Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   mið 15. maí 2024 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hver verður næsti aðstoðarþjálfari Íslands? - Tveir augljósir kostir
Icelandair
Age Hareide og Jóhannes Karl Guðjónsson.
Age Hareide og Jóhannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðsins.
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U19 landsliðsins.
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U19 landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Stefán Gíslason.
Stefán Gíslason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir Ottesen.
Sölvi Geir Ottesen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þau óvæntu tíðindi voru að berast að Jóhannes Karl Guðjónsson sé hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands akkúrat mánuði eftir að hann framlengdi samning sinn í starfinu. Hann er að taka við sem aðalþjálfari AB sem er í þriðju efstu deild í Danmörku og situr þar um miðja deild.

KSÍ segir í tilkynningu sinni að stefnt sé að því að ráða nýjan mann í þetta starf sem allra fyrst en það eru rúmar tvær vikur í að hópurinn komi saman fyrir æfingaleiki í júní gegn Englandi og Hollandi. Báðir leikir eru ytra.

En hver tekur við þessu áhugaverða starfi? Þetta er spennandi starf sem býður upp á framtíðarmöguleika eins og sést hefur með Heimi Hallgrímsson, Frey Alexandersson og nú síðast Jóhannes Karl. Skoðum aðeins möguleikana.

Tveir augljósir kostir
Fyrirfram eru tveir augljósir kostir í starfið en það yrði þá innanbúðar ráðning hjá KSÍ. Það eru tveir mjög svo spennandi þjálfarar að starfa í yngri landsliðunum: Davíð Snorri Jónasson og Ólafur Ingi Skúlason.

Davíð Snorri hefur gert afar fína hluti með U21 landsliðið og áður kom hann U17 landsliðinu á lokakeppni Evrópumótsins. Ólafur Ingi er þá fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður til margra ára sem kom U19 landsliðinu á Evrópumótið í fyrra. Afar efnilegur þjálfari þar á ferð sem var sterklega orðaður við KR eftir síðasta tímabil. Þeir voru reyndar báðir orðaðir við KR en höfnuðu því starfi.

Það væri líklega einfaldast fyrir KSÍ að ráða annan hvorn þeirra í þetta starf og ef veðbankar væru með stuðla, þá væru þeir eflaust eftir á blaði.

Þjálfari með tengingu við Age Hareide
Áður en Age Hareide tók við íslenska landsliðinu í fyrra, þá hafði hann þjálfað tíu Íslendinga á löngum ferli sínum. Bjarki Gunnlaugsson var hjá honum árið 1997 hjá Molde, Hilmar Björnsson og Jakob Már Jónharðsson voru hjá honum hjá Helsingborg, næstur var svo Árni Gautur Arason hjá Rosenborg, svo komu þeir Birkir Bjarnason, Indriði Sigurðsson og Stefán Gíslason hjá Viking, Alfreð Finnbogason hjá Helsingborg, Kári Árnason hjá Malmö og loks Hólmar Örn Eyjólfsson hjá Rosenborg.

Af þessum hefur Stefán Gíslason farið lengst í þjálfun en hann hefur þjálfað Hauka og Leikni hér heima, ásamt því að stýra Lommel í Belgíu. Er hann því kannski áhugaverður kostur fyrir Hareide.

Svo er Hareide með ríkt tengslanet á Norðurlöndum og klárlega möguleiki að hann tali við erlenda þjálfara sem hann hefur unnið með um þetta starf. Hefur hann fengið leikgreinanda frá Danmörku og sænskan njósnara í sitt teymi hjá íslenska landsliðinu og líklega ekki útilokað að hann reyni að fá erlendan aðstoðarþjálfara sem hann þekkir.

Einhver sem er í starfi hér heima?
Þegar Jói Kalli var ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari, þá var hann í starfi sem þjálfari ÍA hér heima. KSÍ hefur sýnt að sá kostur er skoðaður að ráða þjálfara sem er nú þegar í starfi.

Það eru nokkrir efnilegir þjálfarar í Bestu deildinni sem gætu kannski skoðað það að gerast aðstoðarþjálfari hjá landsliðinu, sjá möguleika í því. Sölvi Geir Ottesen hlýtur að vera einn þeirra en hann er með mikla landsliðsreynslu sem leikmaður og hefur vakið athygli fyrir flott starf sem hann hefur unnið sem aðstoðarþjálfari Víkings. Hefur einnig starfað sem aðstoðarþjálfari U21 landsliðsins og getið af sér gott orð í því.

Halldór Árnason (Breiðablik) og Jökull Elísabetarson (Stjarnan) eru báðir mjög svo efnilegir þjálfarar sem væru örugglega flottir kandídatar í þetta starf, en þeir eru báðir nýverið búnir að semja sem aðalþjálfarar hjá sínum félögum og erfitt að sjá þá yfirgefa þau störf á næstunni.

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, er einn af aðalþjálfurum Bestu deildarinnar sem er með landsliðsreynslu. Hann er að taka sín fyrstu skref í þjálfun og gæti litið á þetta sem næsta skref á sínum þjálfaraferli ef það býðst. Er líklega ekki í mjög öruggu starfi hjá KA þessa stundina eftir erfiða byrjun á tímabilinu.

Í Lengjudeildinni eru nokkuð stórir prófílar sem væru örugglega áhugaverðir kostir. Brynjar Björn Gunnarsson (Grindavík), Gunnar Heiðar Þorvaldsson (Njarðvík) og Hermann Hreiðarsson (ÍBV) eru allir með mikla landsliðsreynslu og eru metnaðarfullir þjálfarar.

Hvað með Aron Einar?
En hvað með bara Aron Einar Gunnarsson? Landsliðsfyrirliði til margra ára og gríðarlega stór karakter í þessu landsliði. Hefur ekki getað spilað mikið á undanförnum mánuðum vegna meiðsla og það hefur verið svolítið til umræðu að hann komi inn í teymið. Hann er þó enn með hugann við að spila og örugglega ekki auðvelt að sannfæra hann um að gerast aðstoðarþjálfari strax. En í framtíðinni er það eflaust möguleiki.
Athugasemdir
banner