Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
banner
   mið 15. maí 2024 14:32
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hareide vill hafa Íslending sér við hlið: Mjög jákvætt að félög í Evrópu horfi til Íslands
Icelandair
Hareide tók við sem landsþjálfari í apríl í fyrra. Jói Kalli tók við sem aðstoðarþjálfari landsliðsins snemma árs 2022.
Hareide tók við sem landsþjálfari í apríl í fyrra. Jói Kalli tók við sem aðstoðarþjálfari landsliðsins snemma árs 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hann býr yfir mikilli reynslu frá sínum leikmannaferli og hann er mjög ákveðinn í sinni vinnu og leggur mikið á sig.'
'Hann býr yfir mikilli reynslu frá sínum leikmannaferli og hann er mjög ákveðinn í sinni vinnu og leggur mikið á sig.'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Fyrir mig var mjög gott að vinna með honum og ég vona að hann geri vel í þessu starfi og nái árangri. Ég held að hann eigi eftir að gera það'
'Fyrir mig var mjög gott að vinna með honum og ég vona að hann geri vel í þessu starfi og nái árangri. Ég held að hann eigi eftir að gera það'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það var ekkert vandamál fyrir mig því ég var mjög ánægður með samstarfið með honum.'
'Það var ekkert vandamál fyrir mig því ég var mjög ánægður með samstarfið með honum.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag var greint frá því að Jóhannes Karl Guðjónsson væri hættur sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og væri tekinn við sem þjálfari danska félagsins AB.

Fótbolti.net ræddi við landsliðsþjálfarann Age Hareide um tíðindi dagsins.

„Hann sagði mér frá því að hann hefði fengið samningstilboð frá AB. Ég held það sé mikilvægt fyrir Ísland að ef þjálfarar fá tækifæri til þess að þjálfa í Evrópu að þeir grípi það tækifæri. Það er góð reynsla og það er gott merki að félög í Skandinavíu og í Evrópu horfi til Íslands í leit að þjálfurum. Það er mjög jákvætt," sagði Hareide.

„Það var mjög gott að vinna með honum, ég kann mjög vel við hann. Hann býr yfir mikilli reynslu frá sínum leikmannaferli og hann er mjög ákveðinn í sinni vinnu og leggur mikið á sig. Það var gott að þjálfa með honum og vinna með honum."

„Hann er með góða þekkingu af íslenskum fótbolta og einnig alþjóðlegum fótbolta. Fyrir mig var mjög gott að vinna með honum og ég vona að hann geri vel í þessu starfi og nái árangri. Ég held að hann eigi eftir að gera það."


Gaf Jóa Kalla meðmæli þegar hann ræddi við Öster
Jói Kalli var í viðræðum við Norrköping og Öster í lok síðasta árs.

„Ég vissi af þeim viðræðum. Félög tala oft við marga þjálfara áður en þjálfari er ráðinn. Ég þekki fólkið hjá Öster mjög vel og ég gat gefið honum góð meðmæli. Það var ekkert vandamál fyrir mig því ég var mjög ánægður með samstarfið með honum."

„Það er alltaf sorglegt þegar einhver fer, en við þurfum að leita að nýjum manni og kandídötum. Þegar Jörundur og Toddi koma til baka frá FIFA þinginu þá mun ég setjast niður með þeim og ræða við þá varðandi hver tekur við sem aðstoðarþjálfari."


Þeir Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, og Þorvaldur Örlygsson, formaður sambandsins, eru um þessar mundir í Bangkok í Tælandi þar sem 74. þing FIFA er haldið.

Vill áfram að hafa Íslending sér við hlið
Hareide var spurður hvort hann væri með einhverjar óskir varðandi aðstoðarþjálfarann. Vill hann hafa Íslending sér við hlið?

„Já, ég sagði við Jörund í dag að við ættum að leita að íslenskum þjálfara. Mér finnst það góð nálgun að vera með mann frá því landi sem ég starfa hjá. Þegar ég var með Danmörku þá var ég með Jon Dahl Tomasson."

Sögufrægt félag
Hareide hefur marga fjöruna sopið í boltanum og var hann því spurður út í félagið sem Jói Kalli er tekinn við. AB er í dönsku C-deildinni og er einn íslenskur leikmaður á mála hjá félaginu. Það er Ágúst Eðvald Hlynsson.

„Ég þekki til félagsins, spilaði á móti liðinu þegar ég var þjálfari Bröndby fyrir um 20 árum. AB var eitt af stóru liðunum í Danmörku þá. Þeir voru í efstu deild í mörg ár og unnu bikarinn 1999. Margir góðir leikmenn komu frá Akademisk Boldklub. Hjá félaginu er kúltúr og að ég held möguleiki til að rísa upp aftur og komast aftur upp á hærra stig. Fjárhagsvesen fór illa með félagið á sínum tíma en ég held að það sé möguleiki fyrir félagið til að komast aftur í efstu deild."

Tækifæri til að æfa varnarleikinn
Að lokum var Hareide spurður út í næstu leiki landsliðsins, vináttuleiki gegn Englandi og Hollandi í næsta mánuði.

„Tveir auðveldir leikir," sagði Hareide og hló. „Við fáum þarna góða æfingu í varnarleik og gæti verið nauðsynleg upp á framhaldið. Við þurfum að geta haldið 1-0 forystu. Með betri varnarvinnu gegn Úkraínu hefðum við getað klárað það verkefni. Þetta er gott tækifæri til að æfa varnarleik og svo getum við kannski séð nokkur ný andlit og kynnst nýjum leikmönnum," sagði Hareide.
Athugasemdir
banner
banner