Það hefur aldrei verið eins skemmtilegt að vera íslenskur fótboltaáhugamaður og þessa stundina. Íslenska landsliðið hefur aldrei verið eins nálægt því að komast á HM.
Stórskemmtileg riðlakeppni er að baki og framundan eru umspilsleikir um að komast til Brasilíu á næsta ári. Sama hver niðurstaðan þar verður er ljóst að árangurinn eftir komu Lars Lagerback hefur verið miklu betri en flestir þorðu að vona.
Stórskemmtileg riðlakeppni er að baki og framundan eru umspilsleikir um að komast til Brasilíu á næsta ári. Sama hver niðurstaðan þar verður er ljóst að árangurinn eftir komu Lars Lagerback hefur verið miklu betri en flestir þorðu að vona.
Í okkar augum er Lagerback orðinn Íslendingur.
Ég tók saman sjö ógleymanleg „móment" úr riðlakeppninni. Það er erfitt að raða þeim upp en ef ég ætti að velja eitthvað væri það þrennan hjá Jóa Berg og endurkoman í Bern. Að vera á staðnum var einstakt og mun aldrei gleymast.
Þessu er því raðað upp í tímaröð.
- Alfreð Finnboga sleppur í gegn á móti Noregi
Fyrsti leikur Íslands var heimaleikur gegn Noregi. Sigur 2-0 varð niðurstaðan. Sannkölluð óskabyrjun. Markmannsstaðan var mikið til umræðu fyrir keppnina en Hannes var magnaður í leiknum. Ísland komst yfir með marki Kára Árnasonar og Alfreð Finnbogason innsiglaði svo sigurinn þegar hann slapp einn í gegn. „Mómentið" þegar áhorfendur fylgdust með Alfreði sleppa í gegn frá miðlínu og kláraði svo listilega. Stigin þrjú voru nánast í höfn.
- Fjölmiðlafárið eftir ummæli Arons í Albaníu
Það er ekki hægt að sleppa þessu. Fjölmiðlafárið var algjört eftir viðtal Arons Einars fyrirliða hér á Fótbolta.net. Ummæli sem eru löngu fyrirgefin enda viðbrögð KSÍ og Arons sjálfs eins og best verður á kosið. Aron hefur svo sýnt það alla undankeppnina að hárrétt var að henda fyrirliðabandinu á hann. Leiðtogi og ótrúlega sterkur karakter.
- Sigurmark Gylfa í Albaníu
Það voru gríðarlega erfiðar aðstæður í Albaníu enda rigndi eins og hellt væri úr fötu og völlurinn rennandi blautur. En íslenska liðið gerði gríðarlega vel í því að ná í þrjú stig. Staðan var jöfn 1-1 og Ísland fékk aukaspyrnu á 81. mínútu. Gylfi Þór Sigurðsson tók spyrnuna og skrúfaði knöttinn stórglæsilega inn. Fagnaði af innlifun enda mikilvægið gríðarlegt.
Smelltu á myndina til að sjá svipmyndir úr leiknum
- Frammistaða Gylfa í Lubljana
1-0 undir í Slóveníu í hálfleik. Það voru ekki margir bjartsýnir á að við næðum þremur stigum úr þeim leik. En breytingar Lagerback og frammistaða Gylfa voru stærstu ástæður þess að Ísland tók þrjú stig með sér heim frá Lubljana. Gylfi gjörsamlega tók leikinn yfir í seinni hálfleiknum og skoraði bæði mörk Íslands. Það fyrra var magnað mark úr aukaspyrnu sem sjá má hér að neðan.
- Jói Berg innsiglar þrennuna og endurkomuna í Bern
Karakter íslenska liðsins sást vel í kraftaverkinu í Bern. 4-1 undir gegn Sviss á þeirra heimavelli náði Ísland að jafna 4-4. Vendipunktur leiksins var mark Kolbeins Sigþórssonar sem kom okkur inn í leikinn á ný. En minnistæðust er þó ein flottasta þrenna sem maður hefur séð. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði þrjú glæsileg mörk og andrúmsloftið þegar hann jafnaði í 4-4 í blálokin er eitthvað sem ekki er hægt að toppa.
- Stemningin í stúkunni gegn Kýpur á Laugardalsvelli
„Það hefur verið stígandi í stemningunni hér í Laugardalnum með hverjum leiknum. Tólfan hefur verið frábær í undanförnum leikjum en aldrei eins góð og núna. Það var ótrúlegt að spila fyrir framan þennan stuðning," sagði Hannes eftir leikinn. Tólfan fer sífellt stækkandi og sífellt fleiri eru tilbúnir að taka undir.
- Þegar umspilssætið var staðfest á Ullevaal
Síðast en alls ekki síst. Þegar (Staðfest) sviginn var settur við umspilssætið eftir jafnteflið í Osló. Leikmenn biðu á miðjum vellinum eftir lokatölum úr leik Sviss og Slóveníu. Þegar þau voru ljós ætlaði allt um koll að keyra og leikmenn fögnuðu að sjálfsögðu fyrir framan frábæra íslensku stuðningsmenn sem áttu leikvanginn algjörlega. Þakka fyrir að hafa verið í stúkunni en ekki heima í stofu...
Myndband sem Sigurjón Jónsson á 433.is tók
Hvaða móment stendur upp úr að þínu mati?
Athugasemdir