deildartímabilsins í kvöld.

Það stefndi allt í markalausan fyrri hálfleik þar til Alexis Claude-Maurice skoraði sitt fyrsta mark á keppnistímabilinu.

Augsburg tók langt innkast og náði að halda sókninni lifandi eftir að gestirnir frá höfuðborginni bægðu hættunni frá. Boltinn barst fyrir Claude-Maurice sem ákvað að leggja hann fyrir sig og láta vaða af um 30 metra færi.

Sjáðu markið

Niðurstaðan var ótrúlegt mark þar sem boltinn skaust í slána og inn. Þetta er mikill léttir fyrir Claude-Maurice sem er ekki að eiga gott tímabil eftir að hafa verið meðal bestu leikmanna Augsburg á síðustu leiktíð.

Í síðari hálfleik voru gestirnir í liði Union talsvert sterkari aðilinn. Þeir sköpuðu góð færi en tókst ekki að skora jöfnunarmark og ekki skánaði staðan þegar Derrick Köhn var rekinn af velli með beint rautt spjald á 89. mínútu.

Tíu leikmenn Union gáfust þó ekki upp og náðu að sækja sér jöfnunarmark í uppbótartíma til að bjarga stigi. Marin Ljubicic, sem kom inn af bekknum tíu mínútum fyrr, skoraði eftir slæman varnarleik hjá Augsburg eftir langa sendingu upp völlinn. Lokatölur 1-1.

Augsburg er þremur stigum fyrir ofan fallsæti eftir þetta jafntefli, með 15 stig úr 17 umferðum.

Union Berlin er með 23 stig, sex stigum frá evrópusæti.
Athugasemdir
banner